Reykvíkingar hafa sýnt metnað í sorpmálum og viljað vel, en verið seinheppnir. Með byggingu sorpeyðingarstöðvar við Stórhöfða var stigið stórt framfaraskref fyrir 70 árum, en tókst ekki sem skyldi. Stöðin var í notkun 1958-1978. Í ársskýrslu Sorpu 2011 segir:
„Í Sorpeyðingarstöðinni við Stórhöfða var tekið við úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og hann flokkaður. Lífrænn úrgangur fór í gerjun og var búinn til úr honum svokallaður skarni, sem notaður var sem áburður. Grófur úrgangur var urðaður, mest fór í gryfjur við Vesturlandsveg, í Grafarvogi, við Ártún og eitthvað í Geirsnef. Eftir að notkun stöðvarinnar var hætt árið 1978 og þar til SORPA hóf starfsemi 1991 var úrgangur urðaður í Gufunesi.“ Í ársskýrslunni er mynd af stöðinni.
Illa lyktandi skarni
Í Morgunblaðinu 2. des. 1961 birtist lítil frétt bls. 3 undir yfirskriftinni: „Skarni betri áburður en búizt var við“. Segir þar frá rannsóknum Björns Sigurbjörnssonar (hann var um tíma sérfræðingur hjá FAO og síðar forstjóri Rala) á áhrifum skarna á kartöflusprettu sumarið áður. Í rannsókninni gaf 1500 kg af skarna á 100 m2 besta raun með lítilsháttar viðbót af tilbúnum áburði. Tekið var fram að skarni hafi einnig reynst mjög vel við trjárækt og á grasbletti.
Þegar ég var unglingur á árunum um 1960 að þvælast um borgina með Tryggva frænda, man ég vel eftir sterkri, vondri lykt þar sem menn voru að rækta trjábeð og grasbletti. Ég fékk að vita að þetta væri skarni, sem væri unninn úr sorpi.
Þegar ég var í framhaldsnámi í líffræði árið 1974 fékk ég það verkefni á Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, RALA, að rannsaka skarnann í Reykjavík. Ég setti upp fjölda tilraunareita – bæði á Keldnaholti og í Landeyjum – og mældi í tvö sumur áhrif skarnans á grassprettu og bar saman við fleiri áburðartegundir. Ég skrifaði 1976 um það skýrsluna Skarnarannsóknir, Fjölrit RALA nr.1. Niðurstöðurnar voru dapurlegar. Skarninn var með alls kyns rusli og áburðargildið minna en í rannsókn Björns 15 árum áður, en þó álíka og í kúamykju. Skarninn virtist þó bæta sandjarðveg þannig að tilbúinn áburður nýttist þar ögn betur.
Ég heimsótti sorpeyðingarstöðina og fylgdist með framleiðslunni. Efnið fór úr ruslabílunum á færibönd sem karlar stóðu við og tíndu úr það sem ekki var talið æskilegt í skarnann. Þá var plast að verða æ algengara efni og farið að setja eldhúsúrgang í plastpoka, einkum í fjölbýlishúsum. Þannig kom stór hluti lífræna efnisins í plastpokum á færiböndin og skipti engum togum að karlarnir hentu pokunum með innihaldinu til hliðar og fór það beint í urðun! Þarna var hluta af besta skarnahráefninu bókstaflega skákað út af borðinu og gæti það skýrt lakara áburðargildi skarnans.
Efnið til skarnagerðarinnar var síðan fyrsta sólarhringinn í stórum tönkum sem snerust, tromlum svipuðum og í fiskimjölsverksmiðjum. Í þeim var loft, raki og hiti svo rauk út lyktarlítil vatnsgufa. Síðan var skarninn settur út á plan í þykka múga og of lítið hugsað um að umbylta þeim, svo þar var loftun ónóg svo að óþörfu magnaðist þar ólykt við loftfirrða rotnun.
„Reykvíkingar sem komnir eru yfir sextugt ættu að muna eftir ruslinu og ekki síst ólyktinni.“
Þrátt fyrir sortéringuna á færiböndunum slapp talsvert af plasttægjum og glerbrotum framhjá. Því var plast, tuskubútar og alls kyns drasli í skarnanum til mikillar óprýði þegar búið var að dreifa honum á grasbletti bæjarins. Reykvíkingar sem komnir eru yfir sextugt ættu að muna eftir ruslinu og ekki síst ólyktinni.
Ég fékk það á tilfinninguna að þarna hefðu menn flutt til landsins tæki til moltu/skarnagerðar sem menn kunnu lítið að fara með. Vonandi myndu menn aldrei endurtaka þann leik!
Í lok skýrslunnar lagði ég til að starfsemi sorpeyðingarstöðvarinnar yrði rannsökuð í þeim tilgangi að bæta framleiðsluna, auka afköstin og ekki síst bæta afurðina. En það varð ekki. Tveimur árum eftir að ég lauk við skýrsluna um skarnann var sorpeyðingarstöðinni við Stórhöfða lokað og skarnaframleiðslu hætt, en mannvirkin voru þó ekki rifin fyrr en um aldamót. Næstu 13 árin var öllu sorpi ekið óflokkuðu til urðunar, aðallega í Gufunes. Þegar verið var að grafa fyrir Egilshöll við Víkurveg fannst stór gryfja sem fyllt hafði verið af sorpi, líklega því sem flokkað var frá við skarnagerðina.
Að flokka úrgang
Á skarnagerðartímanum kom flokkun sorps á heimilum ekki til umræðu og hefði líklega þótt fráleit hugmynd. Af og til var rætt um flokkun á 9. áratugnum, þegar Sorpa var í mótun. Þá var flokkun sorps orðin algeng víða um lönd en fáir höfðu trú á að Íslendingar fengjust til að flokka sitt sorp. Katrín Fjeldsted, læknir og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, flutti í borgarstjórn 13. okt. 1987 tillögu um flokkun heimilissorps. Tillagan náði ekki fram að ganga, en 1989 náði Katrín því fram að möguleikar á flokkun sorps í heimahúsum yrðu kannaðir og að tekið yrði á móti pappír, pappa og timbri í sorp-pökkunarstöð höfuðborgarsvæðisins, Sorpu. Í upphafi hafði ekki verið gert ráð fyrir neinni flokkun í þeirri nýju stöð, heldur að allt sorp yrði baggað óflokkað og urðað í Álfsnesi. (Morgunblaðið 15. 2,1989, bls. 3.)
Í sömu Morgunblaðsgrein er haft eftir Katrínu: „Það hlýtur því að vera sjálfsagt að nota annan pappírsúrgang á sama hátt en það þarf að kanna hvernig þessi tillaga leggst í fólk því hún gerir talsverðar kröfur til manna ef af verður. Með því að flokka sorp í tvö ílát og ætla annað undir pappír fer ekki meira fyrir því og ég er ekki viss um að auka þurfi við öskubílaflotann þó ruslinu sé skipt. Þá má vel ímynda sér að eitthvert fyrirtæki hafi áhuga á að bjóða í þann pappír, sem til fellur til endurvinnslu. Þetta er auðvitað hluti af umhverfisvernd, sem mikið er til umræðu. Ég held að tímarnir séu að breytast og að fólk muni taka þessari tillögu vel þegar það áttar sig á tilganginum."
Árið eftir var bæklingurinn „Notaðar rafhlöður úr umferð“ sendur inn á heimili og fólk hvatt til að henda ekki lengur notuðum rafhlöðum í sorpið heldur skila þeim í merkt ílát sem komið var fyrir í verslunum og víðar. Þar átti Katrín líka hlut að máli, sbr. grein hennar í Sveitarstjórnartíðindum 01.08.‘89. „Með þessu átaki er stigið fyrsta skrefið í því að flokka sorp í heimahúsum,“ segir hún í lokin. Fleira var gert á þessum árum. Farið var að grófhreinsa skólp í Reykjavík, veita því langt út fyrir fjörumörk og hreinsa fjörurnar. Búið var að lögleiða skilagjald á drykkjarumbúðir, svo dósir og flöskur voru ekki lengur sorp. Farið var að huga að mælingu loftmengunar og fleira mætti nefna. Umhverfismál voru komin í hámæli og má m.a. þakka það kvennaframboðinu og kvennalistanum.
Sorpa – og svo Gaja
Sorpa, byggðasamlag bæjarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hóf starfsemi vorið 1991. Í apríl það ár var móttökustöð Sorpu í Gufunesi opnuð og í júní átta gámastöðvar víða á höfuðborgarsvæðinu. Ýmislegt hefur drifið á daga Sorpu. Þetta söguyfirlit er úr árskýrslunni 2011:
-
Í maí 1994 hóf SORPA framleiðslu á moltu, lífrænum jarðvegsbæti úr garðaúrgangi. (Nú var ekki lengur notað orðið skarni – enda komið óorð á það – heldur fundið upp orðið molta yfir það sem á erlendum málum kallast compost. Molta er ekki í orðabókum frá 1988, en hins vegar skarni.) Það sama ár var hafin rannsókn á innihaldi heimilissorps. Ekki veit ég hvað kom út úr því.
-
Í desember 1993 hófst samstarf við líknarfélög um söfnun nytjahluta, leiddi síðar til stofnunar nytjamakaðarins Góða hirðisins 1999.
-
Í júlí 1995 hófst skipulögð söfnun dagblaða og tímarita til endurvinnslu.
-
Í mars 1996 hófst skipulagt fræðslustarf fyrir grunnskóla hjá SORPU.
-
Í desember 1996 hófst söfnun metangass á urðunarstaðnum. Það var gert til að draga úr gróðurhúsáhrifum og til að nýta þá orku sem í gasinu felst. Árið 1999 var Metan hf stofnað til að hreinsa, dreifa og selja metangasið og árið 2003 hófst einnig framleiðsla á rafmagni úr gasinu.
-
Í janúar 1997 hófst söfnun á fernum til endurvinnslu.
-
1998 var Efnamóttakan hf. stofnuð.
-
20 ágúst 1999 var Metan hf. stofnað. Tilgangur þess er að sjá um sölu og dreifingu á metani sem myndast á urðunarstað SORPU. Í júní 2000 voru fyrstu metanbílarnir teknir í notkun. Þeir voru 20 talsins af gerðinni Volkswagen
-
1. maí 2000 hófst söfnun á fötum og klæðum fyrir Rauða Kross Íslands á endurvinnslustöðvum.
-
2006 fóru 31% af úrgangi sem bárust til SORPU til endurvinnslu eða endurnotkunar og 2011 var það komið upp í 39%.
-
Í febrúar 2010 var stærsta og fullkomnasta endurvinnslustöð á Íslandi opnuð að Breiðhellu í Hafnarfirði.
Næsti stóri áfangi í sorpmenningu Íslands er gas- og jarðgerðarstöðin GAJA sem tók til starfa 2020. En það gekk hreint ekki vel. Upp kom mygla í húsinu, þar sem notuð höfðu verið viðarburðarvirki í stað stáls. Síðan reyndist moltan vera ónothæf, eins og lýst er í Stundinni 4.6.2020 og í ársskýrslunni 2021. Þá vaknar sú spurning hvort menn hafi lært nóg af mistökum síðustu 60 ára.
Þrátt fyrir að flokkun lífræns úrgangs væri löngu hafinn í öðrum sveitarfélögum (Stykksihólmi, Akureyri og víðar) trúðu menn því trauðla að Reykvíkingar gætu lært að flokka. Því var fluttur inn frá Danmörku rándýr flokkunarbúnaður svo fólk gæti áfram sóðað öllu sorpi saman heima. Yrði súpan síðan flokkuð með nýja búnaðinum á móttökustað og nýta mætti lífræna hlutann til að framleiða nýtanlega moltu og metangas. Það gekk vitaskuld ekki, sorpan var ónothæf vegna plasts, glerbrota, málma o.fl. Á dögunum mátti lesa fréttir af því að búnaður þessi yrði lagður niður og er loks byrjað að koma upp ílátum í hverfum höfuðborgarsvæðisins til að flokka m.a. lífrænan úrgang.
Hvað svo?
Betra er að læra seint en aldrei, en hér urðu dýr og óþörf mistök. Vonandi er höfuðborgin okkar loks komin á heillavæna braut í sorpmálum. Nú þarf sorpmenningarbyltingu! Fólk þarf að læra að flokka sitt rusl af kostgæfni og sinna því sem sjálfsögðum hlut.
Höfundur er líffræðingur
A. Fyrsta skref í þeirri byltingu er að upplýsa stjórnarformann og stjórn Sorpu um muninn á þurrgerjun og votgerjun lífræns úrgangs.
B. Um leið og stjórnarformaður og stjórn Sorpu sem fulltrúar eigenda íbúanna á höfuðborgarsvæðinu uppgötva muninn á þurrgerjun og votgerjun , þá um leið sjá þeir hvað framkvæmdarstjórn Sorpu ,sem á að sjá um gasgerðarstöðina GAJA er illa upplýst og út á þekju um rekstur gasgerðarstöðvar. Að ætla að framleiða gas með þurrgerjun er heimska af grófustu gerð. Eins og Þorvaldur bendir á þá er þurrgerjun ekkert annað en skarnaframleiðsla sem nú er kölluð moltuframleiðsla. Gasmengun frá þessari moltuframleiðslu á höfuðborgarsvæðinu er á við allan útblástur frá flugflota Icelandair á ársgrundvelli.
C. Nú ætti stjórnarformaðr Sorpu að fela heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að mæla útblástur mengunargastgunda frá moltuframleiðslu á svæðinu, í eigu Sorpu og sveitarfélaganna auk annara fyrirtækja og upplýsa íbúana um þá niðurstöðu.
D. Nú hefur stjórn Sorpu notað 6000 milljónir í uppbyggingu GAJA stöðvarinnar og 1000 milljónir í sorteringarbúnað blandaðs lífræns úrgangs sem nú á að fyrna og eru allir að gefast upp á þessum eilífu mistökum. En það er lausn.
E. Lausnin er að taka allan búnaðinn og húseignir og fara yfir í votgerjun lífrængs úrgangs í lokuðu umhverfi þar sem vatn leikur aðalhlutverkið bæði heitt og kalt. Þannig verður methangas til. Í gerjun við loftfyrrtar aðstæður í lokuðu tankakerfi. Bakteríubússkaður. Það er sorpmenningarbylting á heimsvísu.
Guðbrandur Jónsson, Saurbær-Biogas.