Að morgni mánudagsins 27. mars síðastliðinn féll snjóflóð á tvö lítil fjölbýlishús sem standa efst í götunni Starmýri í Neskaupstað. Katrín Gunnhildardóttir býr í öðru þessara húsa ásamt eiginmanni, tveimur börnum og kettinum Hermi. Þau og hátt í þrjátíu aðrir munu ekki geta snúið aftur til síns heima í náinni framtíð, vegna þess hve illa skemmd heimili þeirra eru eftir flóðin.
Þegar almannavarnir og lögregla höfðu náð yfirsýn yfir afleiðingarnar og búið var að ganga úr skugga um að engra væri saknað, tókst með samstilltu átaki sjálfboðaliða í björgunarsveitum eystra að rýma þessi hús og fleiri og verja það sem hægt var fyrir frekari skemmdum. Samfélagið í Neskaupstað brást við með samstilltu átaki í því skyni að halda þétt utan um sitt fólk. Og gerði það vel.
Tjónið er í heild metið á í kringum 150 milljónir króna. Slys á fólki voru sem betur fer ekki alvarleg. Meira að segja kötturinn Hermir, sem týndist í flóðinu, kom í leitirnar fimm dögum síðar, þökk sé björgunarsveitarmönnum. Náttúruhamfaratrygging Íslands mun greiða íbúum tjónið, en engu að síður mun falla nokkur hundruð þúsund króna kostnaður á íbúana vegna sjálfsábyrgðar.
„Ótrúlegt að sjá ummerkin eftir þetta flóð“ voru viðbrögð annarrar Katrínar, forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, í viðtölum við fjölmiðla daginn sem hún heimsótti flóðasvæðið í Neskaupstað. Spurð hvað henni þætti um þann kostnað sem fyrirsjáanlega myndi falla á íbúa sem urðu fyrir miklu tjóni í flóðinu, vísaði Katrín til þess að um þetta væri fjallað í lögum, en að skoða mætti málið. Með henni var sá ráðherra sem hefur ofanflóðavarnir á sinni könnu, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra, sem lét hafa eftir sér að ofanflóðavarnir hefðu verið forgangsatriði íslenskra stjórnvalda og yrðu áfram.
En hvers vegna er Katrín Gunnhildardóttir þá svona reið?
„Því það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta, ég þyrfti ekki að vera í þessum sporum ef það hefðu verið komnir varnargarðar, ég væri ekki að upplifa aftur og aftur þessa lamandi hræðslu ef það hefði fengist fjármagn í þessa garða, munu garðarnir rísa núna? Get ég verið örugg heima hjá mér? Af hverju þarf alltaf að bíða eftir því að slys verði áður en það er hafist handa? Það er ekki bara verið að fórna steypu og timbri með þessum seinagangi, það er verið að fórna heimilum, öryggi fólks og andlegri heilsu, í sumum tilfellum lífum og í þessu flóði hefði akkúrat það getað gerst en ótrúlegustu tilviljanir björguðu því.“
Hrein hending réði því að ekki varð manntjón í Neskaupstað þennan morgun. Fólk sem lá sofandi í rúmum sínum vaknaði sumt hvert á kafi í snjó. Frásagnir af foreldrum að grafa sjö ára barn upp úr rúmi sínu og af ungbarnaherbergi sem fylltist af snjó sýna það.
Það er nefnilega erfitt að líta framhjá þeirri staðreynd að það sem gerðist í Neskaupstað átti ekki að koma neinum á óvart og að vel hefði mátt koma í veg fyrir það tjón sem varð.
Ekkert óvænt
Fyrir sléttum 22 árum var nýtt hættumat vegna snjóflóða í Neskaupstað kynnt fyrir íbúum og almenningi. Á því er þéttbýlinu í Neskaupstað raðað niður í þrjá flokka, allt eftir því hve mikil hætta stafar af ofanflóðum. Einungis agnarsmár hluti byggðarinnar í Neskaupstað var settur utan hættuflokkana, og taldist þar með öruggur fyrir ofanflóðum. Stór hluti efstu byggðar þorpsins reyndist í efsta hættuflokki – flokki C. „Engar nýbyggingar nema frístundahús, og húsnæði þar sem viðvera er lítil,“ var það sem sérfræðingar höfðu ákveðið að ætti í raun við um slík svæði.
Það sem af er þessu ári hefur það nú í tvígang gerst að flóð hafa fallið á byggð, í þekkta snjóflóðafarvegi, á skilgreint hættusvæði
Í matinu var þetta einfaldlega sett þannig fram að líkurnar á því að íbúar húsa á C-hættusvæði týndu lífi í ofanflóðum, við það eitt að dvelja heima hjá sér öllum stundum, allt árið, væru á bilinu þrisvar til sex sinnum meiri en líkurnar á því að láta lífið í umferðarslysi. Til samanburðar var árið fyrir útkomu hættumatsins eitt það mannskæðasta í umferðarsögu landsmanna, þar sem á fjórða tug týndu lífi.
Hús Katrínar Gunnhildardóttur og næstu hús voru öll sett í C-flokk, árið 2001.
Í hlíðum fjallsins ofan við hús Katrínar, undir Nes- og Bakkagiljum, „er að finna stærstu upptakasvæði snjóflóða í Neskaupstað“ eins og því er lýst af sérfræðingum. Um væri að ræða byggð þar sem „staðaráhætta íbúa er óásættanleg“. Undir er á sjöunda tug íbúða, atvinnuhúsnæði, spennistöð, Fjórðungssjúkrahús og hjúkrunarheimili aldraðra. Allt húsnæði í efsta eða næstefsta hættuflokki.
26 árum síðar
Í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og Flateyri var unnin tímasett áætlun um forgangsverkefni við ofanflóðavarnir. Varnargarður undir Nes- og Bakkagil var settur framarlega á listann sem lagður var fyrir Alþingi árið 1997 og sagt að vinnu við varnargarðinn ætti að vera lokið árið 2008.
Hann hefur enn ekki risið.
Hættan og þörfin fyrir varnir hefur því legið fyrir í aldarfjórðung. Og í fjölda ára hafa sveitarstjórnarmenn eystra varið drjúgum tíma í að þrýsta á um að þessi sami varnargarður verði reistur. Og eru enn að fá og bera á borð fyrir heimafólk loforð ráðherra sem virðast svo ekki halda.
Það sem af er þessu ári hefur það nú í tvígang gerst að flóð hafa fallið á byggð, í þekkta snjóflóðafarvegi, á skilgreint hættusvæði. Í janúar, þremur dögum eftir að Patreksfirðingar minntust þess að fjörutíu ár voru frá mannskæðum krapaflóðum, féll krapaflóð í sama farvegi og árið 1983. Nú urðu sem betur fer engin slys á fólki eða tjón í líkingu við það fyrra. Viðbragði eða fyrirhyggju yfirvalda verður þó ekki þakkað fyrir að svo fór, enda hefur varnargarður enn ekki risið til að taka við krapaflóðum, sem vitað er að falla reglulega á þessum sama stað. En það stendur til og hefur raunar staðið til lengi.
Rétt eins og í Neskaupstað.
Milljarðarnir sem hurfu
Að nafninu til er það Ofanflóðanefnd, undirnefnd umhverfisráðuneytisins, sem á að taka ákvarðanir um slíkar framkvæmdir. Kostnaðurinn skal svo greiddur úr Ofanflóðasjóði. Sá sjóður var settur á laggirnar og sérstakt gjald lagt á alla húsnæðiseigendur til að fjármagna sjóðinn árið 1997. Hann ætti að fjármagna sérstakt átak í ofanflóðavörnum sem ætti að vera lokið fyrir árið 2010.
Það gekk augljóslega ekki eftir. Ekki heldur þegar átakið var framlengt um tíu ár.
Áfram héldu þó fasteignaeigendur að greiða í sjóðinn. Eða það töldu þeir sig alla vega vera að gera. Árið 2020 varð ljóst að seinna markmið stjórnvalda um að klára ofanflóðavarnir myndi heldur ekki ganga eftir. Formaður Ofanflóðanefndar lýsti því yfir að líklegast næðist ekki að koma upp ofanflóðavörnum fyrr en árið 2050. Forgangsverkefnið sem ráðist var í eftir mannskæðu snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri tæki þannig rúma hálfa öld. Það er að segja ef það markmið næðist.
En hver var skýringin? Jú, Ofanflóðasjóð skorti fé. Það hafði farið í annað. Á þeim 23 árum sem liðin voru frá því sjóðurinn hóf að innheimta árlegt gjald, höfðu stjórnvöld, sem sáu um innheimtu gjaldsins, haldið eftir hjá sér um það bil milljarði króna hvert einasta ár. 23 milljarða króna vantaði inn í sjóðinn. Peningarnir höfðu farið í annað.
Þegar gengið var eftir skýringu fékkst eftirfarandi: Stjórnvöld töldu sig þurfa að koma böndum á umsýslu sína með skattfé, fara betur með, með gegnsærri hætti og meiri yfirsýn. Augljósasta leiðin til þess var að þeirra mati sú að setja lög sem gerðu sömu stjórnvöldum kleift að taka til sín enn meira fé til umsýslu en áður var. Ofanflóðasjóður varð því að einhvers konar inneignarkorti sem stjórnvöld skömmtuðu inn á eftir geðþótta, milli þess sem þau tóku við margfalt hærra ofanflóðagjaldi, sem rukkað var eftir sem áður.
Tími til að vakna
Það að núverandi stjórnvöld haldi því fram að ofanflóðavarnir séu og hafi verið forgangsmál er einfaldlega ekki rétt. Það að segja að bætt hafi verið í „fjárheimildir“ til ofanflóðavarna nýverið og nú eigi þeim að ljúka 2030, er ekki alveg heiðarlegt heldur. Því jafnvel eftir þá aukningu innheimta stjórnvöld hærra ofanflóðagjald árlega en þau úthluta Ofanflóðasjóði til framkvæmda.
Sú staðreynd að aldrei hafi farið fram hreinskiptið uppgjör við þessa atburði, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir aðstandenda, er þjóðarskömm sem þarf að vinda ofan af.
Núverandi valdhafar bera fjarri því einir sök á því hvernig þessi mál hafa verið vanrækt en það er engu að síður í þeirra höndum að breyta um kúrs. Horfast í augu við mistök fyrri ára og áratuga, læra af þeim og koma almannavörnum í viðunandi horf. Það bara verður að gerast.
Það er ekki náttúrulögmál að mannskaðar verði í náttúruhamförum. Það að bregðast ekki við augljósri yfirvofandi hættu, eða slá því á frest, á ekki að vera í boði. Og er heldur ekki í boði. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt línur um það í máli gegn rússneska ríkinu, að yfirvöld geti ekki leyft sér að hunsa það ef lífi fólks er ógnað vegna ofanflóða, hættan af þeim sé þekkt og yfirvöld vanræki að verja eða vara borgara sína við. Það hefur því miður gerst hér.
Lærdómur: Enginn
Ofanflóðasaga síðustu hálfrar aldar á Íslandi geymir fjölda dæma um hvernig kæruleysislegt viðhorf til ofanflóðahættu, aðgæslu- og viðbragðsleysi olli manntjóni sem annars hefði mátt forða. Í síðasta tölublaði Heimildarinnar var fjallað um nýjar upplýsingar um það hvernig ítrekað var skellt skollaeyrum við aðvörunum og yfirvofandi hættu í aðdraganda snjóflóðsins í Súðavík árið 1995, þar sem fjórtán manns létu lífið.
Sú staðreynd að aldrei hafi farið fram hreinskiptið uppgjör við þessa atburði, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir aðstandenda, er þjóðarskömm sem þarf að vinda ofan af. Heitstrengingar stjórnmálamanna í eftirleik þeirra hörmunga, þess efnis að nú skyldum við læra, hafa augljóslega verið án mikillar innistæðu.
Spurningu Katrínar Gunnhildardóttur, um hvort alltaf þurfi slys til svo gripið sé til aðgerða, verður því ekki svarað öðruvísi en þannig að oft virðist þurfa mörg og ítrekuð slys til. Og að oft dugi þau ekki einu sinni til.
Kanski ættu þeir sem hafa borgað árum saman að krefjast endurgreiðslu.