Á aðfangadag árið 1998 stóð Luan Dawson, þrjátíu og þriggja ára forritari hjá Microsoft, á bryggju í skemmtigarðinum Disneylandi í Bandaríkjunum. Hann beið þess ásamt eiginkonu sinni og ungum syni að stíga um borð í bát sem sigldi um garðinn. En jólafríi fjölskyldunnar lauk með blóðugum harmleik. Þegar starfsmaður Disneylands batt bátinn við bryggju brotnaði stórt þvertré af skipsskrokknum og kastaðist á Luan. Luan lést og eiginkona hans hlaut alvarlega andlitsáverka.
Disneyland hafði frá opnun árið 1955 þótt skemmtigarður í hæsta gæðaflokki þar sem ýtrustu öryggiskröfum var framfylgt. Hvað fór úrskeiðis? Starfsfólk garðsins var ekki í nokkrum vafa.
„Luan Dawson greiddi með lífi sínu.“
Tveimur árum fyrir slysið hafði framkvæmdastjóri Disneylands, Paul Pressler, leitað til ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey til að auka hagnað skemmtigarðsins. Við úttekt sína spurðu ráðgjafar McKinsey viðhaldsstarfsmann að því til hvers öryggisbelti rússíbana væru ástandsskoðuð á hverjum einasta degi þegar tölfræðin sýndi að þau biluðu aldrei. Starfsmaðurinn gapti. „Ástæðan fyrir því að þau bila aldrei er sú að þau eru ástandsskoðuð á hverjum degi,“ svaraði hann.
McKinsey lagði til að viðhald í garðinum yrði skorið niður, starfsfólki fækkað, laun lækkuð og störfum úthýst. Sparnaðarráðunum var fylgt. Luan Dawson greiddi með lífi sínu.
Skuggahliðar ráðgjafarfyrirtækja
Meðal stjórnenda fyrirtækja hefur löngum þótt vandað verklag að leita liðsinnis alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja. Nýverið hefur kastljósið hins vegar beinst í auknum mæli að skuggahliðum atvinnugreinar ráðgjafa.
Á síðasta ári kom út bók eftir tvo blaðamenn The New York Times um vafasama starfshætti ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey. Sem dæmi má nefna starfaði McKinsey með hinu alræmda lyfjafyrirtæki Purdue Pharma sem framleiðir verkjalyfið OxyContin og talið er bera ábyrgð á banvænum ópíóíðafaraldri í Bandaríkjunum og víðar. Þegar sala lyfsins staðnaði lagði ráðgjafarfyrirtækið til að markaðssetningu yrði beint sérstaklega að þeim hópum sem „líklegir væru til að misnota“ lyfið.
En ekki aðeins fyrirtæki eru ginnkeypt fyrir ráðgjöf.
Í síðustu viku bárust fréttir af því að leggja ætti Héraðsskjalasafn Kópavogs niður. Er breytingin byggð á úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið KPMG vann fyrir Kópavogsbæ. KPMG lagði einnig til fækkun starfsmanna menningarhúsa bæjarins og lokun Gerðarsafns á mánudögum.
Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrum alþingismaður, benti á að ef bæjarstjóri Kópavogs, sem sætt hefur gagnrýni fyrir ofurlaun, væri ekki bæjarstjóri á mánudögum spöruðust 4,3 milljónir á ári, meira en með mánudagslokun safnsins.
Þögul þróun í stjórnkerfinu
Árið 2020 gagnrýndi breskur lávarður og ráðherra íhaldsflokksins í Bretlandi stórtæk kaup ráðuneyta á ráðgjafarþjónustu. Hann sagði slíka þjónustu ekki aðeins fjárhagslega óhagkvæma heldur gerði hún stjórnsýsluna að „ósjálfbjarga óvitum“.
Lávarðurinn er ekki einn um þá skoðun. „Æ meiri fjármunum er varið í ráðgjöf fyrirtækja á borð við KPMG, Deloitte og McKinsey – en þau gera stjórnvöld að heimskingjum,“ var fyrirsögn í breska dagblaðinu The Times. Vísaði hún til nýrrar bókar hagfræðingsins Mariönu Mazzucato, Stórsvindlið (e. „The big con“). Því meira sem stjórnvöld úthýsa, segir Mariana, „því minna kunna þau að gera. Þau hætta að fjárfesta í eigin færni og getu og tapa allri þekkingu, kunnáttu og heildarsýn.“
„Það er gott að búa í Kópavogi,“ var einu sinni sagt. En hvað olli því að gott var að búa í Kópavogi? Má vera að þar hafi legið að baki forsendur sem mældust ekki í hagnaðartölum Excel skjala en væru þær fjarlægðar – eins og daglegar skoðanir á öryggisbeltum í Disneylandi – hlytist af áþreifanlegt tap?
Skemmst er að minnast ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur um að leggja niður Borgarskjalasafn. Var sú stefnubreyting einnig tekin að undangenginni úttekt KPMG.
Í stjórnkerfinu á sér stað þögul þróun. Svo virðist sem ráðgjafarfyrirtæki sinni æ oftar verkum sem kjörnum fulltrúum og embættismönnum þeirra er ætlað að vinna. Er það gert með samþykki kjósenda?
Flott grein.-)