Einu sinni var ég mjög fræg poppstjarna. Það var vissulega skemmtilegt en núna lifi ég enn skemmtilegri tíma. Ég er maki poppstjörnu.
Hljómsveitin Kvikindi er á siglingu og unnusta mín, hún Brynhildur, fer hvippinn og hvappinn á kvöldin að sigra heiminn. Ég fæ að horfa á hana í gegnum sjónvarpsskjáinn eða, ef tengdó fæst til að passa, sem gestur á bar. Til að hámarka ánægjuna í þessari nýtilkomnu rússíbanareið beiti ég fimm aðferðum:
#1 Njóta
Tónlist hljómar betur ef þú ert ekki í vinnu við að spila hana. Fáðu þér óáfengan Peroni og njóttu þess að hlusta án þess að stressa þig á tímasetningum, raddbeitingu eða hljómgæðum. Ef tilefnið er verðlaunaafhending á borð við Íslensku tónlistarverðlaunin, njóttu þess þá að þurfa ekki að muna hvað neinn heitir. Það eru lífsgæði að gleyma nöfnum.
#2 Samgleðjast
Það er fátt gleðilegra en að sjá konuna sem þú elskar skína sínu skærasta. Tjáðu gleðina sem þú finnur með orðum og brosi. Á vissum augnablikum getur verið viðeigandi að öskra hátt á makann og kollega hennar. Önnur augnablik kalla á ígrundaða og nákvæma lofsöngva.
#3 Móta hlutverkið
Það er löng hefð fyrir hlutverki sendiherrafrúarinnar en minni hefð fyrir sendifrúarherranum, hvað þá poppstjörnuherranum. Það er skapandi og skemmtilegt verkefni að móta ný hlutverk í samfélaginu. Ég kalla hér með eftir árlegum fundum fyrir maka frægra kvenna.
#4 Gera gagn
Blundar í þér fjölmiðlafulltrúi? Er skúffan full af fréttatilkynningum og auglýsingatexta sem aldrei líta dagsins ljós? Kannski getur þú hlaupið undir bagga með poppstjörnunni í lífi þínu með því að gerast hirðpenni og aðstoðarspunameistari.
#5 Vera jákvæður
Ef makinn upplifir sjálfsefa, niðurrif og loddaralíðan, sem allir listamenn gera með reglubundnu millibili, strjúktu á henni bakið. Minntu hana á björtu punktana þegar henni fannst ganga vel og tjáðu trú, von og aðdáun. Sæktu síðan ís.
Athugasemdir