Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Sagði skilið við kjánalegar gamanhrollvekjur fyrir sveppasýkta uppvakninga

Fyr­ir nokkr­um ár­um voru helstu af­rek Craig Maz­in að skrifa hand­rit að Scary Movie 4 og Hango­ver Part III. Hann ákvað að veita sér frelsi til að losna úr viðj­um gaman­hand­rita­höf­und­ar­ins og það virk­aði eins og sjón­varps­serí­urn­ar Cherno­byl og The Last of Us sýna.

Sagði skilið við kjánalegar gamanhrollvekjur fyrir sveppasýkta uppvakninga
Umbreyting Handritshöfundurinn Craig Mazin fór úr því að skrifa handrit að Scary Movie og Hangover í að skrifa handrit að Chernobyl og The Last of Us. Forstjóri HBO hefur aldrei heyrt jafn góða söluræðu eins og þá sem Mazin flutti fyrir Chernobyl. Mynd: AFP

Sjónvarpsþættir um uppvakninga sem byggja á tölvuleik hljóma kannski ekki eins og eftirsóknarverð afþreying, nema kannski fyrir þau sem elska akkúrat uppvakninga og tölvuleiki. En sjónvarpsþættirnir The Last of Us í framleiðslu HBO hafa notið fádæma vinsælda, hvort sem áhorfendur elska annað hvort uppvakninga eða tölvuleiki, hvoru tveggja eða hvorugt.

Við gerð þáttanna sameina Neil Druckmann, frá tölvuleikjafyrirtækinu Naughty Dog sem skapaði tölvuleikinn sem þáttaröðin er byggð á, og handritshöfundurinn Craig Mazin krafta sína. Áhugavert er að fara yfir feril Mazin. Hann státar af ýmsu vinsælu efni sem flokkast frekar sem kjánalegt en virðingarvert. Ber það hæst að nefna Scary Movie 3 og 4, Superhero Movie, The Hangover Part II og III og Identity Thief. 

Fyrir um áratug var Mazin búinn að koma sér vel fyrir sem handritshöfundur gamanmynda og gamanhrollvekja í Hollywood. En, það vantaði eitthvað. Hann var tilbúinn fyrir breytingar. Honum var farið að líða eins og aðeins væri leitað til hans þegar þurfti að betrumbæta gamanhandrit. Mazin tók hins vegar ákvörðun. „Ég er betri en vinnan sem mér er boðin,“ segir Mazin í samtali við blaðamann The New York Times.  

Þetta var fyrsta skref Mazin í að umbreyta ferli sínum. Mazin, sem er 51 árs, hefur nú komið að gerð tveggja farsælla sjónvarpsþáttaraða hjá HBO: Chernobyl og The Last of Us. 

Sagt að enginn myndi horfa á Chernobyl

Mazin viðurkenndi fyrir sjálfum sér að hann ætti að fara að fást við meira krefjandi verkefni þegar hann áttaði sig á að vinir hans, sem einnig eru handritshöfundar, leituðu í auknum mæli til hans fyrir ráðleggingar. Vinir sem skrifuðu fyrir þáttaraðir líkt og Game of Thrones. „Það var gríðarstór munur á hvernig þau sáu mig og hvernig iðnaðurinn horfði á mig,“ segir Mazin. 

Hann ákvað að nú væri kominn tími til að taka smá séns og vinna að eigin verkefni. Eftir að fréttaskýring um hreinsunarstarf eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl rak á fjörur hans kviknaði hugmynd. Mazin vissi ýmislegt um bandaríska harmleiki en hann vissi ekkert um harmleikinn og eftirmála kjarnorkuslyssins í Chernobyl 1986. Hann fór að kynna sér málið og varð furðulostinn yfir því sem hann komst að. Hann drakk í sig allar upplýsingar sem hann komst yfir. „Craig er þannig að þegar hann fær áhuga á einhverju þá verður hann heltekinn af því,“ segir Casey Bloys, forstjóri HBO og HBO Max. 

„Þetta er besta söluræða sem ég hef heyrt.“
Kary Antholis, framkvæmdastjóri framhaldsþáttaraða hjá HBO
um ræðu Mazin um Chernobyl.

Mazin gerði sér grein fyrir því að það yrði erfitt verkefni að selja hugmyndina um sjónvarpsþætti um 30 ára gamalt kjarnorkuslys í Sovétríkjunum. Hann þurfti aðstoð og fékk hana hjá vinkonu sinni Carolyn Strauss, framleiðanda sem starfaði áður hjá HBO. Hún hafði trú á verkefninu og kynnti hugmyndina, ásamt Mazin, fyrir Kary Antholis, framkvæmdastjóra framhaldsþáttaraða (e. mini-series). Hann hafði sínar efasemdir. En svo hóf Mazin söluræðu sína. 

„Þetta er besta söluræða sem ég hef heyrt í þau 25 ár sem ég hef hlustað á söluræður – það er engin ræða sem kemst í hálfkvisti við þessa,“ segir Antholis. Chernobyl varð að veruleika en væntingum var stillt í hóf, þættirnir fengu óeftirsóttasta plássið, mánudagskvöld, og Mazin var ítrekað sagt að engin myndi horfa. 

Raunin varð allt önnur. Chernobyl tók fram úr Game of Thrones í áhorfi, vann tíu Emmy-verðlaun, meðal annars fyrir tónlist Hildar Guðnadóttur, og tvö Golden Globe verðlaun.    

Fékk frelsi til að gera hvað sem er

Velgengni Chernobyl veitti Mazin frelsi til að gera hvað sem hann vildi hjá HBO. „Hvað fær þig til að fara á flug?“ spurði forstjóri HBO. Fyrir Mazin var svarið einfalt: Tölvuleikir.

Mazin kynntist töfrum tölvuleikjaheimsins á áttunda áratugnum þegar faðir hans kom heim með Atari 2600 leikjatölvu. Þegar „The Last of Us“ kom út árið 2013 keypti Mazin sér PlayStation svo hann gæti spilað leikinn. Leik þar sem heimurinn er að farast vegna sveppasýkingar sem tekur að breiðast út um heimsbyggðina með leifturhraða og er á góðri leið með að breyta mannkyninu í uppvakninga. Mazin var dolfallinn en samband aðalsöguhetjanna tveggja heillaði hann mest; Joel, grjótharður miðaldra karl, og Ellie, 14 ára stelpa sem er ónæm fyrir sveppnum sem breytir öllum öðrum í snarklikkaða uppvakninga. Mazin setti sig í samband við Neil Druckmann, höfund tölvuleiksins, og þeir náðu strax vel saman og kynntu hugmyndina um sjónvarpsþáttaröð byggða á tölvuleiknum fyrir HBO í júlí 2019.  

Heimsendir?Ellie og Joel eru aðalsöguhetjurnar, bæði í tölvuleiknum og þáttunum. Samband þeirra heillaði Druckman, og áhorfendur alla.

Casey Bloys, forstjóri HBO, spilar ekki tölvuleiki og Hollywood hefur ekki gengið vel að aðlaga tölvuleiki að sjónvarpsþáttaröðum. En það er hefð hjá HBO að ef handritshöfundum tekst að gera farsæla sjónvarpsþáttaröð fá þeir að gera það sem þeim hugnast næst. Mazin fékk því grænt ljós en áhættan var kostnaðarsöm. Gerð The Last of Us kostaði yfir 150 milljónir dala, Chernobyl kostaði „aðeins“ 40 milljónir dala. Mazin fékk líka besta sýningartímann, sunnudagskvöld, og brúaði þannig bilið á milli „The White Lotus“ sem lauk í desember og „Succession“, en síðasta þáttaröðin hefst í lok mars.  

Sýningu á „The Last of Us“ lauk síðasta sunnudag. Níu þættir og þeir slógu allir í gegn en enginn jafn mikið og þriðji þátturinn þar sem segir frá baráttu Bill og Frank við sveppasýktu uppvakningana. Með því að segja sögu þeirra vildi Mazin gefa hjónabandi samkynhneigðra ákveðna athygli. „Þetta er ást sem við gefum ekki mikla athygli: Ást tveggja fullorðinna manna sem eru ekki að yngjast,“ segir Mazin. Nick Offerman, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í Parks and Recreation, fer með hlutverk Bill og hefur hlotið mikið lof fyrir.  

Það kemur meira

Aðdáendur „The Last of Us“ þurfa ekki að örvænta nú þegar þáttaröðinni er lokið. Mazin og Druckman hafa hafist handa við að skrifa þáttaröð númer tvö. Mazin er hrærður yfir viðtökunum sem þættirnir hafa fengið. Í færslu á Instagram segir hann að áhorfendur eigi von á einhverju „frábæru, sorglegu, hræðilegu, tilkomumiklu, óþægilegu, ógnvekjandi og fallegu“, í næstu þáttaröð. 

Mazin hefur þó ekki alveg sagt skilið við léttleikann í Hollywood en hann er einn af handritshöfundum Pirates of the Caribbean 6. Ekki er ljóst hvenær sú mynd á að koma út þar sem mörgum spurningum er enn ósvarað, til að mynda hvort að Johnny Depp verði í hlutverki Jack Sparrow.  

En Mazin kann betur við verkefni eins og „The Last of Us“ og ætlar að einbeita sér að þeim. Mazin segir að það hafi verið viss áhætta fólgin í að reyna að segja alveg skilið við kjánalegu gamanhandritin. „Kvikmyndabransinn skilur ekki hver þú ert — hann skilur aðeins það sem þú skrifar hverju sinni.“ Erfitt er fyrir handritshöfunda að komast upp úr holunni sem handritshöfundar gamanmynda virðast falla í, viðhorfið sem þeir fá er að þeir geti ekki gert neitt annað.  

„Þetta var áhætta en á sama tíma hressandi að segja bara: „Ég ætla að veita mér það frelsi að gera eitthvað annað“,“ segir Mazin.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Bannaður á leigubílastæðinu fyrir að leggja starfsfólk Isavia í einelti
2
Fréttir

Bann­að­ur á leigu­bíla­stæð­inu fyr­ir að leggja starfs­fólk Isa­via í einelti

Isa­via seg­ir leigu­bíl­stjóra, sér­stak­lega virk­an á sam­fé­lags­miðl­um, hafa lagt starfs­fólk flug­vall­ar­ins í einelti – með­al ann­ars með ásök­un­um í garð þess og nafn­birt­ing­um á net­inu. Hann hafi ver­ið sett­ur í ótíma­bund­ið bann vegna ógn­andi og óvið­eig­andi fram­komu. „Þetta er nátt­úr­lega óþægi­legt að mæta í vinn­una og verða svo fyr­ir áreiti,“ seg­ir einn starfs­mað­ur við Heim­ild­ina.

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
4
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.
Bannaður á leigubílastæðinu fyrir að leggja starfsfólk Isavia í einelti
6
Fréttir

Bann­að­ur á leigu­bíla­stæð­inu fyr­ir að leggja starfs­fólk Isa­via í einelti

Isa­via seg­ir leigu­bíl­stjóra, sér­stak­lega virk­an á sam­fé­lags­miðl­um, hafa lagt starfs­fólk flug­vall­ar­ins í einelti – með­al ann­ars með ásök­un­um í garð þess og nafn­birt­ing­um á net­inu. Hann hafi ver­ið sett­ur í ótíma­bund­ið bann vegna ógn­andi og óvið­eig­andi fram­komu. „Þetta er nátt­úr­lega óþægi­legt að mæta í vinn­una og verða svo fyr­ir áreiti,“ seg­ir einn starfs­mað­ur við Heim­ild­ina.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu