Réttarhöldin yfir Elizabeth Holmes, stofnanda tæknifyrirtækisins Theranos, hófust fyrir tæpum fjórum mánuðum. Kviðdómur komst að niðurstöðu í gær eftir að hafa rætt málin í sjö daga. Holmes var ákærð í ellefu liðum og fundin sek í fjórum þeirra sem snúa að svikum við fjárfesta. Kviðdómurinn sýknaði hana meðal annars af því að hafa vísvitandi logið að almenningi. Hver ákæruliður getur leitt til allt að 20 ára fangelsisvistar og því á Holmes yfir höfði sér allt að 80 ára dóm. Aðeins var sakfellt í málinu í gær en dómur verður kveðinn upp síðar. Sakfellingin sendir skýr skilaboð til Kísildalsins: Það eru afleiðingar af því að ljúga að fjárfestum.
Elizabeth Holmes er fædd árið 1985 og ólst upp á vel stæðu heimili í Washington DC. Hún hélt sig til hlés sem barn en var kurteis. Níu ára gömul skrifaði hún föður sínum bréf þar sem hún sagðist „þrá mest af öllu að uppgötva eitthvað nýtt, eitthvað sem mannkynið vissi ekki að væri mögulegt“.
Holmes hóf nám í efnaverkfræði við Stanford-háskóla árið 2002 þar sem hún fékk þá hugmynd að framleiða plástra sem geta sagt til um sýkingar og veitt sýklalyf eftir þörfum. Phyllis Gardner, sérfræðingur í klínískri lyfjafræði við háskólann, sagði Holmes að slíkt myndi ekki ganga upp. „Hún starði bara á mig,“ segir Gardner í samtali við BBC. Holmes var sannfærð um eigin snilligáfu að sögn Gardner. „Hún hafði ekki áhuga á sérþekkingu minni og það vakti með mér óhug“.
Örfáir blóðdropar áttu að geta sagt til um hundruð sjúkdóma
Holmes hélt ótrauð áfram, hætti í háskólanáminu og stofnaði líftæknifyrirtækið Theranos árið 2003, þá aðeins 19 ára gömul. 13 árum síðar kom hún af krafti inn í Kísildalinn þegar hún hélt því fram að hafa þróað byltingarkennda blóðskimunartækni sem gæti greint hundruð sjúkdóma, líkt og krabbamein og sykursýki, með örfáum blóðdropum. Með þessari byltingarkennda nýju tækni yrðu nálar úr sögunni. Holmes sannfærði marga valdamikla einstaklinga til að fjárfesta í fyrirtækinu eða sitja í stjórn þess. Eða bæði. Þeirra á meðal eru fjölmiðlajöfurinn Rupert Murdoch og tæknirisinn Larry Ellison. Þá áttu tveir áhrifamiklir stjórnmálamenn sæti í stjórn Theranos, Henry Kissinger fyrrverandi utanríkisráðherra og James Mattis fyrrverandi varnarmálaráðherra.
Þegar best lét var Theranos metið á níu milljarða dollara eða sem nemur tæpum 1.200 milljörðum króna. Árið 2015 fór að halla undan fæti þegar uppljóstrari innan fyrirtækisins steig fram og sagðist efast um greiningartæki fyrirtækisins. The Wall Street Journal skrifaði ítarlegar fréttaskýringar um fyrirtækið þar sem í ljós kom að Theranos stundaði rannsóknir sínar með tækjum sem þegar voru aðgengileg á markaði. Fljótlega kom í ljós að um stærðarinnar blekkingarleik var að ræða. Starfsleyfi fyrirtækisins var afturkallað árið 2016 og tveimur árum síðar var Theranos leyst upp.
Holmes var handtekin í júní 2018, sökuð um að hafa svikið fjárfesta um 945 milljónir dollara, sem nemur rúmlega 123 milljörðum króna. Holmes var látin laus gegn tryggingu og árið 2019 giftist hún William Evans, 27 ára erfingja Evans-hótelkeðjunnar. Þau eignuðust son í júlí í fyrra. Nýtilkomið móðurhlutverk Holmes var talið geta haft áhrif á ákvörðun kviðdómsins en svo virðist ekki hafa verið.
Neitar öllum ásökunum en viðurkennir mistök
Holmes neitaði sök í öllum ákæruliðum og á meðan réttarhöldunum stóð sakaði hún fyrrverandi kærasta sinn og viðskiptafélaga, Ramesh “Sunny” Balwani, um andlegt ofbeldi og kynferðislega misnotkun sem átti sér stað á þeim tíma sem hún á að hafa svikið fjárfesta. Holmes segir að ofbeldið hafi haft áhrif á andlegt ástand hennar á þessum tíma.
Balwani, sem er 19 árum eldri en Holmes, neitar ásökununum Holmes og segir þær svívirðilegar. Réttarhöld yfir Balwani hefjast í næsta mánuði en ákærur á hendur honum byggja á svipuðum forsendum og gegn Holmes. Talið er líklegt að dómur verði ekki kveðinn upp yfir Holmes fyrr en þeim réttarhöldum lýkur. Holmes er því frjáls ferða sinna, enn sem komið er, og mun eflaust nýta tíma sinn vel með hálfs árs syni sínum. Blaðamenn sem voru viðstaddir sakfellinguna í gær segja að Holmes hafi sýnt litlar sem engar tilfinningar þegar niðurstaða kviðdómsins var kunngjörð. Hún faðmaði eiginmann sinn og foreldra áður en hún yfirgaf dómsalinn.
Málið hefur óneitanlega vakið heimsathygli og til er bók og heimildamynd um Holmes og Theranos. Á næstunni er svo von á sjónvarpsþáttaröð og kvikmynd þar sem atburðarásin verður rakin nánar. Enn hefur þó ekki verið útskýrt nákvæmlega hvað Holmes gekk til með því að ljúga til um blóðskimunartæknina.Var það þrýstingurinn um að ná árangri sem bar Holmes ofurliði? Réttarhöldin vörpuðu í raun ekki ljósi á hvað nákvæmlega átti sér stað þar sem Holmes hélt því statt og stöðugt fram að hún hefði aldrei logið meðvitað að fjárfestum. Hún viðurkenndi eingunis að hafa gert mistök.
Athugasemdir