„Sá óþægilegi grunur er farinn að læðast að mér að aðgerðarleysi stjórnvalda sé ekki getuleysi einu að kenna. Að annað og meira búi mögulega undir, því hverjir eru þeir sem augljóslega hagnast á því að fjölmiðlar veikist? Getur verið að raunveruleg ástæða fyrir því að ekki næst pólitísk samstaða um það í ríkisstjórn að grípa til nauðsynlegra aðgerða í þágu fjölmiðla sé sú að hópur valdhafa sjái sér einfaldlega hag í því að ekkert sé gert. Og beitir þess vegna klækja- og undanbrögðum til þess að standa í vegi fyrir því að tillögum, sem settar voru fram fyrir fimm árum, verði ekki hrint í framkvæmd? Væri ekki bara ágætt að fá að halda um valdataumana án afskipta blaðamanna – án þess að þurfa í sífellu að réttlæta hvernig farið er með almannafé, hvernig völdum er útdeilt, hvernig gæðum er skipt?“ Þetta skrifaði Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, í grein sem birt var á Vísi nýverið.
Tilefnið, til skamms tíma, var endalok Fréttablaðsins. Til langs tíma liggur þó fyrir að ráðamenn hafa, annað hvort af getuleysi eða vegna þess að þeir vilja veika fjölmiðla, unnið kerfisbundið að niðurbroti frjálsrar og fjölbreyttrar fjölmiðlunar á Íslandi.
Staðan er afleiðing af pólitískri stefnumörkun sem felur í sér að gera nánast ekkert til að bregðast við stöðu sem hefur blasað við árum saman. Það blasir við að hluti ráðamanna, og mengið sem lifir á sporbraut í kringum þá, líta ekki á frjálsa og fjölbreytt fjölmiðla sem mikilvæga lýðræðisstoð.
Þau líta á þá sem óvini, óþægindi.
Þeir sem eiga að láta yfirmenn sína líta vel út
Fyrir hefur legið árum saman að það stefni í óefni í íslensku fjölmiðlaumhverfi. Erlendir tæknirisar hafa fengið að hrifsa til sín stóran hluta af auglýsingamarkaðnum án þess að greiða skatta af tekjunum sem þeir afla sér á Íslandi, íslenskir miðlar fá ekki að auglýsa eins og aðrir í kringum þá, stuðningur við frjálsa fjölmiðla er smælki í samanburði við nágrannalöndin og samkeppnisbjögun, drifin áfram af valdabaráttu, fær að grassera óáreitt.
Samhliða hinni kerfisbundnu veikingu fjölmiðlaumhverfisins hefur valdafólk eflt verulega alla aðra upplýsingamiðlun. Skattfé hefur verið dælt í upplýsingafulltrúa, aðstoðarmenn og starfsmenn flokka sem hafa það hlutverk að láta yfirmenn sína líta vel út.
Hagsmunagæslusamtök hafa gengið á lagið og nýtt sér þessa vegferð stjórnmálamanna og hert tök sín á narratívi þjóðmálaumræðu. Afleiðingin er að stjórnmálaflokkar, ráðamenn, lobbýistar miðla miklu magni upplýsinga í búningi „frétta”.
Á meðan hafa sömu aðilar dregið tennurnar og getuna úr þeim sem eiga að veita þeim aðhald. Starfandi blaðamönnum fækkar, spekileki er viðvarandi og ótrúleg valdníðsla og árásir á þá sem segja frá er látin líðast. Valdamenn stíga jafnvel fram og styðja slíkt atferli.
Allt þetta er fyrirliggjandi og hefur margoft verið rakið, með vísun í staðreyndir og gögn.
Samt gerist ekkert, nema það að fjölmiðlalandslagið heldur áfram að veikjast.
Þeir sem fengu allar afskriftirnar
Við skulum þó dvelja aðeins við samkeppnisbjögunina. Eftir bankahrunið voru einkareknir fjölmiðlar á Íslandi meira og minna gjaldþrota. 365 miðlar, þá stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypan, fór í bíræfið kennitöluflakk sem kostaði á endanum kröfuhafa 3,7 milljarða króna á þávirði, eða um 5,4 milljarða króna á núvirði. Stærstu kröfuhafarnir voru íslenskir lífeyrissjóðir og ríkisbanki. Í eigu íslensks almennings.
Ljósvakamiðlar 365, ásamt Vísi.is, voru svo seldir til Sýnar, að mestu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða, á brjáluðu yfirverði seint á árinu 2017. Tveimur árum síðar var búið að færa virði þeirra niður um 2,5 milljarða króna í bókum félagsins, rúmlega þrjá milljarða króna á núvirði.
Árvakur, eigandi Morgunblaðsins og tengdra miðla, átti ekki fyrir launum starfsfólks í desember 2008 og var upp á náð og miskunn Íslandsbanka, ríkisbanka, kominn. Bankinn ákvað að afskrifa um 4,5 milljarða króna af skuldum félagsins árið 2009, sem eru um 7,8 milljarðar króna á núvirði. Þorri þeirra afskrifta átti sér stað í aðdraganda þess að félagið var selt nýjum eigendahópi á því ári. Nýju eigendurnir voru að uppistöðu vellauðugir útgerðarmenn með áhuga á því að hafa áhrif á þjóðmálaumræðuna út frá eigin hagsmunum. Þetta dugði þó ekki til og grípa þurfti til annarrar lotu afskrifta árið 2011, þá upp á einn milljarð króna, sem eru um 1,6 milljarðar króna á núvirði. Samanlagt afskrifaði því ríkisbanki, endurreistur með handafli hins opinbera eftir að hafa farið sjálfur í þrot, hátt í tíu milljarða króna af skuldum Árvakurs, á gengi dagsins í dag.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna á gengi hvers árs. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé. Á árinu 2021 fékk Árvakur 81 milljónir króna í rekstrarstyrk úr ríkissjóði auk þess sem félagið frestaði greiðslu á staðgreiðslu launa starfsmanna og tryggingagjaldi í fyrra upp á alls 122 milljónir króna, en um er að ræða vaxtalaust lán sem þarf ekki að endurgreiðast að fullu fyrr en um mitt ár 2026.
Þeir sem fengu að leynast
Á þessum árum eftir hrun gekk margt á í samfélaginu og margir sem höfðu áhuga á að hafa áhrif á þá söguþræði sem spinna átti fyrir almenning. Einn þeirra sem bar mikið á var Björn Ingi Hrafnsson, sem sankaði að sér miklu magni fjölmiðla undir Pressu-regnhlífinni með fjármunum úr óljósum vösum og með skuldsettum yfirtökum. Síðasta yfirtakan var á tímaritaútgáfunni Birtingi í lok árs 2016 og eftir hana voru tæplega 30 miðlar í Pressusamstæðunni. Þeirra þekktastir voru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Björn Ingi missti yfirráðin yfir samstæðunni vorið 2017. Hluti hennar fór til Róberts Wessman og viðskiptafélaga hans, sem höfðu fjármagnað uppkaupin á fjölmiðlunum og botnlausan taprekstur þeirra að hluta. DV og tengdir miðlar enduðu inni í furðufélagi sem lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson fór fyrir og fyrrverandi þingmaður ritstýrði. 2019 var súpan seld, eftir að hafa tapað 600 milljónum króna á 28 mánuðum. Á meðan að á þessum rekstri stóð kom aldrei fram hver borgaði brúsann. Samkeppniseftirlitinu tókst loks að kreista það fram á vormánuðum 2020 og kom þá í ljós að huldumaðurinn var Björgólfur Thor Björgólfsson, ríkasti maður Íslands, en félag sem hann stýrði lánaði yfir einn milljarð króna, vaxtalaust og án tilgreinds gjalddaga, inn í hítina.
Þeir sem ætluðu sér áhrif en fóru bara í þrot
Helgi Magnússon, fjárfestir, stjórnmálaflokksstofnandi og áhugamaður um að hafa áhrif í íslensku samfélagi, dembdi sér í fjölmiðlarekstur sumarið 2019. Hann keypti Torg ehf., sem gaf út Fréttablaðið og tengda miðla, í tveimur skrefum á tæplega 600 milljónir króna, hirti hræið af DV inn í samstæðuna en borgaði af einhverjum ástæðum um 300 milljónir króna fyrir og bætti síðan sjónvarpsstöðinni Hringbraut, sem hafði líka verið rekið í botnlausu tapi árum saman, við. Samkvæmt tilkynningu til Samkeppnisyfirvalda var það gert til að bjarga Hringbraut frá þroti.
Útgáfu Fréttablaðsins var hætt í lok mars og útsendingum Hringbrautar hætt á sama tíma. Rekstrartapið af samstæðunni hafði ná numið 1,3 milljarði króna frá byrjun árs 2019 og út árið 2021. Síðustu mánuði, og reyndar um ansi langt skeið, hafði Fréttablaðið rekið brunaútsölu á auglýsingum sem gerði það að verkum að öll verð á auglýsingamarkaði féllu, með tilheyrandi áhrifum á aðra sem starfa á honum.
Torg var gefið upp til gjaldþrotaskipta í byrjun apríl, eftir að Helgi Magnússon hafði keypti DV.is og vefmiðlil Hringbrautar af sjálfum sér á 420 milljónir króna. Óhætt er að fullyrða að enginn með þekkingu og innsýn í heim íslenskra fjölmiðla skilur þann verðmiða, og þar af leiðandi þessi viðskipti. Sem stendur liggur ekki fyrir hversu mikið af kröfum í bú Torgs fást greiddar, þótt búið sé að tilkynna tæplega hundrað starfsmönnum sem misstu vinnuna að þeir þurfi að sækja uppsagnarfrestinn sinn til ábyrgðarsjóðs launa. Áætlað hefur verið að það muni kosta ríkissjóð um 100 milljónir króna.
Þeir sem mynda hvalinn í barnasundlauginni
Þá á eftir að ræða hvalinn í barnasundlauginni, ríkismiðilinn RÚV. Algjörlega nauðsynlegt er að til sé fyrirbæri eins og RÚV, sem rekur öfluga fréttastofu, sinnir mikilvægri menningarstarfsemi og gegnir öflugu öryggishlutverki. Ofangreint sýnir svart á hvítu að íslenskt samfélag er í órafjarlægð frá því að vera nægilega þroskað til að sleppa tökunum á þessu inn á einkamarkaðinn. Þá yrði allt gleypt af sérhagsmunum í áframhaldandi, og gegndarlausri, baráttu þeirra um yfirráðin yfir Íslandi. RÚV er akkeri sem þarf að vera til staðar.
Það þýðir þó ekki að það megi ekki breyta RÚV, gangrýna og endurskilgreina hversu umfangsmikill rekstur þess eigi að vera. Það liggur til að mynda fyrir að í þjónustusamningi milli menningar- og viðskiptaráðuneytisins og RÚV er ekkert minnst á að RÚV hafi aðhaldshlutverk eða eigi að stunda rannsóknarblaðamennsku. Á sama tíma og súrefni einkamiðla verður sífellt takmarkaðra fitnar hvalurinn ár frá ári.
Í fyrra fóru næstum átta milljarðar króna í rekstur RÚV. Alls komu næstum 5,1 milljarða króna af þeirri upphæð úr ríkissjóði sem var 430 milljónum krónum meira en komu þaðan árið 2021. Þær greiðslur munu aukast verulega á þessu ári, en áætlað er að ríkissjóður greiði RÚV 5,7 milljarða króna á árinu 2023. Þá hafa greiðslurnar úr sameiginlegum sjóðum aukist um milljarð króna á tveimur árum.
Þeir sem þurfa að selja fullt af auglýsingum
Hin tekjustoðin er auglýsingasala. Hún skilaði 2,4 milljörðum króna í fyrra og auglýsingatekjurnar jukust um 372 milljónir króna milli ára. Á tveimur árum hafa þær aukist um 774 milljónir króna, eða um 48 prósent. Engin sérstök ástæða er fyrir þessari tekjuaukningu, önnur en sú að RÚV rekur hátt í 20 manna auglýsingadeild sem sækir allar mögulegar tekjur grimmt. Þessi deild var með um 1,2 milljónir króna í meðallaun á mánuði 2021, eða 20 prósent hærri laun en aðrir starfsmenn RÚV.
Til samanburðar má nefna að styrkir sem greiddir voru út til á þriðja tug einkarekinna fjölmiðla úr ríkissjóði í fyrra voru um 385 milljónir króna. Sú upphæð var því svipuð og sú tekjuaukning sem RÚV tók til sín í gegnum auglýsingasölu á síðasta ári. Af þeirri upphæð fóru 16,8 milljónir króna til Bændasamtaka Íslands, sem eru ekki atvinnugreinaflokkuð sem útgáfustarfsemi heldur sem hagsmunasamtök.
Ritstjórn Bændablaðsins heyrir undir útgáfu- og kynningarsvið Bændasamtaka Íslands. Á heimasíðu þeirra segir að hlutverk þeirra sé að vera „málsvari bænda og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna“. Meginmarkmið þeirra sé að „beita sér fyrir bættri afkomu bænda, betri rekstrarskilyrðum í landbúnaði auk þess að miðla upplýsingum og sinna fræðslu til sinna félagsmanna.“
Öllum ætti að vera ljóst að þetta er fyrirkomulag sem gengur ekki lengur ef markmiðið á að vera fjölbreytt og sjálfbært fjölmiðlaumhverfi.
Þeir sem reyna að keppa á samkeppnisgrundvelli
Þeir miðlar sem sameinuðust undir merkjum Heimildarinnar fyrr á þessu ári, Kjarninn og Stundin, hafa að uppistöðu verið þolendur þessarar stöðu. Þrátt fyrir lygilegar tilraunir ýmissa samkeppnisaðila um að teikna upp einhverskonar stórkostlega meðgjöf með okkur þá tala staðreyndirnar sínu máli. Kjarninn var stofnaður fyrir áratug fyrir sparnað stofnenda. Helsta framlagið í rekstur hans var ákvörðun þeirra um að vinna launalítið eða launalaust í byrjun, undir markaðslaunum þorra þess tíma sem Kjarninn var til og sætta sig við ógreidda yfirvinnu frá upphafi til enda. Innborgað hlutafé í Kjarnann var rúmlega 60 milljónum króna, að meðtöldu því sem stofnendurnir lögðu til. Það þykir ekki stór fjárfesting þegar verið er að byggja upp fyrirtæki að setja inn í það sex til sjö milljónir króna að meðaltali á ári.
Stundin tók inn enn minna hlutafé, byggði upp sjálfbæran rekstur og skilaði hagnaði flest árin sem miðilinn var gefinn út.
Sameinaða útgáfufélagið, sem gefur út Heimildina, er nú í eigu fjölda einstaklinga og enginn einn hluthafi fer með yfir 7,6 prósent hlut í félaginu. Það skuldar engin bankalán, hefur ekki fengið neinar afskriftir, byggir rekstrarmódel sitt upp á því að lesendur greiði fyrir fréttir og er engum háð. Líkt og kom fram í fyrsta leiðara Heimildarinnar eru yfirtökuvarnir innbyggðar í samþykktir félagsins og ritstjórar hafa skráð hagsmuni sína á opinberum vettvangi. Allt er þetta gert til að tryggja að miðillinn vinni út frá forsendum almannahagsmuna fremur en sérhagsmuna. Markmiðið er að veita aðhald og almenningi þær upplýsingar sem hann á rétt á. Í næstu viku ætlum við að taka það skref að gefa Heimildina út vikulega.
Hægt er að skrá sig í áskrift að henni hér.
Þeir sem vilja ekki frjálsa og fjölbreytta fjölmiðla
Formaður Blaðamannafélags Íslands spurði í áðurnefndri grein: „Viljum við sem samfélag að hér verði aðeins fáir og vanbúnir einkareknir miðlar með tilheyrandi skorti á öflugri blaðamennsku og því aðhaldi sem hún veitir? Því það er nákvæmlega þangað sem við erum að stefna. Meðal þeirra sem hagnast á slíkri stöðu eru stjórnmálamennirnir sjálfir og svo þeir sérhagsmunir sem þeir vilja verja og greiða leið.“
Eftir gjaldþrot Fréttablaðsins hefur verið sett á fót sýning á meðal stjórnmálamanna sem á að selja þá hugmynd að þeir hafi áhyggjur af stöðunni, sem þeir þó skópu sjálfir. Nýverið var tilkynnt að 400 milljónum króna verði bætt við framlag til einkarekinna fjölmiðla úr ríkissjóði frá og með næsta ári. Hvernig þeim fjármunum verður úthlutað hefur þó ekki verið opinberað. Þeir sem hafa beitt sér harðast gegn því að gripið verði til fjölbreyttra aðgerða, á grunni tillagna sem unnar voru fyrir stjórnvöld og legið hafa fyrir í rúm fimm ár, hafa þegar hafið köll um að þessum fjármunum verði beint í farvegi sem tryggja að þeir lendi aðallega í maga málgagna síns flokks. Sömu aðilar fóru líka samstundis, eins og þeir gera alltaf, að láta umræðuna um ástand fjölmiðlaumhverfsins hverfast einungis um RÚV. Við blasir að takmark þeirra er að veikja fréttastofu ríkismiðilsins og helst eyði henni, með von um að það styrki tangarhald sérhagsmunaafla á umræðunni í íslensku samfélagi.
Fyrir rúmum tveimur árum birtist leiðari um sambærileg málefni í Kjarnanum. Þar stóð meðal annars: „Við lifum í draumaheimi lobbýista og spunameistara. Það er draumur þeirra að geta verið að mestu óhindrað í hlutverki sögumannsins í samfélaginu. Þess sem ræður því hvernig atburðir eru túlkaðir í samtíma og hvernig sagan geymir þá. Ef sterkir frjálsir, fjölbreyttir og sjálfstæðir fjölmiðlar, í ólíku eignarhaldi með sterkar og fyrirsjáanlegar rekstrarforsendur, eru ekki til staðar þá fá slíkir aðilar það hlutverk endanlega.“
Við erum að nálgast þann stað hratt.
Athugasemdir (2)