Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Ástandið á menningarumfjöllun á Íslandi – mætti hugsa hana upp á nýtt?

Hvaða merk­ingu legg­ur fólk í menn­ing­ar­blaða­mennsku og hvað finnst þeim sem vel til menn­ing­ar þekkja um menn­ing­ar­blaða­mennsku eins og hún birt­ist á Ís­landi í dag?

Ástandið á menningarumfjöllun á Íslandi  – mætti hugsa hana upp á nýtt?

Eins og hér hefur áður verið nefnt er umfjöllun um listir aðeins hluti af því sem hugtakið menningarblaðamennska nær utan um. Menningarblaðamennska er tæki til að rannsaka, afbyggja og greina menningu og list, nokkuð sem getur verið flókið í fámenninu. En hún er líka tæki til að rýna í ný hugtök, atvik, skoðanaskipti, hugmyndir, ímyndir, stefnur og strauma. Þannig getur hún leitt til vitundarvakningar.

Þegar Heimildin hóf göngu sína var strax ákveðið að halda úti menningarsíðum. En það tekur tíma fyrir slíkar síður að taka á sig mynd og uppfylla alla þætti til að standa undir nafni.

Eins hefur dagblað aðeins nokkrar síður til ráðstöfunar hverju sinni og er heldur ekki með eins mikinn mannskap til þess á ritstjórn og RÚV sem sinnir menningu af kostgæfni. En hvaða merkingu leggur fólk í menningarblaðamennsku?

Og hvað finnst þeim sem vel til hennar þekkja um menningarblaðamennsku eins og hún birtist á Íslandi í dag?

Alltaf saknar maður þó Lesbókarinnar

Ásdís Thoroddsen

Ásdís Thoroddsen kvikmyndaleikstjóri bjó lengi í Þýskalandi þar sem er ríkulegt framboð á menningarefni. Það var ekki úr vegi að heyra álit hennar en hún segir að frá barnæsku og fram á fullorðinsár hafi helsta iðja hennar verið að lesa blöðin. „Og þá sérstaklega „krítík“ á alla listræna starfsemi; allt var vegið og metið og fólk ræddi um það sem skrifað var, útskýrir Ásdís.

„Þessi tímaþjófur, blaðalesturinn, efldist úr öllu valdi þegar ég flutti til útlanda og komst á stærra málsvæði, þar sem þessi grein blaðamennsku hefur viðhaldist, en öðruvísi horfir við hér heima; kannski hefur hér vægi listarinnar minnkað og umfjöllunin þar með líka. En lítum á það sem vel er gert; Heimildin sýnir lit og Morgunblaðið vill gera það líka – en alltaf saknar maður þó Lesbókarinnar; Ríkisútvarpið-sjónvarp og -hljóðvarp fjalla um menningu af miklum móð og vandvirkni og það er gott.“

Engin stórmennska að hreyta skít í fólk

Silja Aðalsteinsdóttir ritstýrði lengi menningarsíðum DV, auk þess sem hún hefur starfað við ritstjórn, gagnrýni og útgáfu, svo eitthvað sé nefnt. En hún er þrautreynd í menningarblaðamennsku og aðspurð um hverju sé ábótavant svarar hún:

Silja Aðal­steinsdóttir

„Það þyrfti að skipuleggja umfjöllun um menningarmál betur í þeim fjölmiðlum sem stunda hana – en þeir mættu sannarlega vera fleiri (húrra! fyrir Heimildinni!). Leiklist, bókmenntum og kannski kvikmyndum er þokkalega vel sinnt en öðrum listgreinum býsna tilviljanakennt – tónlist, myndlist, hönnun, byggingarlist. Það þarf styrkara og meðvitaðra utanumhald til að neytendur fái alhliða fróðleik um ástand menningarinnar í landinu.“

 Hún endurtekur næstu spurningu: „Hvað gerir menningarblaðamennsku snúna í smáu samfélagi? – og svarar síðan: Það er akkúrat smæð samfélagsins. Allir þekkja alla og taka nærri sér þegar frændur og vinir fá vonda dóma. Lausnin er ekki að hætta að vega og meta heldur orða niðurstöður sínar kurteislega. Það er engin stórmennska að hreyta skít í fólk.“

Var hann með kúkinn í poka?

Arnbjörg MaríaSegir að á svo litlu landi sem Íslandi mætti endurhugsa menningarrýni, enda engu að tapa.

Arnbjörg María Danielsen er leikstjóri, framleiðandi og listrænn stjórnandi sem hefur starfað í Þýskalandi og í Skandinavíu þar sem menningarfjölmiðlun hefur djúpar rætur og spriklar. Hvernig blasir þetta við henni?

„Fyrir stuttu klíndi listrænn stjórnandi hjá dansflokki í stóru, þýsku leikhúsi hundaskít í gagnrýnanda inni í miðju leikhúsi, segir Arnbjörg. „Hann var innihaldslega ósáttur við gagnrýni sem viðkomandi hafði skrifað um verk hans. Þetta er absúrd sena, en kannski mannlegt. Spurning hvort hann hafi verið með kúkinn tilbúinn í poka. Of mörgum spurningum ósvarað í þessu

 Hún segir gagnrýni sum sé ekki vera neitt grín.

„Þó hún mætti stundum vera fyndnari, heldur hún áfram.

Þær umfjallanir á Íslandi sem komast best til skila og hafa oft eitthvert skemmtanagildi eru að mínu mati í útvarpinuLestin, Lestarklefinn, Víðsjá o.s.frv. – og einstaka fagtímaritum, eins og til dæmis Dunce Magazinesem eru dýpri og metnaðarfull en ef til vill bara lesin af fagaðilum og sérstöku áhugafólki um dans og gjörningalist.“

 Að hennar mati er almenn umfjöllun í stærri fjölmiðlum á Íslandi frekar yfirborðskennd og virkar oft frekar eins og auglýsingar.

„Það er bara markaðskapítalisminn sem stjórnar þessu. Það sem fær lítið pláss og litla peninga er augljóslega ekki nógu sexí. Og þá þarf að berjast sérstaklega fyrir því og keyra áfram af hugsjón. Eða bara setja allt á tik tok og sjá hvað gerist.

„Það er mjög gaman að lesa vonda gagnrýni, en það þarf að vera góð vond gagnrýni.“
Arnbjörg María Danielsen

Eins er gagnrýni á Íslandi í mjög mörgum tilvikum bara skoðanapistlar sem er leiðinlegt lesefni og best geymt á samfélagsmiðlum þar sem slíkt lifir góðu lifi og gangverk meðvirknimaskínunnar getur mallað áfram.

Það er mjög gaman að lesa vonda gagnrýni, en það þarf að vera góð vond gagnrýni. Sama gildir um hið góða. Það þarf talsvert dýpri vinnu til að skrifa almennilega gagnrýni í sviðslistum og öðlast samanburðarreynslu. Fyrir lítið land einsog Ísland mætti endurhugsa menningargagnrýni alveg frá grunni, enda engu að tapa svo sem. Menningarumfjöllunin er dauð. Lengi lifi menningarumfjöllunin.“

Þekking, forvitni og ástríða

Halldór Guðmundsson rithöfundur starfaði lengi sem útgefandi og býr yfir margþættri innsýn í bókaútgáfu erlendis þar sem hann hefur verið í forsvari fyrir aðkomu landa á bókamessunni í Frankfurt, en líka skrifað bækur bæði á íslensku og þýsku. Það er áhugavert að vita hvað hann hefur um þetta að segja, út frá bókmenntunum sem hafa kannski fengið mestan skerf af umfjöllun hér í gegnum tíðina.

Halldór GuðmundssonFékk ritdóma í sex blöðum þegar hann gaf út fyrstu bókina, auk annarrar umfjöllunar.

Það er alltaf freistandi að grípa til heimsósómatals þegar rætt er um bókmenntaumfjöllun í íslenskum fjölmiðlum, enda er það óspart gert,“ byrjar hann á að segja og bætir við að vissulega hafi miklar breytingar orðið á síðustu áratugum.

Þegar ég sendi frá mér mína fyrstu bók, fremur sérhæft bókmenntasögulegt verk, fyrir þrjátíu og sex árum, fékk ég alvöru ritdóma í sex blöðum, auk annarrar umfjöllunar. Nú getur ungur höfundur gefið út bók án þess að sjá nokkuð um sig á prenti, og það hlýtur að vera erfitt. En margt er þó gert: Það er umtalsverð bókmenntaumfjöllun hjá RÚVhvar værum við án Kiljunnar? Og í Morgunblaðinu, í ýmsum tímaritum og vefsíðum, þótt úthaldið þar sé mismikið, og það er fagnaðarefni hvað Heimildin hefur tekið sér mikið tak.

Mig langar því frekar að benda á hvað þurfi til, svo umfjöllun sé góð og gagnleg, lesendum sem höfundum. Það er þrennt:

Þekking: Lesandinn þarf að finna að gagnrýnandi viti til dæmis um fyrri verk höfundar, hafi jafnvel lesið einhver þeirra, og þekki jafnframt eitthvað til bókmenntasögu. Þetta er ekki spurning um háskólapróf, heldur þekkingu.

Forvitni: Þau sem fjalla um bókmenntir, nú eða listir almennt, þurfa að vera forvitin um það sem er á borð borið, nálgast það opnum huga. Ekkert er leiðinlegra en þegar gagnrýnandi segir manni að hann eða hún hafi séð þetta allt áður – jafnvel þótt það sé satt.

Ástríða: Rétt eins og þegar höfundur er annars vegar þarf lesandinn að finna að gagnrýnandi hafi ástríðu fyrir því sem hann skrifar, finnist mikilvægt að segja okkur það, helst að það horfi verr með veröldina ef okkur er ekki sagt frá því. Ekkert hrífur lesendur meira en ástríða í skrifum.

Frá mínum bæjardyrum skiptir ekki öllu að umfjöllun um bókmenntir sé meiri en nú er, svo lengi sem hún hefur þessa þrjá eiginleika í heiðri.

Kallar eftir umfjöllun frá fjölbreyttari hópi fólks

Vigdís Jakobsdóttir

Vigdís Jakobsdóttir er listrænn stjórnandi Listahátíðar og fylgist því með umfjöllun um listir af ólíkum toga, bæði hér og erlendis, en hún hefur starfað víða. Hún botnar þessa umfjöllun á listrænan hátt:

„Flest þekkjum við gömlu indversku dæmisöguna um blindu mennina sem hitta fyrir fíl í fyrsta sinn og reyna að lýsa honum hver fyrir öðrum. Sá fyrsti grípur um ranann og segir að fíllinn sé eins og stór slanga, næsti grípur um fótlegginn og lýsir fílnum sem stórum hrjúfum trjádrumbi á meðan sá þriðji grípur um tönn fílsins og lýsir honum sem hörðum og rennisléttum. Þótt lýsingar mannanna séu gjörólíkar hefur enginn þeirra rangt fyrir sér. Fíllinn er allt þetta og meira til. En heildarmyndin getur ekki komið í ljós fyrr en fleiri sjónarmið koma saman, segir hún og kjarnar þannig myndina.

„Þegar tónleikar, myndlistarsýning, bók eða leiksýning fær einhliða umfjöllun í fjölmiðlum, svo ekki sé talað um gagnrýni, er sama lögmál í gangi. Ég kalla eftir umfjöllun frá fjölbreyttari hópi fólks um menningu og listir á Íslandi. Þjóðin er alls konar og menningarumfjöllun á þess vegna að koma frá alls konar fólki. Aðeins þannig eigum við séns á því að fá einhverja yfirsýn og tilfinningu fyrir raunverulegu gildi þess sem er að gerast í íslensku menningarlífi.“

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Indriði Þorláksson
4
Aðsent

Indriði Þorláksson

Veiði­gjöld­in og lands­byggð­in

Eng­in vit­ræn rök eru fyr­ir því að hækk­un veiði­gjalds­ins leiði til þess­ara ham­fara, skrif­ar Indriði Þor­láks­son um mál­flutn­ing Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi vegna fyr­ir­hug­aðr­ar breyt­ing­ar á út­reikn­ingi veiði­gjalda. „Að sumu leyti minn­ir þessi púka­blíst­ur­her­ferð á ástand­ið vest­an­hafs þar sem fals­upp­lýs­ing­um er dreift til að kæfa vit­ræna um­ræðu,“ skrif­ar hann.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
1
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu