Óskar Magnússon, sem leiddi fjárfestahópinn sem keypti útgáfufélag Morgunblaðsins af Íslandsbanka árið 2009, greindi frá því í viðtali á Hringbraut árið 2016 af hverju nokkrar stórútgerðir fjárfestu í fyrirtækinu. Óskar hefur um árabil verið stjórnarmaður í Samherja og tengdum félögum og sat meðal annars í stjórninni þegar Namibíumálið kom upp árið 2019. Hann var útgefandi Morgunblaðsins frá 2009 til ársloka 2014.
Viðtalið var upplýsandi og hreinskilið um þá taktísku hugsun sem lá á bak við fjárfestingu útgerðanna. Þær vildu hafa áhrif á þrjú stór mál í þjóðmálaumræðunni: Mögulega inngöngu Íslands í Evrópusambandið, Icesave og hugsanlegar breytingar á kvótakerfinu.
Viðtalið, sem Sigmundur Ernir Rúnarsson tók, var sýnt á sjónvarpsstöðinni Hringbraut en var lengi vel ekki aðgengilegt á internetinu síðastliðin ár. En það var sett inn á Youtube nýlega, í lok mars, áður en útgáfufélag Hringbrautar og Fréttablaðsins var gefið upp til gjaldþrotaskipta um mánaðamótin.
Eigendurnir nær alfarið útgerðarmenn
Eftir að þessir fjárfestar keyptu Árvakur, stærstu hluthafarnir voru félög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og Samherja, þá hafa fleiri stórar útgerðir komið inn í fjárfestahóp Morgunblaðsins á meðan hluthafar sem eru ekki útgerðarmenn hafa farið úr hluthafahópnum eða þynnst út í hlutafjáraukningum. Kaupfélag Skagfirðinga, eigandi FISK Seafood, Hraðfrystihúsið Gunnvör og Rammi á Ólafsfirði komu meðal annars inn í hluthafahópinn. Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins eftir yfirtöku útgerðanna og hefur verið það síðan, í bráðum 15 ár.
Uppsafnað tap Árvakurs á þessu tímabili er nú komið yfir tvo milljarða króna á þessu tímabili. Þrátt fyrir þetta hafa útgerðirnar, meðal annars Samherji, lýst því yfir að þær hafi verið ánægðar með viðskiptin með Morgunblaðið. Þegar Samherji seldi hlut sinn í fyrirtækinu, til Eyþórs Arnalds, árið 2017 sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja: „Við erum ánægð með hvernig til tókst, blaðið hefur náð að halda velli, staðið vörð um faglega blaðamennsku og miðlað upplýsingum um mál sem vörðuðu þjóðina gríðarlega miklu og hafa nú sum hver verið farsællega til lykta leidd. “
Sagði kaupin á Morgunblaðinu „hugsjónatengd“
Í gegnum tíðina hefur nokkrum sinnum verið sagt frá umræddu viðtali opinberlega en ekki verið sagt frá því orð fyrir orð sem Óskar sagði í því.
„Það var hugsjónatengt val hjá þessum mönnum sem lögðu í það ferðalag“
Óskar talaði um uppruna sinn í Sjáfstæðisflokknum og hvernig hann hefði unnið hin og þessi störf fyrir hann í gegnum tíðina. „Ég byrjaði sex ára gamall að ydda blýanta á kosningaskrifstofum Sjálfstæðisflokksins og ég hef verið að því síðan. Það er að segja, ég hef gert það sem þurft hefur að gera hverju sinni. Stundum hef ég borið út bæklinga og blöð og stundum gegnt einhverjum svona ábyrgðarmiklum stöðum í áróðursmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þó ég sé lítið í því núna...“
Raunar fór Óskar aldrei í grafgötur með það í viðtalinu að ákveðin taktísk hugsun var um að beita Morgunblaðinu sem tæki í pólitískri og hagsmunatengdri baráttu útgerðarfyrirtækjanna. „Það var hugsjónatengt val hjá þessum mönnum sem lögðu í það ferðalag. Þetta var náttúrulega í raun farið á höfuðið og það þurfti að setja í þetta peninga sem var safnað.“
„Það er að segja, eigendur blaðsins voru með svona þrjú mál sem þeir vildu fá öðruvísi tök á í þjóðfélaginu“
Skýr sýn um þrjú mál
Í viðtalinu sagði Óskar að nýju eigendur Morgunblaðsins hafi haft skýra sýn þegar þeir keyptu blaðið. Þeir vildu hafa áhrif á umrædd þrjú mál. „Menn voru með alveg skýra sýn. Það er að segja, eigendur blaðsins voru með svona þrjú mál sem þeir vildu fá öðruvísi tök á í þjóðfélaginu. Það voru Icesave, fyrst og fremst, ESB og svo sjávarútvegsmál. Við vitum árangurinn af Icesave, og ég þakka það Morgunblaðinu mjög, og við vitum hvar ESB er statt en sjávarútvegsmálin eru ennþá í óvissu og uppnámi og það þarf auðvitað að finna á þeim einhvern sæmilegan sáttaflöt við þjóðina. Ég starfa nú í útgerð þannig að ég tala þannig líka en ég tel að útgerðin þurfi líka að skilja þetta.“
Þegar Sigmundur Ernir spurði Óskar að því hvort Morgunblaðið væri „hagsmunagæslublað“ sagði hann: „Sjálfsagt að einhverju leyti. En það er svo óþægilegt að tala um það. Menn verða að gera greinarmun á þessum skoðanadálkum, leiðurum og öllu því og svo hinum vandaða fréttaflutningi og umfjöllun. [...] Þar er fjöreggið og það sem menn þurfa að vanda sig við er að fikta ekki í því ....“
Athugasemdir (3)