Umræður netverja síðustu daga hafa dregið fram í dagsljósið gamlan fordómadraug sem ég hef í sakleysi mínu talið að væri farið að draga úr hér á landi. Hann virðist þrátt fyrir trú mína á breytingar lifa góðu lífi í hugum margra.
Þessi grein mun ekki fjalla um atvikið sem átti sér stað í listaheiminum og kveikti umræðuelda þá sem drógu fram drauginn, heldur vil ég frekar skrifa um þetta út frá sjónarhorni þess að vera Íslendingur af erlendum uppruna. Íslendingur af erlendum uppruna sem les athugasemd, eftir athugasemd, eftir athugasemd um að við séum einsleitur, vanþakklátur hópur sem megi hypja sig héðan af landi brott, fyrir það eitt að reyna að vekja athygli á sárum sem fordómar annarra valda okkur.
Fólkið sem lætur út úr sér fordómafullar skoðanir, hvort sem það er ómeðvitað eða meðvitað, lítur vafalaust á lífið hér á þessari eyju í einhverri tvívídd. Við og hinir. Íslendingar og útlendingar. Það áttar sig ekki á margföldum og flóknum raunveruleika okkar sem erum með einhvern erlendan bakgrunn hér á landi. Við erum allskonar fólk. Einhver eru einstaklingar sem eru nýfluttir til Íslands. En við erum líka fólk sem þekkir ekkert annað en að vera íslensk. Fólk sem upplifir sig bæði íslenskt og eitthvað annað. Fólk sem á rætur að rekja aftur í ættir til landnámsmanna annars vegar, og á hinn bóginn eitthvað út fyrir landsteinana. Sum eiga foreldra erlendis frá en þekkja ekkert annað en að búa á Íslandi - og skilgreina sig fyrst og fremst sem Íslendinga. Sum eiga sterk tengsl við hitt þjóðerni sitt en eru samt stolt af því að búa hér. Við erum líka Íslendingar sem eiga íslenska foreldra og fjölskyldu en erum sjálf með útlit sem öðrum Íslendingum finnst ekki tilheyra hér. Við erum allt þetta og eitthvað af þessu. Þvers og kruss, ýmislegt í bland.
„Við erum einungis að biðja um að komið sé fram við okkur eins og allt annað fólk hér á landi, eins og við séum mennsk.“
Við erum partur af samfélaginu, vinnum, lærum, elskum, lifum og njótum. Við erum sérfræðingar, sjónvarpsfólk, hjúkrunarfræðingar, verslunarfólk, starfsmenn á plani, listafólk, tónlistarfólk, stjórnendur, foreldrar, börn, nemendur og ellilífeyrisþegar. Og allt þar á milli. Það er eiginlega fráleitt að ég sé að telja þetta upp, sýna hvernig við erum líka mennsk. En það er það sem fordómarnir gera okkur. Þeir afmennska okkur. Fólkið sem talar um útlendingana sem eru að skipa Íslendingunum fyrir, mála okkur upp eins og við séum einsleitur hópur sem hefur það eitt að markmiði að eyðileggja íslenskt samfélag, þegar við erum í raun partur af því. Rótgróinn partur.
Og eyðileggja það hvernig? Jú greinilega með því að reyna að vekja athygli á því að ýmislegt í hegðun annarra, í blindni annarra, framsetningu annarra, orðanotkun annarra, ýtir undir fordómana sem við líðum fyrir í daglegu lífi. Ýtir undir haturskommentin, ofbeldið, öráreitið og útilokunina sem í alvörunni, raunverulega, bitnar á fólki sem ekki er með íslensk nöfn, íslenskt útlit (lesist: hvít) eða fullkomlega íslenskan bakgrunn. Þetta eru engar ýkjur, heldur blákaldur raunveruleikinn.
Við erum einungis að biðja um að komið sé fram við okkur eins og allt annað fólk hér á landi, eins og við séum mennsk. Við erum ekki að segja að íslenska þjóðin sé vond, eða að allt fólk sem verði uppvíst um fordóma sé slæmt - heldur að fólk sé að endurtaka, gera eða segja eitthvað sem það áttar sig ekki á að er bókstaflega skaðlegt gagnvart okkur. Það sem er hins vegar vont og illkvittið er að afsaka fordómana, verja þá og ýta undir þá, þegar bent er á þá. Einstaka hugmyndir í hausnum á fólki geta svo líka orðið að stefnum í stjórnmálum framtíðarinnar og þá erum við komin á hálan ís. Nú er lag að staldra við og hlusta á fólkið sem verður fyrir fordómum í sínu daglega lífi. Sem burðast með fordómafull atvik, sem það hefur lent í, eins og grjót í bakpoka ofan á allt annað sem lífið getur kastað í veg fyrir mann.
Það er ekki þeirra sem verða ekki fyrir fordómum að segja þeim sem verða fyrir þeim hvernig fordómarnir líta út og hvað var meint með þeim. Alveg eins og það er ekki karla að segja konum hvað var eða var ekki kynferðisleg áreitni í garð kvenna, það er ekki yfirstéttinni að segja þeim lægst launuðu hvort það sé sanngjarnt að eiga ekki í sig og á - og það er ekki þeirra sem verða ekki fyrir kynþáttafordómum að segja þeim sem verða fyrir þeim hvernig þau eiga að bregðast við.
Og, það sem meira er, íslenska þjóðin þarf að hætta að horfa á okkur sem hóp sem er tímabundið hér og er bara að skipta sér af til að eyðileggja landið. Því það er ekki satt. Við erum líka íslenskt samfélag, við erum rótgróin og við eigum heima hér. Gagnrýnin okkar er sett fram í von um að skapa okkur öllum betri líðan, í samfélagi þar sem við getum öll blómstrað og auðgað það. Ekki samfélagi þar sem fólk með dekkra litarhaft, ákveðið útlit eða uppruna er útilokað, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað, vegna þess að íslenskt samfélag gefur kynþáttafordómum alltaf frípassa frekar en að taka ábyrgð.
Höfundur skrifar greinina í tilefni af Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti sem hefst í dag og stendur yfir til 29. mars, á vegum Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur.
Athugasemdir