Hugtakið „ódáðaskuldir“, sem er nýyrði um það sem Englendingar kalla „odious debt“, er nú vel þekkt og viðurkennt í alþjóðalögum, þökk sé rússneska lögfræðingnum Alexander Sack (1890–1955) sem smíðaði viðtekna lögfræðikenningu um efnið.
Lán án leyfis
Það segir sjálft að taki ég bankalán í þínu nafni án leyfis þíns, þá getur bankinn ekki að lögum knúið þig til að endurgreiða þessa sviksamlegu skuld. Ef forstjóri tekur fé að láni í nafni fyrirtækis án heimildar eða í óþökk eigenda er fyrirtækinu ekki skylt að lögum að endurgreiða skuldina. Slíkar ódáðaskuldir eru almennt taldar ólögmætar.
Sack hélt því fram að sama regla ætti að gilda um einræðisherra sem safna skuldum í nafni ríkisins án samþykkis skattgreiðenda og sölsa féð undir sjálfa sig og sína. Í slíkum tilvikum ætti almenningur, það er skattgreiðendur, að hafa skýlausan lagalegan rétt til að hafna kröfum lánardrottna um endurgreiðslu.
Hliðstæðan er skýr. Það ætti ekki að vera lagaleg skylda skattgreiðenda að endurgreiða ódáðaskuldir sem þjófóttir landsfeður eins og til dæmis Ferdinand Marcos á Filippseyjum, Papa Doc á Haítí og Mobutu Sese Seko í Kongó, sem hét áður Saír, stofnuðu til. Enda hafa ríkisstjórnir jafnan verið tregar til að neita að endurgreiða slíkar skuldir af ótta við að afsala sér þar með aðgangi að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ríkisstjórn Suður-Afríku eftir að hvítu aðskilnaðarstjórninni var hrundið frá völdum 1994 er dæmi um það.
Finna þarf leiðir til að leysa þennan vanda til að sporna gegn skuldasöfnun þjófræðisstjórna sem og öðrum varglánveitingum (e. predatory lending) án þess að lausnin bitni á lögmætri lánastarfsemi.
Hvað er til ráða?
Til að endurheimta ránsfeng einræðisherranna og fávaldanna í kringum þá þarf annaðhvort eignarnám svo sem lög gera ráð fyrir eða þá að knýja þarf lánardrottna til að hlífa saklausum vegfarendum með því að súpa sjálfir seyðið af því hversu illa þeir vönduðu val sitt á lántakendum.
Ódáðaskuldir leiða af sér ódáðaeignir sem lögmæt stjórnvöld geta með fullum rétti leyst til sín í krafti laga. Reynslan sýnir samt að ríkisstjórnir hafa ekki sýnt af sér mikla einurð eða náð miklum árangri í eftirsókn sinni eftir slíku þýfi, meðal annars í skattaskjólum.
Ódáðaeignir eru einkum af tvennum toga. Annars vegar er um að ræða eignir, þar á meðal hallir og snekkjur, sem einræðisherrar og fávaldar á þeirra snærum hafa keypt sér einkum með erlendu lánsfé. Hins vegar er um að ræða illa fenginn auð, þar á meðal enn og aftur hallir og snekkjur, sem þjófræðisseggirnir hafa komizt yfir með því að hrifsa til sín eignir almennings svo sem náttúruauðlindir sem fólkið á samkvæmt lögum, stjórnarskrám og alþjóðasáttmálum um mannréttindi.
Tryggja þarf að þýfi njóti ekki verndar lagaákvæða um einkaeignarrétt.
Þrjár leiðir til lausnar
Þrjár leiðir eru helzt færar til lausnar á þessum vanda.
Ein leiðin er að beita refsiaðgerðum gegn þeim þjófræðisseggjum sem grunaðir eru um ólöglegt eignarnám, eins og gert hefur verið við rússneska fávalda og fleiri að undanförnu. Þetta hefur verið gert með því að frysta ódáðaeignir þeirra og bíða dómsúrskurðar um áfrýjun meintra sökudólga, eða mæðra þeirra, sem segjast njóta verndar lagaákvæða um eignarrétt.
Önnur leið er að kæra þjófræðisseggi fyrir Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (MRNSÞ) sem er bær til að skylda aðildarríki sín til að virða alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (ASBSR), þar á meðal ákvæði fyrstu greinar hans um eignarrétt þjóða – þjóðareign! – á náttúruauðlindum sínum.
Í einræðisríkjum þar sem fólkið hefur engin tök á að bera hönd fyrir höfuð sér og gera lögmætt tilkall til sameiginlegra auðlinda sinna telst eignarnám slíkra auðlinda af hálfu einræðisseggja og fávaldanna kringum þá ekki aðeins vera þjófnaður heldur einnig brot gegn mannréttindum. Aðildarríkjum ASBSR, sem eru 167 talsins, er skylt að hlíta bindandi álitum MRNSÞ svo að ASBSR er í þeim skilningi æðri landslögum svo sem vera ber. Nefndin hefur þó ekki valdheimildir til að framfylgja úrskurðum sínum, heldur verður hún að láta sér nægja að nafngreina mannréttindabrjótana og hengja þá út til þerris eins og hún nafngreindi til dæmis Ísland 2007 fyrir mannréttindabrot af völdum fiskveiðistjórnarkerfisins. Málum ríkja sem virða ekki úrskurði MRNSÞ má reyna að vísa til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag.
Þriðja leiðin er að setja á laggirnar nýja alþjóðastofnun, helzt á vegum Sameinuðu þjóðanna, til að fjalla um ásakanir og ágreining um ódáðaeignir og stuðla þannig að almennu velsæmi og réttlæti. Þjóðnýting er gamalreynd leið til að snúa við misheppnaðri einkavæðingu eins og til dæmis á Íslandi eftir bankahrunið 2008. Þessa aðferð má einnig nota til að styrkja og bæta stjórn náttúruauðlinda til að stuðla að hagkvæmni og réttlæti. Norski olíusjóðurinn, nú lífeyrissjóður allra Norðmanna á jafnréttisgrundvelli, ber vitni.
Bætur til þrælahaldara?
Þrælahald er skýrt sögulegt dæmi um ódáðaeignir. Þegar þrælar voru leystir úr ánauð í brezkum nýlendum 1833, frönskum og dönskum nýlendum 1848, Rússlandi 1861 og Bandaríkjunum 1865 kröfðust margir þrælahaldarar bóta og báru við helgum einkaeignarrétti. Kröfum þeirra var yfirleitt ekki sinnt. Í Bandaríkjunum var eina undantekningin frá reglunni um frelsi án bóta sú að í höfuðborginni Washington voru 3.100 þrælaeigendum greiddir 300 dollarar í bætur fyrir hvern þræl, fjárhæð sem jafngildir nú um 8.000 dölum. Önnur undantekning frá reglunni var gerð á Haítí þar sem franska ríkið neyddi haítísku þjóðina til að greiða hátt í 8.000 fyrrverandi þrælaeigendum og afkomendum þeirra í Frakklandi miklar fjárhæðir allar götur frá 1825 til 1947. Danska ríkið greiddi mun minna eða 50 dollara á hvern þræl.
Enn ein undantekningin frá reglunni um frelsi án bóta hefur nýlega litið dagsins ljós. Ríkissjóður Bretlands greiddi 20 milljónir punda, jafnvirði 300 milljóna punda í dag, í bætur til þrælaeigenda. Bæturnar voru greiddar út strax og fjármagnaðar með bankaláni sem brezka ríkið greiddi vexti og afborgarnir af allar götur frá 1833 til 2015. Bankar höfðu hliðstæða milligöngu á Haítí. Ef greiðslum hefði verið hætt áður en ódáðaskuldin hefði verið gerð upp til fulls hefðu bankarnir fengið skellinn, ekki þrælahaldararnir. Hólpnir þrælar og afkomendur þeirra fengu engar bætur.
Fjárhagslegur og siðferðilegur lærdómur af þessum þætti í sögu þrælahalds er skýr. Aðrar ódáðaeignir, eins og þær sem safnast hafa upp í gegnum eignarnám ríkiseigna og sameignarauðlinda af hálfu spilltra stjórnvalda, þarf að skoða og fara með á sama hátt og þrælahald fyrir dómstólum. Samhljóminn milli fyrirgefningar ódáðaskulda og upptöku ódáðaeigna samkvæmt lögum þurfa dómstólar og stjórnvöld að viðurkenna og virða. Sagan bendir til að halda þurfi bankamönnum í skefjum til að tryggja framgang réttvísinnar.
Athugasemdir (2)