Sigurður Ingi Jóhannsson. Þér hefur verið treyst fyrir stóru og miklu ráðuneyti, sem fer meðal annars með skipulags-, samgöngu- og sveitarstjórnarmál.
Það var því ekki óeðlilegt að þú fáir spurningar um þau máefni sem þér ber að leysa farsællega. Á Alþingi nú í vikunni spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, eftirfarandi spurninga:
Hvernig stóð á því að innviðaráðherra staðfesti strandsvæðaskipulag á Austfjörðum í andstöðu við 74 prósent íbúa Seyðisfjarðar?
Hagsmuna hverra er hæstvirtur ráðherra að gæta í þessu máli sem nú skekur samfélagið fyrir austan?
Þér þóknaðist ekki að svara þessu, komst bara með sundurslitnar útskýringar á hvað skipulag er, hvernig það er unnið og hvað þú megir gera. Kannski ekki von á skýrum svörum þegar menn hafa ekki rökin með sér.
„Við berjumst áfram og ætlum að vernda fjörðinn okkar.“
Strandsvæðaskipulagið
Þér er fullkunnugt um að verkferlar skipulagsvinnunnar voru ekki unnir í réttri röð. Áhættumat siglinga átti að koma fyrst en ekki síðast. Því eru álitamál varðandi siglingaöryggi óleyst ennþá þrátt fyrir samþykkt skipulag. Strandsvæðaskipulagið átti að koma í veg fyrir að villta vestrið fengi að blómstra, eða það héldum við.
Stofnanir sem greindu strandsvæðaskipulagið komu með alvarlegar athugasemdir um áhrif sjókvíaeldis á siglingaöryggi en ráðherra setti sömu stofnanir og sömu menn í að koma með mótvægisaðgerðir til að koma sjókvíaeldinu fyrir. Mótvægisaðgerðirnar skiluðu sér ekki inn í skipulagið. MAST og UST þurfa að klára skipulagsvinnuna áður en leyfisumsóknir verða afgreiddar.
Ætli siglingaleiðin um Seyðisfjörð verði ekki merkt á alþjóðlegum kortum sem varúðarsvæði, hætta vegna sjókvíaeldis?
Siglingaleiðin varðar þjóðaröryggi og er algjörlega óklárað mál. Því var enginn grundvöllur fyrir því að staðfesta skipulagið, því fara þarf að lögum í þessu landi Sigurður, eins og þú sjálfur bentir á í svari til Helgu Völu.
Þú hefur einnig fullyrt að alger einhugur hefði verið um skipulagið í svæðisráði, og samþykktir skipulagið á þeim forsendum. Svæðisráðið var skipað sterkum aðilum beintengdum við sjókvíaeldi. Það er ekki rétt að allir hafi verið sammála, eins og sést á fundargerðum við lokaumfjöllun svæðisráðs. Einn fulltrúi var alfarið á móti auk þess sem fulltrúi matvælaráðherra gerði alvarlegar athugasemdir. Það var síðar dregið til baka vegna hættu á málsókn. Það á ekki við í Seyðisfirði þar sem engin leyfi hafa verið gefin út.
Með staðfestingu þinni á skipulaginu í Seyðisfirði ferðu gegn öllum grundvallarreglum um vandaða stjórnsýslu. Það er enginn annar en þú, hæstvirtur innviðaráðherra, sem getur komið í veg fyrir allt þetta uppnám. Það þarf að taka öll eldissvæðin í Seyðisfirði út úr strandsvæðaskipulaginu, því tilkoma þeirra væri lögbrot.
Tíu kvíastæði á Austfjörðum fyrir utan þau í Seyðisfirði eru innan hvíts ljósgeira siglingarvita.
Innviðaráðherra þarf að svara þjóðinni af hverju innviðum landsins er fórnað fyrir laxeldi.
Helga Vala spurði öðru sinni: Ef samfélagið skiptir engu máli og íbúarnir skipta engu máli þá veltir maður fyrir sér Þjóðaröryggi, skiptir það heldur engu máli?
Ráðherra kaus að svara ekki þessari spurningu. Nýtt strandsvæðaskipulag við Íslandsstrendur er staðfest af Sigurði Inga og svarið í skipulaginu er augljóslega nei, þjóðaröryggis er ekki gætt.
Umhverfi, náttúra, nærumhverfi og íbúalýðræði
Í umhverfismati voru settir tveir valkostir. Svæðisráð fór illa með vald sitt með því að velja kostinn með sjókvíaeldinu, þrátt fyrir að allir sjá að það kemst ekki fyrir nema með yfirgangi og valdníðslu.
Ofanflóðalög eru skýr og taka skal fullt tillit til áhættumats við allt skipulag. Veðurstofan gerði skýra grein fyrir því í minnisblaði. Svæðisráð hunsaði það og vill láta endurmeta hættuna. Frekjan yfir og allt um kring. Af hverju er Veðurstofan lítilsvirt með þessum hætti?
Varðandi sæstrenginn þá segir í nýju minnisblaði frá Fiskeldi Austfjarða: „Eldissvæðið við Selstaðavík fer lítillega inn fyrir helgunarsvæði strengsins“. Sigurður Ingi, þarna er komin viðurkenning frá fyrirtækinu að það hyggist brjóta fjarskiptalög, en bara voða lítið. Þetta er eins og að vera staddur í leikhúsi fáránleikans þar sem þetta minnisblað fyrirtækisins telur sig vera að árétta að allt sem við höfum haldið fram sé á misskilningi byggt.
Fundur með innviðaráðherra og fullt af sérfræðingum
Á fundi tveggja fulltrúa VÁ með innviðaráðherra og stórum hópi starfsmanna ráðuneytisins, áður en skipulagið var afgreitt, klifaðir þú á sama svarinu: Ég er ekki að veita leyfi bara að staðfesta skipulag. Við fengum sem sagt engin önnur svör við áleitnum spurningum okkar.
Á fundinum kynntum við andstöðu 74 prósent Seyðfirðinga við sjókvíaeldi í firðinum, og við skynjuðum að það vakti athygli. Þegar upp var staðið skipti það engu máli fyrir ráðherra sveitarstjórnarmála. Hvar er virðingin fyrir íbúum þessa lands? Hvernig á fólki að líða vel hér á landi þegar stjórnvöld taka ekki tillit til þess, og jafnvel niðurlægja.
„Stattu með okkur Sigurður Ingi!“
Svarta skýrslan
Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýndi fram á að sjókvíaeldi skarast á við siglingaleiðir, vita og fjarskiptastrengi. Allt heyrir þetta undir innviðaráðherra og brýtur lög í Seyðisfirði. Skýrslan staðfestir líka að burðarþolsmat í Seyðisfirði byggir á röngum forsendum. Þú varst ekki búinn að staðfesta strandsvæðaskipulagið þegar skýrslan kom út. Einhverjir hefðu staldrað við, kannað ferlið betur og jafnvel sýnt smá auðmýkt vegna rangs burðarþolsmats. En nei, áfram skal ruðst yfir allt og alla.
Baráttan heldur áfram
Þetta er orðið langt og leiðinlegt stríð um hluti sem þarf ekki að vera að deila um. Sjókvíaeldi kemst ekki fyrir í Seyðisfirði og 74 prósent íbúa vilja það ekki í fjörðinn. Að þú skulir ekki ná þessari einföldu staðreynd er okkur ráðgáta. Ef skipulagið hefði haft raunverulega víðtækt samráð við stofnanir, hagaðila og almenning eins og til stóð þá væri þessi staða ekki komin upp. Niðurstaða: Ef hlutverk þitt var aðeins að yfirfara hvort hefði verið rétt að verki staðið, eins og þú svarar Helgu Völu, nú þá er svarið einfaldlega NEI. Strandsvæðaskipulag sem er stýrt af pólitík og sérhagsmunum verður aldrei farsælt.
Það sér hver einasta skynsöm manneskja.
Við berjumst áfram og ætlum að vernda fjörðinn okkar.
Stattu með okkur Sigurður Ingi!
Fyrir hönd VÁ:
Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, Magnús Guðmundsson og Sigfinnur Mikaelsson
Athugasemdir