Hvað er til ráða ef barnið er órólegt á meðan mamma og pabbi sitja yfir kaffibollanum á veitingahúsi, eða er vaknað fyrir allar aldir um helgar þegar foreldrarnir vilja sofa lengur? Lausnin er iðulega að rétta barninu spjaldtölvu með einhverju skrípó eða kveikja á sjónvarpinu og finna rás þar sem sýndar eru teiknimyndir eða annað efni ætlað börnum. Og, það er eins og við manninn mælt, barnið situr hið rólegasta og gleymir sér algjörlega við að fylgjast með því sem fram fer á skjánum. Þetta þekkja allir.
Vegna þess hve vel barnið unir sér við að fylgjast með skjánum hafa þeir fullorðnu tilhneigingu til að fylgjast lítt með hvað tímanum líður og þykir kannski bara gott að „barnapían“ hafi ofan af fyrir barninu.
Fyrst var það sjónvarpið síðan tölvur og tölvuleikir
Það er kunnara en frá þurfi að segja að tilkoma sjónvarpsins olli miklum breytingum. Skyndilega voru alls kyns viðburðir, ekki síst fréttir, komnir heim í stofu í þessu undratæki. Íslendingar kynntust undratækinu tiltölulega seint miðað við margar aðrar þjóðir en voru fljótir að tileinka sér notkun þess. Þjóðin fylgdist spennt með fyrstu sjónvarpsútsendingunni 30. september 1966. Þarna birtust þeir ljóslifandi á skjánum Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Halldór Laxness rithöfundur og Savanna-tríóið. Að ógleymdum Dýrlingnum og svo auðvitað Ásu Finnsdóttur, fyrstu sjónvarpsþulunni.
Allt var þetta í „sauðalitunum“ það var ekki fyrr en löngu síðar að farið var að senda út í lit. Sjónvarpstæki voru ekki til á öllum íslenskum heimilum og þar að auki náðust útsendingar sjónvarpsins ekki um allt land fyrr en allmörgum árum síðar. Fyrst í stað var einungis sent út tvisvar í viku og eru margar sögur til af gestanauð hjá eigendum sjónvarpstækja þá daga sem sjónvarpað var. Fljótlega var farið að senda út sex daga vikunnar og sjónvarpslausir fimmtudagar urðu skyndilega vinsælir til fundahalda og ýmissa skemmtana. Íslenska sjónvarpssagan verður ekki rakin frekar hér en eins og aðrar þjóðir tóku Íslendingar sjónvarpinu fagnandi og orðið sjónvarpsfíkill skaut upp kollinum. Ýmsum þótti lítið til koma og kölluðu sjónvarpstækið gjarna imbakassa eða heimilisaltari, jafnvel heimilisfriðarspilli. Það breytti engu og sjónvarpsgláp varð staðreynd.
Tölvur og tölvuleikir
Sjónvarpstækin voru ekki einu skjáirnir sem til urðu á síðustu öld. Tölvurnar komu fram á sjónarsviðið og það gerðu líka ýmis konar leikjatölvuspil, einföld og frumstæð í fyrstu en þróuðust hratt.
Tölvuleikjunum var í upphafi einkum ætlað að höfða til ungmenna en margir fullorðnir hrifust einnig af þessari nýjung. Sumir um of og til varð fyrirbærið tölvufíkn, orðið skýrir sig sjálft.
Börnin og skjáirnir
Fyrir allmörgum árum fóru að birtast í íslenskum og erlendum fjölmiðlum, blöðum, útvarpi og sjónvarpi greinar og viðtöl þar sem fjallað var um sjónvarpsgláp og tölvuleikjaspil barna og unglinga. Meðal þeirra fjölmörgu sem lögðu orð í belg voru uppeldis-, hjúkrunar- og sálfræðingar. Umfjöllunin beindist ætíð að því sama: hvort og hvaða áhrif sífellt lengri tími, sem börn og unglingar verðu fyrir framan skjáinn, hefði. Flestir sem létu til sín heyra voru á einu máli um að rétt væri að takmarka sjónvarpsáhorf barna og sömuleiðis væri nauðsynlegt að hafa eftirlit með hvaða efni börnin horfðu á.
Í sænsku tímariti um heilbrigðismál frá árinu 2004 þar sem fjallað var um áhrif sjónvarpsgláps á börn komu fram sterk tengsl áhorfs eins árs barna og þriggja ára barna og einbeitingarskorts við sjö ára aldur. Margar sambærilegar rannsóknir hafa leitt til sömu niðurstöðu. Á síðustu árum hefur sjónvarpsefni sem sérstaklega er beint að ungum börnum aukist mjög og það hefur orðið til þess að börn verja æ meiri tíma fyrir framan skjáinn og við leikjatölvuna.
Bandarískar rannsóknir hafa sýnt að þar horfa þriggja ára börn á sjónvarp tvo tíma eða meira á degi hverjum. Í könnun meðal eitt þúsund bandarískra foreldra kom fram að ein helsta ástæða þess að ungum börnum er leyft að horfa svo mikið á sjónvarp er sú trú að það sé þroskandi. Rannsóknir benda hinsvegar á annað og samtök bandarískra barnalækna hafa hvatt til þess að börn undir tveggja ára aldri eigi ekki að horfa á sjónvarp, heili þeirra sé einfaldlega ekki undir það búinn. Heili barnsins verði fyrir nær stöðugu áreiti sem hann hefur ekki þroska til að vinna úr.
Rannsóknin í Singapúr
Fyrir skömmu greindi danska dagblaðið Berlingske frá rannsókn sérfræðinga í Singapúr. Rannsóknin tók til 437 barna, 12 og 18 mánaða gamalla og síðan aftur þegar börnin höfðu náð 9 ára aldri. Fram kom að ungabörnin eyddu að jafnaði tveimur klukkustundum daglega fyrir framan skjáinn. Niðurstaða sérfræðinganna var í stuttu máli að sjónvarpsglápið hefði haft umtalsverð áhrif á börnin. Minnið, einbeitinguna og hæfileika til aðlögunar, sem sagt það sem sérfræðingarnir kölluðu vitsmunalega hæfileika. Þeir greindu frá því að fylgjast þyrfti með þessum hópi næstu árin, eða áratugi, til að meta langtímaáhrifin. Slík rannsókn hefur ekki áður verið gerð.
Albert Gjedde, prófessor við Hafnarháskóla, sagði niðurstöðu sérfræðinganna í Singapúr mjög athyglisverða. Ekki síst að eins árs gömul börn, sem varla væru farin að ganga, eyddu að jafnaði tveimur klukkustundum daglega fyrir fram skjáinn. Mjög brýnt væri að halda rannsókninni áfram.
Börn undir tveggja ára aldri eiga ekki að horfa á sjónvarp
Norsk heilbrigðisyfirvöld mæla með að börn undir tveggja ára horfi ekki á sjónvarp en börn á aldrinum tveggja til fimm ára verji ekki meira en einum klukkutíma daglega fyrir framan skjáinn. Þetta er byggt á ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá árunum 2019 og 2020. Dönsk börn og ungmenni eru meðal þeirra sem lengstum tíma verja fyrir framan skjáinn. Samkvæmt tölum frá danska barna- og menntamálaráðuneytinu sitja danskir unglingar að jafnaði sex klukkustundir á dag við skjáinn og börn á aldrinum tveggja til sex ára um það bil tvær klukkustundir. Dönsk heilbrigðisyfirvöld hafa birt ráðleggingar um skjánotkun barna og unglinga. Þar er meðal annars lögð áhersla á nauðsyn þess að fjölskyldur setji sér ákveðnar reglur um sjónvarpsgláp, og mikilvægt sé að börn séu ekki að horfa á sjónvarp eða leika sér í tölvu þegar nær dregur háttatíma.
Á vefsíðunni heilsuvera.is er að finna upplýsingar og leiðbeiningar varðandi sjónvarpsáhorf barna og unglinga.
Athugasemdir