Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er að öllu leyti í eigu Guðmundar Kristjánssonar, hagnaðist um 72,3 milljónir evra á síðasta ári, eða 10,3 milljarða króna miðað við meðalgengi ársins 2022. Heildarafkoman var næstum því þrisvar sinnum betri en árið 2021, þegar hún nam 25,3 milljónum evra.
Á grundvelli þessarar afkomu lagði stjórn Útgerðarfélags Reykjavíkur til að 35 milljónir evra, um fimm milljarðar króna, yrðu greiddar út í arð til félaga Guðmundar sem eiga allt hlutaféð í útgerðinni. Það er umtalsvert hærri upphæð en greidd var út til hans í arð árin á undan, en árið 2021 nam arðgreiðslan 13 milljónum evra og árið 2020 var hún 3,2 milljónir evra. Í evrum talið, en það er uppgjörsmynt Útgerðarfélags Reykjavíkur, þá var arðgreiðslan vegna síðasta árs 130 prósent hærri en samanlögð arðgreiðsla áranna tveggja sem komu á undan.
Þetta má lesa úr samstæðureikningi Útgerðarfélags Reykjavíkur sem birtur hefur verið á heimasíðu útgerðarinnar. Honum hefur þó ekki enn verið skilað inn til ársreikningaskráar.
Eignarhlutur í Brim ekki bókfærður á markaðsvirði
Eigið fé útgerðarinnar var metið á 308,4 milljónir evra í lok síðasta árs, en miðað við árslokagengi evru eru það 46,7 milljarðar króna. Fyrir liggur þó að eigið féð er vanmetið. Þannig er samanlagður eignarhluti Útgerðarfélags Reykjavíkur, og dótturfélags þess RE-13 ehf., í Brimi, sem er skráð er á hlutabréfamarkað, 44,42 prósent. Eignarhluturinn í Brimi er bókfærður á 300,3 milljónir evra, um 42,7 milljarða króna. Samkvæmt því mati er eignarhluturinn um 62 prósent af efnahagsreikningi samstæðunnar og nær allt eigið fé hennar.
Í ársreikningnum kemur hins vegar fram að skráð markaðsverð hlutarins hafi numið 513,6 milljónum evra á reikningsskiladegi, sem var 29. mars síðastliðinn. Ef miðað er við meðalgengi evru á síðasta ári eru það 73 milljarðar króna. Því væri hægt að selja hlut Útgerðarfélags Reykjavíkur í Brimi fyrir um 30 milljörðum krónum meira en hann er bókfærður á ef sú sala færi fram á markaðsvirði hlutarins.
Aflaheimildir samstæðunnar eru bókfærðar á 79,4 milljónum evra, um tólf milljarða króna á árslokagengi evru, í lok síðasta árs og námu samkvæmt því um 16,5 prósent af efnahagsreikningi samstæðunnar.
Skuldir Útgerðarfélags Reykjavíkur hafa verið að lækka nokkuð hratt. Heildarskuldir samstæðunnar voru 171 milljónir króna, 25,9 milljarðar króna á árslokagengi evru, um síðustu áramót og höfðu þá lækkað næstum þriðjung milli ára.
Seldu skip og kvóta til Brims í fyrra
Útgerðarfélag Reykjavíkur seldi í september 2022 frystitogarann Sólborgu RE-27 ásamt aflaheimildum sem námu samtals 0,26 prósent af heildarúthlutuðum þorskígildistonnun til nýstofnaðs dótturfélags síns, Sólborgar ehf. Í kjölfarið var gerður samningur um sölu á öllum hlutum Sólborgar ehf. til Brims. Í ársreikningnum segir: „Endanlega var gengið frá sölu félagins í desember. Söluhagnaður nam 43,6 milljónum evra og er framsettur meðal annarra rekstrartekna og söluhagnaðar í rekstrarreikningi félagsins.“ Miðað við árslokagengi evru var söluhagnaðurinn 6,6 milljarðar króna.
Í ársreikningum er heildarverðmæti togarans og aflaheimilda hans brotið niður. Þar kemur fram að aflaheimildirnar hafi verið langmestu verðmætin sem seld voru, en þær voru metnar á 68,7 milljónir evra, 10,4 milljarða króna á meðan að skip og vinnslubúnaður voru metin á þrjá milljarða króna. Brim tók hins vegar yfir langtímaskuldir upp á 12,3 milljarða króna í viðskiptunum.
Í ársreikningnum kemur einnig fram að Útgerðarfélag Reykjavíkur hafi selt skuldabréf fyrir 900 milljónir króna í janúar síðastliðnum, að það hafi haldið víxlaútboð í febrúar 2023 að fjárhæð 3,5 milljarða íslenskra króna og tekið lán frá viðskiptabanka að fjárhæð um 20 milljónir evra í byrjun árs 2023.
Í janúar 2023 fjárfesti félagið í 75 prósent eignarhlut í Premium of Iceland ehf. fyrir 300 milljónir íslenskra króna, en það félag rekur fiskvinnslu og sölustarfsemi á íslenskum sjávarafurðum á erlendum mörkuðum. Þar segir enn fremur að dótturfélagið RE-13 ehf. hafi greitt „upp allar skuldir við viðskiptabanka sinn í janúar 2023 að fjárhæð um 20,4 milljónum evra að viðbættum áföllnum vöxtum og uppgreiðslugjaldi.“ Umreiknað í íslenskar krónur er um að ræða um 3,1 milljarð króna.
Alls störfuðu 94 starfsmenn hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur í fyrra. Heildarlaunagreiðslur samstæðunnar námu 23,5 milljónum evra, sem eru 3.344 milljónir króna miðað við meðalgengi evru í fyrra. Það þýðir að hver og einn starfsmaður var að meðaltali með um 250 þúsund evrur í laun hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur. Það er um 75 þúsund evrum meira en þeir höfðu að meðaltali árið áður. Heildarlaunin hvers og eins starfsmanns á árinu 2022 að meðaltali voru því 35,6 milljónir króna, eða tæplega þrjár milljónir króna á mánuði miðað við meðalgengi evru á því ári.
Hvar eru lögfræðingarnir ? Hvar eru Alþingismenn ?