Þegar ég hóf spilamennsku í byrjun Bítlaæðisins mátti sjá áhugasamt fjölmiðla- og fréttafólk sem þyrsti í að miðla þeirri skemmtun og upplifun sem tónlistin veitti fólki vítt og breitt. Til dæmis fóru Markús Örn Antonsson og Andrés Indriðason skröltandi á holóttum malarvegum austur í Flóa á vegum RÚV til að hljóðrita hljómsveit sem 13 ára pjakkar höfðu stofnað.
Þetta breiddi tónlistaráhugann út meðal almennings og sýndi að tónlist var ekki bara fyrir einhverja útvalda og þegar sveitaböllin hófu göngu sína fyrir alvöru var þessi fréttaflutningur mörgum lyftistöng. Myndir þeirra og greinar í hinum ýmsu blöðum og tímaritum gátu opnað landsbyggðarpoppurum glufu inn um borgarmúrana í sviðsljósið og jafnvel plötusamninga.
Nú sjáum við ekki lengur svona hugsjónir meðal þeirra sem stýra farvegi tónlistarinnar og eru margir framleiðendur hennar líka (sitja því beggja megin borðsins) og virðast lítinn áhuga hafa á að skyggnast út fyrir sinn hagsmuna- og þægindaramma. Fyrir vikið sjá landsmenn aðeins örbrot þess sem okkar tónlistarfólk er að gera.
Eðlilegra væri að ríkisútvarpið sinnti sínu hlutverki og sýndi mun víðara svið íslenskrar tónlistar og gæfi henni margfalt meira vægi í dagskránni en gert er. Til dæmis þar sem tónlist er notuð sem uppfyllingarefni, sem er nú að stærstum hluta erlent, en þarna ættu íslensk lög að vera í hávegum höfð og ekki síst íslenskir textar nú á tímum hnignandi tungu. Fátt er tilgangslausara en ríkisútvarp sem sinnir ekki þessum grunnþáttum en er þess í stað eins og biluð grammófónplata sem hjakkar í sama farinu.
„Þar sem misbeiting valds (spilling) er við lýði verða til tvær þjóðir.“
List verður ekki svipur hjá sjón án víðtækrar þátttöku almennings og því er afleitt að hér sé þröngt teymi sem hefur hönd á flestum viðburðum íslenskrar tónlistar og hafnar ekki bara nýliðum, sem þeim hugnast ekki, heldur líka rótgrónu tónlistarfólki, sem hefur rutt brautina og öðlast vinsældir og virðingu þjóðarinnar og einnig fólki sem hefur slegið í gegn á erlendri grundu.
Þar sem misbeiting valds (spilling) er við lýði verða til tvær þjóðir. Hér eru það þeir sem valdir eru af þessum ráðum og nefndum og fá framabraut sína lýsta og fægða og svo hinir sem brugðið er fæti fyrir þrátt fyrir vinsældir meðal almennings, en sá þjóðflokkur er settur skör lægra og ekki hafður með í veislunni.
Ég spyr því í lokin: Rýrir það ekki gildi verðlauna og viðurkenninga sem veitt eru listafólki í nafni íslenskrar þjóðar þegar hún á enga aðkomu að því vali, hvorki á þeim sem dæma eða sigra, þó fyrst og síðast sé það íslensk þjóð sem ber hitann og þungann af öllu saman og er auk þess helsti neytandi listarinnar?
Höfundur er tónlistarmaður
Athugasemdir (2)