Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur ákveðið að láta af störfum hjá samtökunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.
Samkvæmt Mbl.is er Halldór Benjamín að taka við sem forstjóri Regins fasteignafélags. Þar segir ennfremur að hann muni hefja störf þar fyrri hluta sumars og að Helgi S. Gunnarsson, sem gegnt hefur starfi forstjóra Regins frá stofnun árið 2009, láti þá af störfum en verði Halldóri Benjamín innan handar fyrst um sinn.
„Það eru óneitanlega blendnar tilfinningar sem fylgja því að kveðja þennan vettvang, enda eru alger forréttindi að gegna starfi framkvæmdastjóra SA. Starfið hjá SA hefur verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt en það er á sama tíma engum hollt að vera í slíku starfi of lengi,“ segir Halldór Benjamín í tilkynningunni.
Hann tók við starfi framkvæmdastjóra SA í lok árs 2016. Áður var hann framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group hf.
Halldór Benjamín er hagfræðingur að mennt. Hann hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, var til að mynda framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og hefur meðal annars starfað hjá Milestone, Norræna fjárfestingabankanum og Hagfræðistofnum Íslands.
Athugasemdir