Í gegnum tíðina hefur samferðafólk mitt átt það til að kalla mig Pollýönnu. Var nú ekkert ánægð með þetta viðurnefni á árum áður. Var ung og metnaðargjörn, alin upp í stígvélum í frystihúsi, verkglöð og göslaðist áfram án sérstakra tengsla við eigin tilfinningar eða líkamlega líðan. Fannst þetta því ekkert eiga neitt sérstaklega við mig. Fannst ég aðeins meira töff en svo að vera einhver krúttleg og ofurjákvæð Pollýanna. Málið er að ég skildi ekki þessa samlíkingu enda hafði ég aldrei lesið bækurnar um hana – voru bara ekki nógu töff fyrir mig. Eða svo hélt ég.
Lærdómurinn í reynslunni
Öll reynsla kennir okkur eitthvað. Reynslan er miserfið og reynir mismikið á okkur. Við lærum því snemma að bregðast við og vinna úr ólíkri reynslu og erum við flest ef ekki öll með einhver ósjálfráð varnarviðbrögð. Við verjum okkur gegn óþægilegum samtölum, vandræðalegum þögnum, sambandsslitum, skilnaði foreldra, förum í erfið próf, frestum erfiðum verkefnum, við mætum svefnvana í vinnu og reynum að koma okkur í gegnum daginn, hvert með okkar nefi. Grunnstillingin mín varð mjög snemma að bregðast við lífinu með því að reyna að finna gleðina og kærleikann. Hef oft farið yfir strikið í því og valtað yfir mínar eigin tilfinningar með einhverri yfirborðsjákvæðni. Flúið í ýkta jákvæðni og orðið eins og Hemmi í Lego Movie sem söng: „Það er allt svo frábært“ án nokkurrar tengingar við veruleikann. Eins hef ég líka dottið niður, bognað, og þurft að hafa mjög mikið fyrir því að reyna að finna gleðina og kærleikann í aðstæðum.
Hafnaði Pollýönnu
Yfir nokkurn tíma reyndi ég að halda Pollýönnu-hliðinni á mér niðri. Sannfærð um að hún gagnaðist lítið í alvöru lífsins og þeim verkefnum sem fyrir lágu. Þetta tókst ágætlega og lífið gekk alveg án hennar. Síðasta áratug hefur hún verið að koma til baka. Í þetta skiptið hef ég ekki hafnað henni heldur tekið henni opnum örmum. Hún er ekki alveg á sömu sjálfstýringunni og hér í denn og jafn ótengd líðan og veruleikanum hverju sinni, heldur nýti ég mér viðhorf hennar meira meðvitað. Ef ég festist í hausnum á mér í einhverju verkefni eða persónulegri áskorun, þá lít ég upp, horfi á fólk, sendi bros og fæ bros. Það getur oft verið magískt og fjarlægt ótta t.d. á erfiðum fundum sem ég hef setið í gegnum árin. Tengt okkur betur inn í aðstæður sem við erum stödd í. Þetta krefst æfingar í dagsins önn og nokkuð víst að ekki allt verði frábært sjálfkrafa, en við fáum ljúf móment hér og þar, jafnvel þögul með fullkomlega ókunnugu fólki, bara í gegnum stutt bros. Lífið verður þannig jafnt og þétt, skemmtilegt og þar með mörg verkefnin ögninni auðveldari. Hinir félagslegu töfrar, eins og dr. Viðar Halldórsson fjallaði svo skemmtilega um í nýlegu viðtali, eru nefnilega þarna úti ef við viljum.
Fylgifiskarnir
Ég hef líka fundið nokkra fylgifiska þessa viðhorfs sem ég hefði einhvern tíma ranghvolft augunum yfir en hef lært að tileinka mér. Einn þeirra er til dæmis sú ákvörðun að treysta almennt fólki. Ef fólk stendur ekki undir því trausti þá er það bara einangrað dæmi, því ég nenni ekki að fara í gegnum lífið með vantraust sem grunnstillingu. Því fólk er almennt gott. Sem dæmi þá áttaði ég mig á því þegar ég sat á þingi hér fyrir allnokkru að við höfum smíðað mörg af okkar mikilvægustu kerfum með svo miklum innbyggðum vörnum gegn mögulegum svindlum á þessum sömu kerfum að upphafleg markmið, öflugur stuðningur við fólk og fyrirtæki á ýmsum sviðum, týnist og kerfin verða þar með veikari en þau þurfa að vera. Traustið leysir oftar jákvæða krafta úr læðingi til lengri tíma en vantraustið veikir þá.
Ég þreifst um langt skeið á streitukenndri fullkomnunaráráttu. Merkilegt nokk þá var ákveðinn drifkraftur í því að óttast mistök. En hólímóli hvað það er lýjandi, já og leiðinlegt. Leið Pollýönnu er talsvert afslappaðri leið til að lifa af og krafturinn í gleði og kærleika er talsvert úthaldsmeiri og drífur lengra. Ég hef allavega ákveðið að trúa því og með bjartsýnina í mínu liði þori ég að skrifa þessar vangaveltur og opna mig um þetta persónulega, og á stundum brokkgenga, samband mitt við Pollýönnu. Mér finnst hugrekki í nálgun hennar á lífið og mig langar í hennar hugrekki.
Svo leit ég upp
„Hvað er ég búin að koma mér út í?“ hugsaði ég þegar ég sat á kaffihúsi í vikunni til að skrifa þennan pistil, starandi á óþolinmóðan blikkandi bendilinn á auðri síðunni. Blikkandi bendill er augljóslega ekki mjög inspirerandi, fannst eins og hann lifnaði við og væri að gagnrýna mig fyrir að vera nú ekki löngu byrjuð að skrifa. Hann náði mér, þessi bendill, og var skyndilega orðinn lifandi harðstjóri, eins og skrattinn sjálfur á annarri öxlinni. Var því viss um að ég gæti ekki komið neinu almennilegu niður á blað í tíma, þetta yrði örugglega algerlega glatað og nákvæmlega enginn myndi nenna að lesa eitthvað rant eftir mig. Ég lokaði því augunum, dæsti létt, færði athygli skynfæranna frá blóðlausa bendlinum og úr gagnrýnandi ringulreiðinni í hausnum á mér. Og leit upp. Heyrði suður-amerísku tónlistina sem dansaði um staðinn, dillaði mér örlítið, gaf og þáði nokkur bros. Pollýanna mætti aftur á svæðið, tók mig mátulega hátíðlega er ég skrifaði þessar hugrenningar og ýtti svo brosandi á ´senda´ í fullkomnu trausti um að einhver þarna úti muni örugglega nenna að lesa þetta.
Athugasemdir (1)