Í þáttunum Mad Men, sem gerast reyndar á auglýsingastofu, fer einn með þessi fleygu orð: „Settu pening í krukku í hvert skipti sem þið stundið kynlíf fyrsta árið. Taktu pening úr krukkunni í hvert skipti sem þið stundið kynlíf annað árið. Hvað ertu þá með? Yfirfulla krukku.“ Persónan í þáttunum er reyndar að ræða hjónaband í þessari senu en fólk hefur haldið þessu fram um barneignir, sagt að þær séu gálgi og á gálganum sé kynlíf okkar afhöfðað.
Verið ófeimin
Til að fyrirbyggja það er fyrsta ráðið að vera ófeimin hvort við annað, við aðstæður, við ungbarnakúk, við stofuna, við sofandi eða hálfsofandi barnið ykkar, við eigin líðan, við samtal um kynlíf og tilfinningar. Svo má ekki heldur vera feimin við þá tilhugsun að nágrannar sjái inn eða heyri til okkar, enda verður allt kynlíf héðan í frá stundað vel fyrir miðnætti.
Verið með dýnu inni í stofu
Það er bæði hentugt og skemmtilegt að nýta fermetrana í dýnu á stofugólfið en hún verður í senn leikhorn, skiptiborð, leikfangageymsla og kynlífsbæli. Það sem áður hefði þótt hindrun á borð við drasl eða skít verður nú frygðarauki því þið nýbökuðu foreldrarnir eruð svo ófeimin á nýju og flottu dýnu fjölskyldunnar.
Verið fljót
Það má engan tíma missa enda vita nýbakaðir foreldrar aldrei hvenær kallið kemur. Þess utan eru báðir aðilar máls að glíma við langvinna syfju þannig að hver mínúta sem tapast af svefni er dýrkeypt. Forleikur og koddahjal eru ekki skilvirk í þessu samhengi, þótt slíkt geti reynst nauðsyn en þá aðeins í hóflegan mínútufjölda.
Ef fólk temur sér að koma sér fljótt í gírinn, gleyma langvarandi syfjunni og fyllast fyrirvaralaust af orku og losta innan um alla kösina, hrúgu af böngsum, brókum, púðum og bókum, ef því tekst að samstilla sig og vera ófeimið við allt ofantalið, þá gæti kynlífið haldið áfram. Krukkan gæti tæmst.
Athugasemdir