Það hafa flestallir þurft að takast á við einhvers konar mótlæti á leið sinni í gegnum lífið, sumir myndu segja það óhjákvæmilegt. Það er auðvitað misjafnt hversu mörg áföllin verða á lífsleiðinni en það er í okkar eigin höndum hvernig við tökumst á við þau, hvort við leyfum tilfinningum okkar að koma og leyfum okkur að líða nákvæmlega eins og við þurfum, eða hvort við birgjum hlutina inni og tökumst á við hlutina á hörkunni einni saman.
„Lífið hefur kennt mér að það er ekkert sem ég ekki get tekist á við, svo framarlega sem ég leyfi tilfinningunum að koma.“
Það er mín reynsla að það er takmarkað hvað við getum lagt mikið á herðar okkar á leið okkar gegnum lífið, á endanum hljótum við að bogna og neyðumst til að horfast í augu við það að sumt mótlæti og sum áföll eru hreinlega of stór til að burðast með þau á bakinu alla ævi.
Lífið hefur kennt mér að það er ekkert sem ég ekki get tekist á við, svo framarlega sem ég leyfi tilfinningunum að koma á þeirri stund sem þær koma, því það hjálpar mér. Það var ekki alltaf svo en eftir endurtekin áföll, þá einna helst í tengslum við ófrjósemi sem ég glími við, neyddist ég til að horfast í augu við þá staðreynd og læra að takast á við hana.
Það tók mörg ár að finna æðruleysið og jafnaðargeðið. Það var oft og tíðum viðurstyggilega erfitt. Ég spurði mig oft; af hverju ég? En fátt var um svör, það eina sem mér datt í hug var að lífið hefði ekki hent í mig þessum verkefnum nema ég væri nógu sterk til að standa undir þeim. Þetta voru þau spil sem ég fékk í hendurnar og það væri því best að spila úr þeim eftir bestu getu. Þetta er sú lífsreynsla sem hefur mótað mig hvað mest í lífinu, vegferð mín að móðurhlutverkinu.
Þessi vegferð spannar um tíu ár ævi minnar. Tíu ár af læknisvitjunum, læknismeðferðum hérlendis og erlendis, aðgerðum, meðgöngum, fósturmissum, sorg, eftirvæntingu, spenningi, vonbrigðum, reiði, gráti, hamingju, ótta og allt þar á milli. Einmanaleikinn gerði einnig vart við sig á þessum óvissutímum. Þér finnst þú standa einn á krossgötum og finnst eins og enginn skilji hvað þú ert að ganga í gegnum og það gerir í raun enginn nema að hafa verið í sömu sporum.
„Ég spurði mig oft; af hverju ég?“
Í þessu ferli er maður alltaf kominn einu skrefi lengra, það er í náttúrunnar eðli að hugsa um framtíðina og hvernig hlutirnir munu þróast, sér í lagi þegar vitað er að von er á nýjum einstaklingi í heiminn.
Í júlí 2019 fóru allar tilfinningar mínar út fyrir öll velsæmismörk þegar dóttir mín kom í heiminn. Augnablikinu þegar við fengum hana í fangið er vart hægt að lýsa með orðum. Það var ekki eitt þurrt auga inni á fæðingarstofu því þar vissu allir hversu langþráður draumur hún var.
Móðurhlutverkið er dásamlegt og fallegasta gjöf sem ég hef nokkurn tíma fengið. Eftir að maður verður foreldri breytist oft lífssýnin. Við höfum öll þessa hugmynd um fallegt fjölskyldulíf og að við getum stofnað það án allra vandkvæða, eðli samkvæmt, en stundum reynist raunin önnur.
Í þessari vegferð minni að móðurhlutverkinu hefur mér oft verið hugsað til blóðmóður minnar, konunnar sem fæddi mig. Hún gaf mig frá sér svo ég gæti öðlast betra líf. Að geta tekið þessa erfiðu ákvörðun að gefa barnið sitt frá sér er ofar mínum skilningi. Stundum vildi ég óska að ég gæti sagt henni að hún hafi tekið rétta ákvörðun og að hún hafi gefið mig til foreldra minna sem hafa ætíð borið hag minn fyrir brjósti og elskað mig skilyrðislaust. Ég er henni afar þakklát fyrir þessa óeigingjörnu ákvörðun því örlög mín hefðu auðveldlega orðið önnur en þau eru ef það væri ekki fyrir þessa mögnuðu konu. Fjölskyldur eru alls konar og mikilvægt að fólk átti sig á að blóðtengslin ein eru ekki það sem gerir fólk að fjölskyldu.
Ég myndi ekki vilja breyta einu né neinu. Ég trúi því að ég hafi átt að ganga þessa vegferð, til að styrkjast sem einstaklingur, til að læra, læra að taka mótlæti lífsins og nýta það sem drifkraft í daglegu lífi.
Við hjónin höfum alltaf reynt að lifa eftir fallegu lífsmynstri, jákvæðninni. Lífið hefur oft leitt okkur grýtta vegferð en með dugnaði og elju höfum við verið svo lánsöm að eignast það sem við lengi þráðum. Nú erum við nýbúin að taka á móti kraftaverki númer tvö sem hefur dafnað í maga móður sinnar. Það er erfitt að koma því í orð hversu þakklát við erum eftir allt sem á undan hefur gengið en lífið er gott, það er oft erfitt en alltaf fallegt og þess virði að lifa eftir þessu fallega lífsmynstri. Það skilar sér.
Athugasemdir