Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp til að kanna möguleika á að nota fleiri leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar. Á hópurinn að skoða orkukosti sem standa utan rammaáætlunar, m.a. hvaða möguleikar felist í svokölluðum „smávirkjunum“ fyrir vatnsafl. Er þá vísað til þess að afl þeirra sé undir 10 MW þótt umhverfisáhrif þeirra geti verið mikil. Einnig á hópurinn að skoða möguleika á sólarorkuverum, sjávarfallavirkjunum og vindorku „á smærri skala“ auk fleiri atriða.
Sá sem ráðherra hefur valið til að leiða hópinn er Ásmundur Friðriksson þingmaður og samflokksmaður hans í Sjálfstæðisflokknum. Í hópnum eiga einnig sæti þær Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir sjávarútvegsfræðingur og Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna.
Í fréttaskýringu Heimildarinnar um miðjan febrúar kom fram að ellefu af fjórtán formönnum starfshópa, stjórna eða stýrihópa sem Guðlaugur Þór hefur skipað frá því hann tók við ráðuneytinu væru hvítir, miðaldra karlmenn sem hefðu tengsl við Sjálfstæðisflokkinn og/eða Samtök atvinnulífsins. Nú hafa tveir karlar sem falla undir þessa skilgreiningu bæst við; fyrrnefndur Ásmundur og sjálfstæðismaðurinn Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ og borgarstjóri í Reykjavík, sem nýverið var skipaður formaður stýrihóps sem vinna á tillögur um framgang mála í Vestmannaeyjum.
Í tilkynningu á vef umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um hlutverk starfshópsins sem Ásmundur leiðir er vísað í skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum, svokallaða grænbók, sem kom út í mars í fyrra. Segir í tilkynningunni að sviðsmyndir skýrslunnar sýni fram á „mikla þörf fyrir orkuöflun“ á komandi áratugum „til að tryggja orkuöryggi landsmanna“ sem og til að mæta eftirspurn sem kemur til vegna orkuskipta.
„Starfshópnum hefur verið falið að vinna á þeim grunni og draga saman hvaða upplýsingar og þekking sé þegar til staðar varðandi aðra orkukosti en þá sem felast í vatnsafli (yfir 10 MW), jarðvarma og vindi. Þá á hann að kanna fýsileika og framboð, sem og að varpa ljósi á mögulegar hindranir sem standa í vegi fyrir framþróun og hvaða leiðir séu færar til að orkukostirnir verði nýttir í meira mæli.“
Öfgafyllsta sviðsmyndin
Vilhjálmur Egilsson gegndi formennsku í starfshópnum sem vann grænbókina. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Í kjölfar vinnu sinnar fyrir ráðuneytið tók hann m.a. að sér kynningarmál fyrir fyrirtæki sem vilja reisa vindorkuver á Íslandi.
Þær sviðsmyndir sem dregnar voru upp i grænbókinni og störf Vilhjálms í kjölfar útgáfu skýrslunnar, hafa verið gagnrýnd, m.a. af Orra Páli Jóhannssyni, þingflokksformanni Vinstri grænna. Hann sagði á alþingi síðasta haust að það gæti ekki talist eðlilegt, undir nokkrum kringumstæðum, að formaður starfshóps sem falið var að draga saman efni um stöðu orkumála, tali fyrir öfgafyllstu sviðsmyndinni úr skýrslunni, þá sem kalli á mesta orkuöflun. „Nú les maður og heyrir í fjölmiðlum að formaður téðs starfshóps gangi erinda fjögurra fyrirtækja sem hafa uppi stórtæk vindorkuáform, og tali fyrir þeirri sviðsmynd úr stöðuskýrslunni sem gengur freklegast fram eins og hún sé hinn eini rétti sannleikur.“
Sviðsmyndin sem Vilhjálmur hefur haldið á lofti gerir ráð fyrir ríflega tvöföldun raforkuframleiðslu Íslands til ársins 2040.
Starfshópur Ásmundar á að skila tillögu til ráðherra fyrir 1. október á þessu ári.
Að mínu mati nákvæmlega ekki neitt. Það er hins vegar fjöldi manna af báðum kynjum á lausu sem gæti innt slíkt starf af hendi með góðum árangri.
Enn einu sinni verðum við vitni að vanhæfni og blygðunarlausri spillingu af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins.