Nýkomin er út enn ein skýrsla IPCC eða sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Og niðurstaðan sem áður; ástandið er enn að versna. Það er tilgangslaust að rifja upp svikin loforð þjóða heimsins og aðgerðaleysi.
Yfirdráttur andskotans
Ég er einn, sennilega fárra, sem er ekki tilbúinn að firra okkur einstaklingana ábyrgð. Við erum ábyrg sem einstaklingar að taka þátt í þeim lífsstíl sem er að eyðileggja plánetuna okkar. Kapítalisminn eða hið frjálsa hagkerfi væri ekki til nema fyrir eftirspurn okkar einstaklinganna. Atvinnurekendur leika sér svo með tilbúnar gerviþarfir okkar og gera allt til að viðhalda þeim og efla. Verkalýðshreyfingin og sjálfskipaðir talsmenn alþýðunnar leika með og berjast fyrir þjóðfélagi þar sem allt byggist á sem mestri launavinnu til að geta eytt meiru og haldið veislunni áfram.
Stjórnvöld taka að sjálfsögðu þátt í leiknum og viðhalda neyslunni „til að halda uppi svipuðum lífskjörum og þau lönd sem við berum okkur saman við“ jafnvel þó þau lönd séu á sömu villigötum og við. Allt fyrir hagvöxtinn og aukinn kaupmátt.
Við Íslendingar erum hér engin undantekning, a.m.k. meðal hinna efnameiri vestrænu þjóða. Það hafa enn engar alþjóðlegar skuldbindingar virkað, aðeins loforð um markmið. Og nota bene, loftslagsvandinn er sannarlega ekki eina ógnin við áframhaldandi líf okkar mannanna á jörðinni. Við vitum innst inni að hagvöxtur getur ekki aukist endalaust, við vitum að við getum ekki byggt líf okkar á að „búa til – nota – og henda“, við vitum að við getum ekki tekið endalaust út af höfuðstólnum og skilið afkomendur okkar eftir með skuldirnar. Samt höldum við áfram á beinu og breiðu brautinni jafnvel þó við vitum að hengiflugið bíði okkar. Og enn koma fram spekingar sem fullyrða að mannkynið hafi aldrei haft það jafn gott og núna!!!
Það sem er sorglegast er að við fengum mjög góða viðvörun til að rétta kúrsinn, þegar covid faraldurinn stóð sem hæst. Verulega dró úr framleiðslu í heiminum, ferðalög lögðust nær af og vöruflutningar á sjó sömuleiðis. Margt var gert til að leysa mál innan nærumhverfisins og lifa hóflegra lífi. En það var eins og við manninn mælt, allt fór aftur á flug þegar takmörkunum var aflétt. Það sýndi sig að almenningur sætti sig illa við hvers konar takmarkanir og stjórnvöld ýmist höfðu ekki kjark eða vilja til að nýta sér tækifærið sem skapaðist eftir að úr faraldrinum dró. Hugsið ykkur ef Kata Jak hefði gefið út yfirlýsingu um að hún væri hætt að fljúga og minnti þannig endalaust á loftslagsvandann þegar hún birtist á breiðtjaldinu á öllum fundum erlendis.
Kenningin um hvað við gerum ekki
Ég held því fram, (svo ég noti orðalag Kára Stefánssonar) að til að við náum landsýn, og tryggjum afkomendum okkar farsælt líf til framtíðar, snúist ákvarðanir okkar ekki um hvað við gerum, heldur hvað við gerum ekki. Það er svo margt í okkar daglega lífi sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut og veltum dagsdaglega lítið fyrir okkur. Svo tökum við ákvarðanir um að gera eitthvað jákvætt; flokka ruslið, kaupa rafmagnsbíl, nota margnota innkaupapoka og fleira slíkt og teljum okkur trú um að við séum búin að leggja okkar að mörkum. Ég vil ekki gera lítið úr þessum jákvæðu atriðum en allt hitt neikvæða sem við gerum áfram vegur þó miklu þyngra.
Spurningin sem við hvert og eitt stöndum frammi fyrir er einfaldlega ákvörðunin um að fara ekki í þriðju utanlandsferðina á árinu, að kaupa ekki fleiri flíkur, að gefa ekki tilgangslausar jólagjafir, að halda ekki barnaafmæli sem líta má á sem grunnnámskeið í 101 neysla fyrir börnin okkar, að kaupa ekki húsbíl til viðbótar einbýlishúsinu og sumarbústaðnum, að endurnýja ekki innbúið á 10 ára fresti, að setja ekki uppþvottavélina af stað hálffulla, að keyra ekki börnin okkar yfir hálfan bæinn á íþróttaæfingar, að kaupa ekki nýjustu græjurnar árlega, að fara ekki í stórmarkaðina án innkaupalista, að fara ekki akandi í ræktina, til að ná af okkur velmegunarkaloríunum, og svo mætti áfram telja.
Frelsið er yndislegt – ég geri það sem ég vil
Okkur er tamt að líta á hugtakið frelsi sem lausnarorð flestra hluta. Síðustu áratugi, ekki síst eftir hrun Berlínarmúrsins, hefur frelsishugtakið verið hafið til skýjanna og við sættum okkur illa við hvers konar takmarkanir, hvað þá boð og bönn. Við spyrjum okkur sjaldnast hvort við höfum rétt til að beita frelsinu. Við spyrjum okkur ekki hvort við höfum rétt gagnvart framtíð afkomenda okkar, ekki hvort við höfum rétt gagnvart náttúrunni, ekki hvort við höfum rétt gagnvart móður Jörð. Það eru þessi siðferðilegu viðmið sem við höfum leyft okkur að hunsa allt í nafni frelsins:
„Það bannar mér sko enginn að fljúga til Englands yfir helgi og fara á fótboltaleik með Man U, uppáhalds liðinu mínu, eða kaupa ávexti sem fluttir hafa verið um hálfan hnöttinn, hvað þá að panta grímubúning á krakkann minn á Ebay þó hann sé sendur í sérpakka til mín frá Kína og keyrður heim að dyrum og enginn bannar mér að sigla með skemmtiferðaskipi um heimshöfin til að hafa ofanaf fyrir mér á efri árunum. Auðvitað hef ég frelsi til að gera allt þetta og miklu meira til, ég er sko búinn að vinna fyrir þessu! Ég get ekki verið alla daga að hugsa um barnabörnin og umhverfið. Það verða komnar tæknilausnir þegar þau komast á fullorðinsár já og er ekki verið að undirbúa að þau geti bara flutt á aðrar plánetur í framtíðinni? Þetta reddast eins og alltaf.“
Er ástæða til bjartsýni?
Því betur eykst umfjöllun fjölmiðla um umhverfismál hröðum skrefum. Flest viðtöl um loftslagsvandann enda á því að viðmælandinn lýsir því yfir að hann sé bjartsýnn. Það séu til lausnir og nú sé þetta aðeins spurning um tíma. Því miður get ég ekki deilt þessari bjartsýni með þér lesandi góður. Ég get reyndar samþykkt að þetta sé aðeins spurning um tíma, en því miður ekki um hvenær við verðum sloppin fyrir horn heldur miklu frekar hvenær vandamál okkar jarðarbúa verða stjórnlaus.
„Eftir stendur samt spurningin hvort hvert og eitt okkar hafi siðferðisþrek til að fórna einhverju af gerviþörfum til að búa afkomendum okkar betra líf.“
Meðan kapítalismans nýtur við mun neysla okkar halda áfram að aukast, mengun hvers konar einnig, draga mun úr líffræðilegum fjölbreytileika, vatnsskortur verða algengari, efnahagslegur ójöfnuður viðhaldast og flóttamannastraumur stóraukast. Hætta er á að þetta leiði til átaka af áður óþekktu umfangi þar sem, í stað yfirráða yfir olíu og jarðefnum, verður barist um vatn og ræktunarland.
Þegar upp er staðið erum við samt öll einstaklingar hvort sem við skilgreinum okkur sem launþega, öryrkja, atvinnurekendur, óbreytta borgara, stjórnvöld, börn eða gamalmenni. Þó okkur finnist við hafa lítil áhrif, hvert og eitt, þá erum það samt við sem nú lifum sem breyttum heiminum til þess horfs sem nú er. Og við ættum því að geta breytt honum til betri vegar. Það verður aðeins gert með upptöku hringrásarhagkerfisins og efnahagslegum jöfnuði. Að óbreyttu eru líkurnar á að slíkt gerist á vakt kapítalismans nær engar. Það má líka telja harla ólíklegt að við vesturlandavelmegunarhyskið afsölum okkur hluta af kaupmætti okkar til að gera lífið bærilegra fyrir meðbræður okkar og systur í fátækari hluta heimsins.
Eftir stendur samt spurningin hvort hvert og eitt okkar hafi siðferðisþrek til að fórna einhverju af gerviþörfum til að búa afkomendum okkar betra líf. Reyndar er einfaldasta leiðin sáraeinföld, að gera ekki eitthvað og, það sem betra er, það kostar ekkert. Hvort ástæða er til bjartsýni er m.a. undir þínu svari komið.
Höfundur er heimavinnandi heimsborgari
Við höfum þegar farið í gegnum mesta sparnað á losun sem um getur á norðurhveli jarðar þegar við fórum úr kolefni í heitt vatn til að hita 95% húsa. Þetta eiga allflestar þjóðir eftir.
Losun okkar á KWh er ein, ef ekki sú lægsta, í heiminum. Miðað við t.d. Þýskaland er losun CO2/KWh okkar 1/8.000.
Kjánagangurinn við að blanda mannfjölda í málið er undarlegt enda ef að fólki fjölgaði án þess að mengun minnkaði myndi vandinn minnka...
Enginn spyr um mótvægisaðgerðir til að draga úr skaðlegum áhrifum þar-með-óhjákvæmilega aukinnar neyslu, sóun og mengun.
Væri nú ekki ráð að leggja meiri áherslu á að auka umsvif óhagnaðardrifinna byggingafélaga og styrkingu bótakerfanna en auka kaupmátt þeirra sem þegar komast þokkalega af?