Nýlega varð ég þess heiðurs aðnjótandi að taka til máls á skemmtilegum viðburði í Norræna húsinu. Umræðuefnið sneri að því hvort hvalveiðar eigi að halda áfram við strendur Íslands. Þegar viðburðurinn var auglýstur bentu margir á að raddir þeirra sem væru fylgjandi hvalveiðum yrðu ekki áberandi. Það orsakaðist meðal annars af því að dagsetningin hentaði ekki þeim sem leitað var til. Hins vegar kom það ekki mikið að sök þar sem viðhorf til stuðnings hvalveiðum eru vel þekkt. Sönnunarbyrðin, ef svo má segja, hvílir á öxlum þess fólks sem vill breyta viðmiðum í samfélaginu. Viðstaddir fengu því að hlýða á ólík rök gegn hvalveiðum. Og þau eru fjölmörg. Ágreiningur er um lagalega stöðu þeirra, áhrif hvala á vistkerfi sjávar hafa verið vanmetin, hvalir kunna að vera verðmætari lifandi en veiddir og svona mætti lengi telja. Hvalveiðar kunna einnig að vera óréttlætanlegar í siðferðilegum skilningi.
Við sem höfum fylgst með orðræðunni undanfarna áratugi um hvalveiðar þekkjum mögulega best tvö sjónarhorn sem hafa verið mest áberandi gegn hvalveiðum. Þau eru annars vegar kennd við það sem á ensku er kallað Charismatic Megafauna, sem hefur verið nefnt „þokkafull spendýr“ á íslensku. Hugmyndin hér byggir á því að sumar dýrategundir séu þvílík prýði á náttúrunni, sérstaklega í ljósi gáfna og félagskerfis, að við þurfum að vernda þær sérstaklega. Enginn sem hefur reynslu af því að sjá hvali fara saman um höfin í leik eða fæðuöflun getur mótmælt því að þeir eru stórkostleg dýr. Hver undirtegund hefur sín eigin félagskerfi og sérstaka þokka. Hin rökin sem gjarnan eru dregin fram eru af efnahagslegu tagi. Andstæðingar hafa reiknað út að hvalveiðar borgi sig ekki þar sem lifandi hvalir séu meira virði vegna skaða á öðrum atvinnuvegum (hvalaskoðun og ferðaþjónustu) og orðspors þjóðar og samkeppnisstöðu (við sölu á fiskafurðum og í samkeppni um ferðamenn). Tiltölulega nýlega hefur bæst við önnur útgáfa þessara röksemda en hún bendir á að hver lifandi hvalur getur haft gríðarlegt gildi (sem mögulegt er að meta til fjár) í baráttunni við loftslagsvá.
Að mínu viti hafa rökin hér að ofan alltaf verið traust en þó hafa alltaf fylgt þeim vandamál. Það er til dæmis alltaf erfitt að tala fyrir vernd dýra vegna gáfna þeirra og getu. Að manni læðist óhjákvæmilega sá grunur að verið sé að gera upp á milli dýrategunda. Mörg þau dýr sem við ræktum í landbúnaði hafa ekki síður til að bera þokka í ljósi gáfna og samskiptahæfni við menn. Manni finnst til dæmis svín standa okkur óþægilega – en um leið skemmtilega – nærri. Rök hagræns eðlis glíma einnig við vissan vanda þegar kemur að sannfæringarkrafti. Slík rök byggja alltaf á gefnum forsendum sem eiga það til að breytast. Það sem við teljum öruggt er það svo allt í einu ekki. Þýðir sífelldur vöxtur ferðamanna til Íslands það að hvalveiðar séu réttlætanlegar? Ef rökin snerust um skaðleg áhrif á vöxt ferðaþjónustu hafa þær forsendur varla ræst. Svona mætti lengi telja.
Velferð dýra – réttindi dýra
Sjálfur vil ég heldur horfa til röksemda sem hafa verið að þróast síðustu hálfa öld. Hugmyndin er vissulega eldri en grundvallaratriðið er að dýr hafi réttindi til að bera og okkur (sem ráðandi tegund á jörðinni) beri skylda til að gæta að velferð þeirra. Vissulega erum við fyrst og fremst að hugsa um spendýr í þessu sambandi. Fuglar og fiskar koma í humátt á eftir (við gætum síður að velferð þeirra). Skordýr reka lestina. Ég hef enn ekki hitt þá manneskju sem bókstaflega gerir ekki flugu mein.
Einhver gæti sagt að þetta hljóti að vera einhver vitleysa, við fellum dýr alla daga til að koma til móts við mannlegar þarfir. En lykilatriðið í lögum um dýravelferð er að slátrun dýra eigi að vera undantekning frá þeirri meginreglu að vernda þau. Við þurfum með öðrum orðum að rökstyðja hvers vegna við fellum dýr í þágu eigin hagsmuna. Slíkur rökstuðningur getur verið margs konar. Veganistar, eða grænkerar, segja reyndar að hann gangi ekki upp og að rökleg niðurstaða þess að ræða um réttindi dýra sé að láta þau alveg í friði. Samfélagið virðist enn ekki á þeirri skoðun. Kjötframleiðsla, notkun dýra í tilraunum og dýraeldi fyrir fataiðnaðinn er því enn staðreynd. Vonandi hættum við senn að sjá það síðastnefnda enda engin þörf á leðri eða skinnum. Dýr eru sífellt minna notuð í tilraunum og mögulega mun einhvers konar hugbúnaður fara langt með að losa okkur við dýratilraunir í náinni framtíð. Það verður svo lengri bið á að landbúnaður þar sem dýr koma við sögu leggist af. Hver veit þó nema tækniþróun muni gera okkur kleift að fá kjötvöðva á diskinn án þess að slátra dýri?
„Lykilatriðið í lögum um dýravelferð er að slátrun dýra eigi að vera undantekning frá þeirri meginreglu að vernda þau“
Annað svið þar sem við höfum fundið okkur réttlætingu fyrir að ganga á réttindi dýra eru veiðar. Skotveiðar á spendýrum eru umdeildar en þó tel ég að enn sé víðtækur stuðningur í flestum samfélögum við sjálfbærum veiðum, ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt um nauðsyn þeirra. Hvalveiðar eru í grunninn skotveiðar á spendýrum og mega ekki stangast á við þá réttlætingu sem við höfum komið okkur saman um varðandi veiðar. Í mínum huga hefur spurningin um réttmæti hvalveiða Íslendinga alltaf snúist um þetta atriði fyrst og fremst.
Rök sem snerta skotveiðar
Það eru þrenns konar rök sem sett eru fram fyrir því að hægt sé að réttlæta skotveiðar á spendýrum. Þau fyrstu snúa að því að um mikilvæga fæðu sé að ræða. En slíka réttlætingu þarf að fara sparlega með. Mögulega getur mikilvægið falist í hefð en maður þarf að fara varlega þegar hefð er notuð til að réttlæta nokkurn hlut. Almennt má segja að veiðar sem hluti af einhvers konar fæðuöryggi séu hverfandi þáttur. Við getum verið sólgin í villibráð til hátíðarbrigða en lendum í engum vandræðum þótt hún sé ekki á boðstólum. Landbúnaður hefur tekið yfir í að tryggja fæðuöryggi okkar, nema hjá því fólki sem til dæmis býr á afskekktustu stöðum veraldar. Skotveiðar (og aðrar veiðar) leika annars konar hlutverk í lífi fólks eftir því sem búsvæði eru afskekktari.
Önnur rök sem hafa verið sett fram til að réttlæta skotveiðar á spendýrum snúast um að okkur kunni að bera siðferðileg skylda til að grisja stofna með veiðum. Slíkar veiðar eru þá afleiðing þess að við viljum ekki hafa rándýr nálægt okkur sem myndu annars gegna grisjunarhlutverkinu. Einnig hefur verið bent á að víða geta villt dýr ekki ferðast um eins og þau þurfa til að leita ætis vegna girðinga og vegagerðar. Stofnar og hópar dýra gætu því farið illa ef ekki færi fram hófleg grisjun. Lykilatriðið í þessum rökum er að við höfum víða gert það ómögulegt fyrir heilbrigð vistkerfi að þrífast. Það sé okkar mannkyns að bregðast við þeim vistfræðilega vanda sem skapast.
Að lokum verður að nefna þau rök sem oft eru dregin fram þegar vopnum er beitt á spendýr en það er þegar við höfum flokkað aðrar tegundir sem meindýr. Hvort sú flokkun sé alltaf réttlætanleg er efni í aðra grein því það virðist augljóst að við göngum stundum alltof hart fram með að láta okkar eigin nærtækustu hagsmuni stjórna öllum ákvörðunum. Augljóst dæmi um þetta er hversu hart við göngum fram gegn villtum ref í íslenskri náttúru. En vissulega þarf stundum að fella hættuleg rándýr. Ein útgáfa af þessum rökum er til dæmis það þegar fella þarf rándýr sem hafa tamið sér að ráðast á eða ógna fólki. Víðast hvar þykir það réttmætt að halda á veiðar eftir þeim.
Hliðarskilyrði í samtímanum við öll þau rök sem hér hafa verið nefnd (ásamt því að veiðarnar séu sjálfbærar) er að ávallt sé staðið að veiðunum á mannúðlegan hátt. Yfirvöld setja reglur um það hvaða veiðiaðferðir teljist ásættanlegar og hverjar ekki. Við Íslendingar þekkjum þetta líklega best í sambandi við skotveiðar á hreindýrum. Mörgum veiðimanninum kann að þykja þessar reglur íþyngjandi og kostnaðarsamar. En það yrði engin sátt um þessar veiðar á Íslandi (veiðar sem eru kannski fyrst og fremst réttlætanlegar með grisjunarrökunum) ef þessi leið væri ekki farin. Og auðvitað er ekki um fullkomna sátt að ræða. Margir hafa bent á að enn megi bæta umgjörð þessara veiða til að gæta að mannúðarsjónarmiðum.
Ekki frekari hvalveiðar
Ég þekki ekki önnur rök þess að siðferðilega réttlætanlegt sé að stunda skotveiðar á spendýrum. Líklega mun mannkyn að stórum hluta færast í þá átt að enn fækki í þessum rökum og skotveiðar leggist mögulega af. En við erum ekki komin að þeim punkti. Mér sýnist að hvalveiðar í atvinnuskyni eins og þær hafa verið stundaðar á Íslandi falli afskaplega illa að öllum þessum rökum. Hvalir eru ekki mikilvæg, og hvað þá nauðsynleg, fæðutegund frekar en önnur sjávarspendýr. Ef dæmi finnast um það þá er einungis um sjaldgæf undantekningartilvik að ræða fyrir tiltölulega fámennan hóp fólks. Í öðru lagi hafa ekki komið fram haldbær vistræn rök um að hvalastofna þurfi að grisja. Sjávarspendýr njóta þess umfram önnur dýr að þau geta ferðast nokkuð frjálslega um. Og fá dýr flakka eins mikið um jörðina og hvalir. Að lokum hafa hugmyndir um að hvalir séu nokkurs konar meindýr sem skaði fiskveiðihagsmuni okkar reynst innistæðulausar. Flest gögn benda fremur til þess að hvalir leiki gríðarlega mikilvægt hlutverk í vistkerfi sjávar.
Helsta ástæðan fyrir því að ég sé ekki að við getum réttlætt hvalveiðar við Ísland snúa svo að því sem ég nefndi „hliðarskilyrði“ annarra röksemda. Jafnvel þótt við gætum réttlætt með einhverjum hætti að hvalkjöt væri nauðsynlegt, eða að grisja þyrfti tiltekinn stofn, eða að okkur stæði ógn af hvölum í hafinu umhverfis Ísland þá gætum við aldrei uppfyllt þetta nauðsynlega skilyrði um mannúðlegar skotveiðar. Hvalir eru stórir. Þeir eru risastórar skepnur. Það liggur í hlutarins eðli að skotveiði á slíkum skepnum er á mörkum þess að vera möguleg á mannúðlegan máta. Þegar við bætist að dýrið er að stærstum hluta undir yfirborði sjávar og það er ekki auðvelt að greina kyn, aldur og hvort kýr sé kálffull þá virðist ekki með nokkru móti hægt að gæta að mannúðarsjónarmiðum. Þá virðist ekki einu sinni vera hægt að tryggja að um rétta tegund sé að ræða, eins og frásagnir af veiðum af blendingshval lang- og steypireiðar bera með sér. Við myndum ekki í samtímanum stunda hreindýraveiðar á Íslandi ef þetta væru aðstæðurnar sem veiðimenn þyrftu að búa við. Um hvalveiðar hlýtur að gilda það sama.
Athugasemdir