Ýmsir hafa tekið andköf yfir niðurskurðarhnífnum sem mundaður hefur verið í kringum menningarstofnanir Kópavogs undanfarnar vikur en meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bænum hefur nú samþykkt tillögur bæjarstjórans í þeim efnum. Tillögurnar sem voru leyndarmál fram að afgreiðslu fela meðal annars í sér niðurlagningu Héraðsskjalasafns Kópavogs, án þess að starfsemi þess hafi verið komið annað og niðurlagningu á rannsóknarhluta Náttúrufræðistofu Kópavogs þrátt fyrir að ljóst sé að hún muni þá ekki teljast viðurkennt safn lengur enda ber viðurkenndum söfnum að sinna rannsóknarstarfi. Meirihlutinn ætlar reyndar að hafa einn mann í vinnu áfram við að rannsaka safnkostinn – uppstoppuð dýr og skeljasafn sem reyndar er fullrannsakað. Þá ætlar meirihlutinn að búa til „upplifunarrými“ og leigja út sali.
Ég hef setið í lista- og menningarráði Kópavogs síðustu ár og get því vottað að allt síðasta kjörtímabil vann ráðið í sátt og samlyndi, án nokkurs leynimakks eða vanhugsaðra tilskipanna að ofan. Því er ekki að heilsa nú. Nýr bæjarstjóri hefur nefnilega ákveðið að hún viti allt best og því var ráðinu, sem samkvæmt bæjarmálasamþykkt og erindisbréfi fer með menningarmál bæjarins, vikið til hliðar. Ráðið fer jafnframt með stjórn bókasafnsins í samræmi við lög um bókasöfn, tónlistarhúss Kópavogs – Salarins, Listasafns Kópavogs – Gerðarsafns, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Lista- og menningarsjóðs. Auk þess fer ráðið með og sinnir stefnumörkun í menningarmálum og er ráðgefandi til bæjarráðs um þau mál. Það var einmitt það sem ráðið gerði síðasta kjörtímabil með því að leggja fram nýja menningarstefnu sem unnin var í samráði við ýmsa starfsmenn menningarmála bæjarins sem og íbúa bæjarins. Stefnan var svo samþykkt af bæjarstjórn 5. maí í fyrra.
En nú er sem sagt kominn nýr bæjarstjóri í Kópavogi sem telur það helsta hlutverk sitt að ráða öllu sjálf og lætur smáatriði eins og lýðræði og góða stjórnsýsluhætti ekkert trufla sig. Þess vegna fékk hún tilkippilegt ráðgjafafyrirtæki til að skrifa skýrslu um menningarstofnanir bæjarins og átti það að hafa hagræðingu og útvistun að leiðarljósi. Ekki vildi þó betur til en að skýrslan sem kostaði tvær milljónir er svo stútfull af misskilningi, rangfærslum og almennu þekkingarleysi á menningarmálum að hún væri ekki einu sinni tæk sem skólaverkefni hvað þá grundvöllur faglegrar ákvarðanatöku í næststærsta sveitarfélagi landsins. Ef tilefnið væri ekki svona dapurlegt og alvarlegt mætti skemmta sér vel yfir skýrslunni og tillögunum sem bæjarstjórinn byggir á henni en þar eru ófá gullkorn. Öll fjárframlög bæjarins til menningarhúsanna eru til að mynda skráð sem „rekstrarhalli“ þrátt fyrir að húsin séu vel rekin og innan fjárheimilda. Þá má hlæja af þeim misskilningi að hægt sé að spara tæpar átta milljónir á ári með því að hafa Gerðarsafn lokað á mánudögum en auðvitað er það ekki svo að allir starfsmenn safnsins bíði aðgerðarlausir í afgreiðslunni eftir listunnendum. Rétt tala er tæpar tvær milljónir enda vinnur starfsfólk safnsins við rannsóknir, skipulagningu sýninga og ýmislegt annað á venjulegum skrifstofutíma, óháð opnunartíma safnsins. Hinsvegar mætti spara 4.285.714 krónur á ári með því að gefa bæjarstjóranum frí á mánudögum enda er hún þriðji hæstlaunaðasti sveitarstjóri í heimi. Ef vel tekst til mætti reyna bæjarstjóraleysi aðra daga vikunnar líka. Ástandið getur varla versnað við það enda gerir bæjarstjórinn meira ógagn en gagn þessa dagana.
Fjarstæðukenndasta hugmyndin fannst mér þó sjálfsafgreiðslukassinn sem lagt var til að leysti starfsmann í afgreiðslu Gerðarsafns alveg af. Safnaráð var fljótt að benda á að starfsfólk í afgreiðslu listasafna taki ekki einungis við greiðslum heldur veiti upplýsingar og séu gæslumenn verðmætra og oft viðkvæmra listaverka.
En þótt hægt sé að hlægja að vitleysunni er veruleikinn sem blasir við ekkert fyndinn. Fjörutíu ára sögu Náttúrufræðistofu Kópavogs, menningar- og rannsóknarstofnunar sem hefur miðlað þekkingu og kveikt áhuga á náttúruvísindum hjá kynslóðum Kópavogsbúa og nágrannasveitarfélaga og unnið ómetanlegt rannsóknarstarf á sviði vatnavistfræði, er lokið. Héraðsskjalasafnið hefur í raun verið lagt niður án þess að tryggt sé að lögbundin skjalavarsla bæjarins sé tryggð. Skorið er niður hjá hina stórkostlega Bókasafni Kópavogs sem fær tæplega 200.000 heimsóknir og lánar út 160.000 bækur á ári hverju. Gerðarsafni, einu flottasta og faglegasta listasafni landsins verður falið að setja upp sýningar á náttúrugripum og reifaðar eru hugmyndir um að listamönnum sé ekki greitt fyrir vinnu sína. Niðurskurðarhnífurinn hangir enn yfir Salnum en framtíð hans var slegið á frest. Upphaflega fannst bæjarstjóranum upplagt að breyta honum í skemmtistað – en það er það sem mun gerast verði starfseminni útvistað.
Ég hef starfað í stjórnmálum frá 2009 og hef upplifað allskonar vinnubrögð á þeim tíma, góð og slæm. Aldrei nokkurn tímann hef ég þó orðið vitni að öðru eins. Bæjarstjóri Kópavogs, með stuðningi meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna (sem þó hlutu aðeins 48,5% atkvæða í síðustu sveitarstjórnarkostningum), valsar um stofnanir bæjarins eins og einræðisherra, rænir völdum frá nefndum og ráðum sem eiga að fara með ákveðna málaflokka og leggur niður heilu stofnanirnar í trássi við samþykktar stefnur og án þess að farið hafi fram kostnaðargreining eða stefnumörkun og án vottar af faglegum vinnubrögðum. Ekki er annað að sjá en að aðrir kjörnir fulltrúar sjálfstæðis- og framsóknarmanna séu sáttir við vinnubrögðin því þeir hafa með atkvæðum sínum í lista- og menningarráði, bæjarráði og bæjarstjórn samþykkt allar tillögur bæjarstjórans án þess að nokkurs staðar glitti í sjálfstæða eða gagnrýna hugsun. Til hagræðingar og sparnaðar mætti því kannski skipta þeim út fyrir sjálfsafgreiðslukassa?
Athugasemdir (2)