Ný háspá Orkustofnunar, sú ítrasta sem stofnunin gefur út, gerir ráð fyrir að orkunotkun á Íslandi muni aukast um 25 prósent til ársins 2040. Grunnspá stofnunarinnar gerir ráð fyrir að þörfin aukist um 10 prósent.
Í ítrustu sviðsmynd svokallaðrar grænbókar um orkumál, sem starfshópur undir forystu Vilhjálms Egilssonar vann fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í fyrra, var þörfin metin umtalsvert meiri eða að tvöfalda þyrfti orkuframleiðslu til ársins 2040 og rúmlega það.
Það eru því himinn og haf – tugir prósenta og þúsundir gígavattstunda – á milli þess sem Vilhjálms-nefndin taldi þurfa, sviðsmynd sem byggð var á útreikningum Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, og nýrrar spár Orkustofnunar – stofnunar sem hefur það hlutverk að afla þekkingar, gagna og upplýsinga um orkumál og vinna áætlanir til framtíðar.
Athugasemdir (1)