Hermangarar fara mikinn þessa dagana og biðja um íslenskan her eða ameríska Nató herstöð til þess að verja Ísland fyrir yfirvofandi árásum Rússa. Og jafnvel Kínverja. Fyrir aðdáendum hernámsins fer Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra.
Þriðjudaginn 14. mars síðastliðinn skrifaði Björn sérkennilega grein um lygar og lygalaupa. Þar sagði hann meðal annars: Umræður um innlend mál draga stundum dám af aðferðunum sem Pútin og Lavrov nota, annaðhvort er hreinlega logið eða legið á upplýsingum til að fegra lélegan málstað.
Þremur vikum síðar eða svo, þann 4. apríl síðastliðinn, var þessi sami Björn í viðtali í sjónvarpsstöð Morgunblaðsins, Dagmálum. Þar lá hann ekki á þrá sinni eftir herstöð í landinu. En hann lúrði á öðru. Sem hann þó tæpti á.
Spyrlar Dagmála inntu Björn eftir því hvernig gengi að ræða við þá sem hvorki vilja innlendan né erlendan her í landi. Hann svaraði með upphöfnu orðskrúði sem lauk með þessum orðum: „Eru þessir menn á mála hjá einhverjum öflum?”
Þar sem þarna er sannarlega „legið á upplýsingum til að fegra lélegan málstað” svo notað sé orðalag Björns, því þess er ekki getið hverjir þeir eru „þessir menn”, fyrir hvaða öfl þeir vinna eða hvað þeir fái í laun.
Af þessu tilefni birti ég hér orðrétta færslu umrædds Björns sem hann birti á netsíðu sinni, bjorn.is, föstudaginn 25.11.´22:
„Fundað í Sussex“
Flaug til Gatwick í gær og ók þaðan beint að sveitasetri í Sussex á ráðfstenu sem lýkur á morgun, Hafði framsögu um öryggismál og fleira í gær.
Fundað í dag frá morgni til kvölds,”
Að þessu skráðu er ekki ósanngjarnt að biðja Björn að liggja nú ekki á upplýsingum eins og Pútín og Lavrov gera, heldur svara af hreinskilni eftirfarandi spurningum:
Hver hélt „ráðfstenu?” Var greitt fyrir framsöguna? Hefur framsöguræðan verið birt á prenti? Hver borgaði fargjald framsögumanns? Hver greiddi fyrir fæði og gistingu? Hvað var það hár reikningur? Hverjir eru „á mála hjá einhverjum?”
Höfundur er rithöfundur.
margreteiriksd@gmail.com