Allir rithöfundar eru svo daprir og leiðir í byrjun árs og sjaldnast eru þeir nú sérstaklega léttir og kátir fyrir.
Jólabókaflóðið, listamannalaunastressið og bugunin yfir allri athyglinni eða algjöran skort á henni gerir alla alveg ruglaða og búna á því svo vorin fara oft hægt af stað hjá þessari stétt.
Þess vegna er það kannski bara fínt að Bókmenntahátíð í Reykjavík hafi verið í apríl núna. Það hressir flesta við að fara aftur aðeins út úr húsi. Þýðendur eru líka svo skemmtilegir. Ástarmálin þeirra eru svo skrautleg og upplífgandi að það kryddar öll partíin á hátíðinni. Strax á mánudeginum var ég búin að fara í kampavínspartí með einum harðgiftum þýðanda og nýja kærastanum hans sem endaði á að við Pedro Gunnlaugur fengum að sjá vídeó sem fengu okkur smá til að vilja brenna úr okkur hornhimnurnar. Þannig eiga öll partí að enda.
Allt gekk vel á hátíðinni. Á lokaballið mætti reyndar smá hópur af 19 ára stelpum sem fannst þetta glatað því Yrsa Sig var ekki á svæðinu. Þær enduðu eiginlega á að rjúka út í fússi. Ég skil það reyndar alveg vel. Öll böll verða betri ef Yrsa mætir.
Nú er byrjað að glitta í vorbækurnar. Bókin Prestsetrið eftir Ármann Jakobsson er að koma út í vikunni. Henrik Geir Garcia var að gefa út sína fyrstu bók, Læknir verður til, og útgáfupartíið hans á Kex var víst alveg geggjað eins og þeirra hjá Krónikunni er von og vísa.
Benedikt er núna í vor líka að gefa úr seríu af nýþýddum eðal norrænum bókum. Það eru allir að tala um að bókin Smáatriðin eftir la Genberg, sem fékk August-prisen 2022 og var að koma út í þýðingu Þórdísar Gísladóttur, sé algjört æði.
Það þýðir ekkert að fara út í sumarið án þess að vera með nokkrar bækur tilbúnar með sér í bústaðinn og flugið og svalahangsið. Ég sit núna úti þessa daga þegar það kemur sumar, semsé alltaf þegar það er þurrt og hitinn fer upp í 7 gráður, úti á svölum með bókina Urðarhvarf eftir Hildi Knútsdóttur. Hún er sennilega næsti íslenski höfundurinn sem á eftir að slá í gegn í útlöndum.
Og úr því að minnst er á velgengni í öðrum löndum. Síðustu árin hefur það orðið sífellt algengara að íslenskir höfundar noti alls konar samfélagsmiðla til að kynna störf sín og bækur.
„Rithöfundasambandið ætti að fá hana til að kenna okkur hinum risaeðlunum á þetta.“
Ein skærasta stjarna íslensku ljóðasenunar, Hera Lind Birgisdóttir, sem hlaut einróma lof fyrir bókina sína Hugfangin, er núna orðin risastjarna á samfélagsmiðlinum Tik Tok. Hún er komin með vel yfir 200.000 fylgjendur og vinsælustu vídeóin hennar þar með tæp 700.000 þúsund áhorf. Rithöfundasambandið ætti að fá hana til að kenna okkur hinum risaeðlunum á þetta.
Þetta verður gott sumar. Flestir góðir útgefendur eru orðnir smá pirraðir á að vera ekki búnir að fá öll handrit fullkláruð til sín, en ekki alveg brjálaðir, svo það eru enn þá nokkrar vikur áður en allir byrja að pissa blóði af kvíða yfir að ná kannski ekki að klára handritin sín. Og hvað er hægt að biðja um meira en gulllitað piss og góðan bjór í góðu veðri?
Athugasemdir