Í gær gáfu Sameinuðu þjóðirnar út sjöttu og síðustu loftslagsskýrslu milliríkjanefndarinnar Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC). Tilgangur skýrslunnar er að gera grein fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Henni er einnig ætlað að kynna mögulegar lausnir og fyrirbyggjandi aðgerðir. Meginniðurstöður skýrslunnar eru þær að viðbrögð við loftslagsbreytingum eru ekki nógu góð. Haldi hitastig jarðar áfram að hækka er von á miklum hamförum um allan heim.
Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, kynnti skýrsluna og sagði niðurstöður hennar sýna svart á hvítu að loftslagsbreytingar séu mannkyninu að kenna. Guterres líkti loftslagsvandanum við tímasprengju og sagði skýrsluna vera leiðbeiningabækling um hvernig hægt væri að aftengja sprengjuna. Hann sagði lykilatriði að jarðefnaeldsneyti verði skipt út fyrir umhverfisvænni orkugjafa enda séu loftslagsbreytingar að stórum hluta komnar til vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar hefur hitastig jarðar þegar hlýnað um 1.1 gráðu síðan fyrir iðnbyltingu.
Íslandi liggur á
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson segir í samtali við Heimildina að Ísland sé á réttri leið en Íslandi liggur á. Hann segir Íslendinga vera með metnaðarfull markmið og að til þess að ná þeim þurfi samstillt átak.
Þó Íslendingum liggi á að ná markmiðum sínum brýnir Guðlaugur Þór mikilvægi þess að æða ekki áfram í aðgerðum. „Við megum ekki ganga þannig fram að við völdum skaða sem við hefðum geta komist hjá.“ Hann segir að líta þurfi til líffræðilegrar fjölbreytni og náttúrulegra þátta í því samhengi.
Guðlaugur nefnir sem dæmi að huga þurfi að fuglalífi þegar kemur að skógrækt og öðrum líffræðilegum þáttum. Aðspurður segir hann Ísland þurfa að forgangsraða loftslagsmálum þó að vissulega þurfi að sinna öðrum stórum málaflokkum líka.
Guðlaugur Þór hvetur unga áhyggjufulla Íslendinga til þess að nálgast loftslagsbreytingar með bjartsýni og stórhug. Hann segist finna fyrir velvilja og góðri samstöðu hér á landi. Einnig segir hann Íslendinga hafa sýnt áður að hægt sé að takast á við breytingar með góðum hætti eins og þegar að við raf- og hitaveituvæddum landið.
Gat í þekkingu Íslands
Í skýrslu IPCC er fjallað um þær afleiðingar sem þegar eru komnar í ljós vegna loftslagsbreytinga. Þar á meðal eru rýrnun jökla, dauði dýrategunda og öfgar í veðurfari. Þessar afleiðingar eru einkar alvarlegar vegna þess að sífellt styttist í þann tímapunkt að þær verði óafturkræfar.
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir í samtali við Heimildina að hér á landi hafi áhrif loftslagsbreytinga birst í aukinni úrkomuákefð vegna þess að hlýrra loft ber með sér meiri raka. „Og auðvitað meiri hopun jökla og aukin úrkoma hafa áhrif á skriðuhættu, hún eykst. Við erum líka að horfa á landris vegna jöklahopsins og síðan hækkun sjávarmáls annars staðar á landinu. Það er aðeins mismikið sem hlýnar á landinu.“
Elín segir veðurfræðinga skorta fé og meiri mannskap til þess að sinna fleiri og ítarlegri rannsóknum. „Gatið í okkar þekkingu er í því að við höfum ekki skoðað þetta mjög nákvæmlega fyrir Ísland, hversu djúpar verða lægðirnar eða hversu mikil úrkoman verður.“
Áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi eru svipuð því sem við er að búast á Norðurlöndum en þó hefur Ísland ákveðna sérstöðu vegna þess að við erum umlukin sjó. „Það sem er einstakt við Ísland er að við erum umlukin hafi. Það hefur svolítið öðruvísi áhrif á okkur, líka af því að við erum með þessa jökla. Þá verður landris þegar þeir hopa. Það er breytilegra hversu mikil áhrif sjávarstöðuhækkun hefur á Ísland.“
Ekkert veður án áhrifa loftslagsbreytinga
Elín segist finna fyrir hröðum breytingum síðastliðin fimm ár í starfi sínu sem veðurfræðingur. „Það er ekkert sem heitir veður án áhrifa frá loftslagsbreytingum. Grunnhlýnunin er orðin það mikil að allt veður sem verður í lofthjúpnum er undir áhrifum af loftslagsbreytingum.“
Að mati Elínar er Ísland þó á góðum stað þegar kemur að aðlögun vegna loftslagsbreytinga. Árið 2021 fjármagnaði Umhverfisráðuneytið skrifstofu aðlögunar- og loftslagsbreytinga á Veðurstofunni. Hún segir að verið sé að gera gögn aðgengileg svo hægt sé að greina frá mikilvægi þeirra við stefnumótandi aðila. „Það getur alltaf batnað með frekari gögnum.“
Náttúruhamfarir og smitsjúkdómar í vændum
Rúmir þrír milljarðar manna búa á svæðum sem Sameinuðu þjóðirnar meta sem áhættusvæði vegna loftslagsbreytinga. Á þeim svæðum má búast við öfgakenndara veðurfari og náttúruhamförum.
Hitabylgjur verða algengari eftir því sem hitastig jarðar eykst. Á þeim stöðum þar sem aðgangur að vatni verður takmarkaður mun það reynast fólki og dýrum afar erfitt. Þessar breytingar kalla einnig á byltingu í landbúnaði, bæði í því hvaða plöntur eru ræktaðar en einnig í því hvernig starfsemi er háttað. Haldi hitastig áfram að verða hærra mun það gera fólki í landbúnaði erfitt fyrir að stunda sjálfbæra starfsemi samkvæmt skýrslunni. Óhjákvæmilegt sé að skógareldar færist í aukanna með hækkandi hitastigi. Í ljósi þess að tré eru notuð til kolefnisbindingar sé það afar slæmt.
Sérfræðingar IPCC greina frá aukinni hættu á smitsjúkdómum vegna loftslagsbreytinga en breytt andrúmsloft getur gert bakteríum auðveldara fyrir að ferðast á milli manna.
Í skýrslunni er einnig fjallað um afleiðingar loftslagsbreytinga á andlega heilsu fólks. Búast má við að áfallastreita færist í aukanna vegna áfalla tengdum loftslagsbreytingum. Andlegir þættir geta einnig vafist fyrir einstaklingum sem upplifa rof við menningu sína sökum breytinganna. Nú þegar hefur stór hópur fólks greint frá loftslagskvíða eða áhyggjum af þeim yfirvofandi hættum sem stafa af loftslagsbreytingum.
Aðlögun og viðbrögð
Í skýrslunni segir að mikið fjármagn skorti til aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Það birtist meðal annars í því að þær þjóðir sem standa höllum fæti fá ekki nógu mikla aðstoð við að takast á við breytingarnar. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvetur G20 löndin til þess að auka aðstoð í formi fjárhagslegrar styrkingar. Setja þarf þrisvar til sex sinnum meira fjármagn í aðgerðir samkvæmt skýrslunni en nú er gert til þess að fjármagna þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað. Loftslagsbreytingar draga úr fæðuöryggi. Það gerir ríkjum erfiðara fyrir að standast markmið.
Afleiðingar loftslagsbreytinga ýta undir þann ójöfnuð sem þegar er til staðar í heiminum. Það mun gerast vegna þess að afleiðingarnar eru mestar á fátækustu samfélögum heims sem þurfa að treysta á stuðning frá öðrum ríkjum. Aðlögun vegna loftslagsbreytinga er að sama skapi kostnaðarsöm. Sum samfélög á viðkvæmustu svæðum heims hafa þegar gripið til fyrirbyggjandi aðgerða.
Flestöll ríki heims settu sér markmið um að ná kolefnishlutleysi á næstu áratugum. Í niðurstöðum skýrslunnar benda sérfræðingar á að kolefnishlutleysi sé ekki nóg heldur draga þurfi úr kolefnislosun. Samkvæmt nýjasta ríkissáttmála stefna stjórnvöld að því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna Antonio Guterres sagði að óskandi væri að ríki myndu flýta kolefnishlutleysismarkmiðum sínum um nokkur ár. Það þýðir að Ísland þyrfti að verða kolefnishlutlaust á um það bil 10 árum.
Lagt er upp úr aðlögun með tilliti til lífríkisins (e. ecosystem based adaption) í skýrslu ICCP. Í því felst til dæmis verndun, sjálfbærni í landbúnaði og endurheimt votlendis og trjálendis. Einnig fela niðurstöður í sér mikilvægi þess að framleiddar séu fleiri plöntur sem höndla breytingar í loftslagi. Skýrslan undirstrikar að er enn margt sem á eftir að gera varðandi loftslagsbreytingar en það er hægt ef viljinn er fyrir hendi og ef ríki heimsins taka sig á ekki síður en núna.
Það er varasamt að einblína eingöngu á loftslagskrísuna, því það er fjöldi annarra krísa á gerast í sömu andrá og þær eru allflestar, ef ekki allar, innbyrðis tengdar. Eyðing vistkerfa og kjörlenda dýra- og plöntutegunda er t.d. ein þessara krísa. Á dögunum var að koma út ritrýnd grein frá hópi vísindamanna í Ísrael, þar sem fullyrt er að samanlagður massi villtra landspendýra jarðar sé nú minni en 10% af samanlögðum massa alls lifandi mannkyns. Fleira markvert kemur fram í þessari grein. Eitt er t.d. að heildar-lífmassi hunda sem menn halda sem húsdýr á jörðinni (20 milljónir tonna) er rétt tæplega svipaður og lífmassi villtra landspendýra (22 milljónir tonna). Er það eðlilegt hlutfall? Telur fólk miklar líkur á að mannkyninu takist að snúa þessari þróun við áður en allt verður um seinan?
Annað sem er mér hugleikið er að IEP ('The Institute for Economics and Peace') áætlar að fjöldi flóttafólks v/ loftslagshamfaranna verði á annan milljarð fyrir 2050. Eru einhverjar líkur á að þjóðum heims, hins hnattræna norðurs ('global north countries'), muni takast að bregðast við slíkum fjölda af virðingu og viðeigandi siðferðisstyrk í ljósi þess hvernig farið er með þann litla straum flóttafólks sem nú er á flótta?