Tæpur helmingur landsmanna er óánægður með störf ríkisstjórnarinnar samkvæmt könnun Maskínu og hefur óánægjan aldrei mælst meiri frá því stjórnin tók til starfa. Ánægja með störf stjórnarinnar eykst meðal kjósenda Vinstri grænna milli ársfjórðunga en dalar hjá kjósendum hinna stjórnarflokkanna. Lítil ánægja mælist á sama tíma með störf stjórnarandstöðunnar, aðeins 15 prósent aðspurðra svara því til að þeir séu ánægðir með þau.
Um er að ræða ársfjórðungslega mælingu á ánægju með störf stjórnar og stjórnarandstöðu sem Maskína framkvæmir. Nokkrar breytingar eru á ánægju með störf ríkisstjórnarinnar hjá þeim sem styðja ríkisstjórnarflokkana. Þannig segjast 61 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins nú ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar en voru 67 prósent á síðasta ársfjórðungi. Minna dregur úr ánægju kjósenda Framsóknarflokks en 48 prósent þeirra segjast nú ánægðir með ríkisstjórnina samanborið við 51 prósent á síðasta ársfjórðungi.
Aðeins 5 prósent mjög ánægð
47%
Mesta athygli vekur hins vegar stuðningur kjósenda Vinstri grænna þegar spurt er um störf ríkisstjórnarinnar. Á síðasta ársfjórðungi svöruð 44 prósent aðspurðra því til að þau væru ánægð en nú hefur ánægjan aukist. Alls sögðu 47 prósent stuðningsfólks Vinstri grænna að þau væru ánægð með stjórnina á þessum ársfjórðungi. Miðað við umræður síðustu vikna, þar sem greint hefur verið frá töluverðri undiröldu í flokknum, meðal annars vegna samþykktar útlendingafrumvarps dómsmálaráðherra, kunna því þessar niðurstöður að koma á óvart.
Alls hefur dregið úr ánægju þeirra sem styðja stjórnarflokkana um fjögur prósentustig, er nú 55 prósent, og hlutfall þeirra sem eru óánægðir fer upp um tvö prósentustig, er nú 12 prósent.
Litlar breytingar eru á afstöðu kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna og í heild eru 70 prósent þeirra óánægð með störf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á meðan 7 prósent eru ánægð. Það er sama niðurstaða og á síðasta ársfjórðungi.
Þegar horft er á ánægju eða óánægju með stjórnina almennt sést að rúmur fimmtungur svarenda í könnuninni, 22,6 prósent, er mjög óánægður. Fjórðungur er þá frekar óánægður. Aðeins fimm prósent aðspurðra eru mjög ánægðir en 17,5 prósent eru fremur ánægðir.
Alls eru því 48 prósent aðspurðra óánægðir með störf stjórnarinnar og hafa ekki verið fleiri. Á síðasta ársfjórðungi voru óánægðir 42 prósent en hafði hæst farið í 46 prósent á öðrum ársfjórðundi síðasta árs. Algjör viðhorfsbreyting varð á milli fyrsta árstjórðungs árið 2022 og annars ársfjórðungs en á fyrsta ársfjórðungi 2022 mældist óánægja með störf ríkisstjórnarinnar 29 prósent.
Elstu kjósendurnir ánægðastir
Fleiri karlar eru óánægðir með störf ríkisstjórnarinnar en konur, alls 51,7 prósent karla móti 43,2 prósentum kvenna. Hins vegar mælist enginn munur milli kynja þegar kemur að ánægju með störf stjórnarinnar, hlutfallið er 22,6 prósent í báðum tilvikum.
53%
Mest óánægja með störf ríkisstjórnarinnar mælist í aldurshópnum 30 til 39 ára en 53,1 prósent þátttakenda á því aldursbili sögðust óánægð. Minnst óánægja, 43,9 prósent mældist í aldurshópnum 50 til 59 ára.
Ánægja með störf ríkisstjórnarinnar eykst línulega eftir því sem svarendur eru eldri. Af þeim sem sögðust ánægðir voru flestir í elsta aldurshópnum, 60 ára og eldri, alls 29,1 prósent, en fæstir í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, 16,3 prósent.
Ánægja eykst með meiri menntun og hærri tekjum
Sé horft til búsetu þá er mest óánægja með störf stjórnarinnar hjá íbúum Reykjavíkur en 51,9 prósent þeirra sögðust óánægð. Minnst var óánægjan á Austurlandi, 37,4 prósent. Mest ánægja með störf stjórnarinnar mældist á Norðurlandi, 26,2 prósent, en minnst var ánægjan í Reykjavík, 20,3 prósent.
Þá mælist mest óánægja meðal þeirra sem minnsta menntun hafa en minnst meðal þeirra sem hafa hákskólapróf. Sama mynstur má greina meðal þeirra sem eru ánægðir með störf stjórnarinnar, þeir sem hafa aðeins grunnskólapróf eru síst ánægðir en þeir sem hafa iðnmenntun, framhaldsskólapróf eða háskólapróf reyndust því sem næst jafn ánægðir.
30%
Þegar afstaða fólks gagnvart störfum ríkisstjórnarinnar er borin saman við tekjur kemur í ljós að langsamlega mesta ánægju er að finna í hópi þeirra þar sem heimilistekjur eru hærri en 1,2 milljónir á mánuði. Alls lýstu 29,9 prósent þeirra ánægju með störf stjórnarinnar. Minnst ánægja er með ríkisstjórnina hjá þeim sem lægstar tekjur hafa, aðeins 13,9 prósent þeirra sem hafa undir 400 þúsund krónur í mánaðartekjur eru ánægðir.
Mynstrið snýst við þegar horft er til þeirra sem eru óánægðir með störf stjórnarinnar. Af þeim sem lægstar hafa tekjurnar segjast 59,6 prósent þeirra óánægð á meðan að óánægjan mælist minnst hjá tekjuhæsta hópnum, 40 prósent.
Stjórnarandstaðan nær ekki flugi
15%
Í könnun Maskínu er einnig spurt um ánægju með störf stjórnarandstöðunnar. Nánast engin breyting er á afstöðu fólks milli ársfjórðunga en 15 prósent segjast ánægð með störf stjórnarandstöðunnar nú á móti 37 prósentum sem segjast óánægð. Karlar eru óánægðari en konur, alls 44,8 prósent, á móti 27,6 prósentum kvenna. Minnst er óánægjan í yngsta aldurshópnum en mest í þeim elsta, þar sem 44,6 prósent segjast óánægð með störf stjórnarandstöðunnar.
Þegar spurt er um störf stjórnarandstöðunnar í samhengi við búsetu kemur í ljós að ánægjan er mest á höfuðborgarsvæðinu, milli 15 og 18 prósent en svipuð á landsbyggðinni, um 12 prósent. Munur á óanægju milli landshluta rokkar milli 34 og 40 prósenta.
10%
Mest reynist ánægja með störf stjórnarandstöðunnar hjá stuðningsfólki Pírata og Samfylkingar, um 26,5 prósent. Minnst ánægja með störf stjórnarandstöðunnar mælist þó ekki meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarflokkanna eins og ætla mætti heldur meðal stuðningsmanna Miðflokksins. Aðeins 9,7 prósent þeirra telja stjórnarandstöðuna vera að gera vel.
Mesta óánægju með störf stjórnarandstöðunnar má greina hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins en 51,4 prósent þeirra eru óánægð. Litlu færri stuðningsmenn Miðflokksins eru óánægðir með stjórnarandstöðuna, 50,2 prósent. Stuðningsfólk Vinstri grænna er hins vegar alls ekki jafn óánægt með frammistöðu stjórnarandstöðunnar, 32,9 prósent þeirra eru óánægð en nefna má að 17,8 prósent stuðningsfólks flokksins er ánægt með störf stjórnarandstöðunnar.
Athugasemdir