„Ef það hallar á einhvern kynþátt í þessari uppfærslu þá er það Ameríkanar, sem eru þarna grunnhyggnir og sjálfumglaðir og gera það sem þeim sýnist,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar, um gagnrýni á uppfærslu óperunnar á Madama Butterfly. „Sympatían er öll með aðalpersónunni sem er þessi japanska unga stúlka,“ bætir hún við og útskýrir svo að menningu Japan sé haldið í heiðri í sýningunni. „Eins mikið og Puccini,“ höfundur verksins, „er fær um af því að hann hafði nú aldrei komið til Japan sjálfur, blessaður.“
Síðustu daga hafa einstaklingar af asískum uppruna, búsettir á Íslandi, gagrýnt uppfærsluna, sagt hana ýta undir „skaðlegar og hættulegar staðalímyndir“, eins og Daniel Roh, kóresk-bandarískur maður búsettur á Íslandi, orðar það í aðsendri grein á Vísi. Hann segir leikara í uppfærslunni klæðast „yellow face“ með augabrúnir sem vísa upp á við, mjó yfirvaraskegg og svartar hárkollur. Laura Liu, fiðluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem er af kínversk-bandarískum uppruna, sakar aðstandendur uppfærslunnar einnig um að notast við „yellow face“ með því að klæða sig í annan kynþátt í formi búninga. „Það kallast að afmanneskjuvæða fólk. Gerið betur,“ skrifar Laura í færslu á Facebook-síðu sinni.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/Qb7h9MR5OEa__730x1092_O4g7WPyQ.jpg)
Steinunn, sem er í forsvari fyrir sýninguna sem óperustjóri, segir að gagnrýnin hafi verið „fyrirséð“ og sé af hinu góða. Sjálf hafi hún lagt skýrar línur frá upphafi um að ekki yrði notast við yellow face í uppfærslunni. „Það er ekki notað í sýningunni. Það er engum andlitum breytt úr íslenskum í japönsk með farða.“ Hún segir „útlit Japana“ hafa verið túlkað með búningum og hárkollum.
En með yellow face er verið að vísa í annað og meira en farða og hárkollur. Það er verið að vísa til þess að þarna sé verið að klæða fólk í annan kynþátt með búningum.
„Akkúrat, en það er samt þrönga skilgreining leikhússins á yellow face. Fyrir 30 árum, þegar sýningin var fyrst sett upp, voru skásett augu og hvítur farði. Við fórum ekki þá leið.“
Síðan vísar hún gagnrýni þeirra Lauru og Daniel á bug. „Það var ein fyrsta línan sem ég lagði upp með, að það yrði ekki yellow face í sýningunni, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem við notum.“
Er það ykkar skilgreining sem skiptir mestu máli ef fólk af asískum uppruna er að benda á þetta?
„Já.“
Heldur þú að það geti ekki skilgreint það betur en hvítt leikhúsfólk á Íslandi?
„Þetta er svo ofboðslega huglægt. Ef við erum að segja sögu sem er að gerast í Japan fyrir hundrað árum þá verður það að vera trúverðugt að fólkið sé í Japan.“
Hennar afstaða og annarra sem komu að sýningunni hafi verið sú að „flytja verkið eins og höfundur samdi það“. Þótt mikið sé um það í leikhúsum um þessar mundir að aðlaga verk nútíma gildismati sé hennar afstaða þessi: „Mér finnst rosalega mikilvægt að við lærum af fortíðinni en ritskoðum hana ekki eða dauðhreinsum.“
Eitthvað telur hún þá sem komu að uppfærslunni „vera að gera rétt“ vegna þess að óperan hafi aldrei „fengið betri dóma fyrir neina sýningu“. „Gagnrýnandi sem skrifaði lofsamlega um sýninguna er sjálfur af asískum ættum og sá ekkert athugavert við uppfærsluna,“ segir hún.
„Ég held að við getum ekki einu sinni reynt að geðjast öllum“
Aðspurð að því hvort það standi til að bregðast við gagnrýninni, segir hún: „Þetta er okkar heildsteypta uppfærsla af þessari óperu. Mér þykir leitt ef framsetningin eða eitthvað í þessari uppfærslu kemur illa við einhvern, en kannski er það bara óhjákvæmilegt í leikhúsinu.“
Er það óhjákvæmilegt?
„Já, nekt truflar til dæmis suma en aðra ekki. Þetta er eðli þessa listforms og leikhússins almennt að fólk upplifir það rosalega ólíkt. Ég held að við getum ekki einu sinni reynt að geðjast öllum. Við getum bara haft virðingu að leiðarljósi.“
Því miður fannst mér öll tilsvör óperustjórans bera vott um ótrúlegan hroka. Hvað veit hún um það hvað er listrænt og hvað ekki? Hún veit það ekki frekar en nokkur annar.
Til þessa hefur enginn heimspekingur getað skilgreint hvað list er svo það sé almennt viðurkennt nema í litlum hópum fólks og það þjóni hagsmunum fólks í slíkum hópi.
Það er nefnilega algjörlega einstaklingsbundið hvað hverjum og einum finnst. Síðan er allt mat á fegurð og gæðum þessa leikhúsverk metið eftir mælikvarða handverksins. Það sama á við um tónmenntir í verkinu sem mér finnst á köflum falleg.
En hitt er síðan rétt hjá stjóranum, að þetta leikverk sýnir auðvitað vel hvernig herveldin koma fram við flestar þjóðir sem eru minnimáttar hvað hervald snertir. Það hefði auðvitað mátt leggja áherslu á það atriði