Í febrúar 2021 sögðust einungis sex prósent landsmanna vera að safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. Rúmu ári síðar, í apríl 2022, var það hlutfall komið í tíu prósent. Í síðasta mánuði mældist það 18 prósent. Hlutfall þeirra sem ná ekki endum saman hefur þrefaldast á tveimur árum. Til viðbótar segjast 25 prósent ná endum saman með naumindum. Því eru 43 prósent landsmanna í þeirri stöðu að þéna ekki nóg til að greiða reikninga um mánaðamót eða rétt ná því.
Þeir sem geta safnað sparifé um hver mánaðamót, þéna meira en þeir þurfa að eyða til að lifa af, eru líklegastir til að kjósa stjórnarflokkana þrjá: Sjálfstæðisflokk (67 prósent geta lagt fyrir), Framsóknarflokk (64 prósent geta lagt fyrir) eða Vinstri græn (63 prósent geta lagt fyrir).
Fyrirliggjandi er að það mun áfram fjölga í þeim hópi landsmanna sem nær ekki að afla sér nægilegra fjármuna til að borga reikningana um mánaðamót. Verðbólga er komin yfir tíu prósent í fyrsta sinn síðan árið 2009, sem þýðir að allar nauðsynjavörur kosta fleiri krónur en áður. Sú launahækkun sem þorri almenna markaðarins samdi um til skamms tíma í lok síðasta árs mun að óbreyttu ekki halda í við verðbólguna.
Ofan á það hefur greiðslubyrði lána hækkað gríðarlega, og langt umfram launahækkanir. Afborgun af 50 milljóna króna óverðtryggðu íbúðaláni á breytilegum vöxtum hefur hækkað um 155.375 krónur á mánuði, upp í 344 þúsund krónur, frá því í apríl 2021. Viðbúið er að þessi staða muni enn versna. Flestir greiningaraðilar spá því að stýrivextir fari í 7,5 prósent síðar í þessum mánuði.
Um fjórðungur allra íbúðalána eru óverðtryggð og slík lán upp á næstum 600 milljarða króna, sem hafa verið á föstum vöxtum, losna á næstu þremur árum. Þá skellur þessi hækkun á heimilunum af fullum þunga. Samhliða mun staða þeirra versna hratt. Fleiri munu lenda í vandræðum með að ná endum saman.
Þau sem eru fátæk
Í ofangreindri könnun spurði Gallup fólk líka hvort einhver í allra nánustu fjölskyldu viðkomandi byggi við fátækt. Heilt yfir svöruðu 32 prósent aðspurðra því játandi. Kjósendur Vinstri grænna voru ólíklegastir til að eiga fjölskyldumeðlim sem bjó við fátækt. Einungis 17 prósent þeirra könnuðust við það. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins komu þar á eftir, en 21 prósent þeirra sögðu einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt.
Það þarf ekki djúpa þekkingu á samfélagsmálum til að átta sig á hvaða hópar eru líklegastir til að ná ekki endum saman og/eða búa í fátækt: láglaunafólk, þeir sem eru á leigumarkaði, einstæðingar og ungar fjölskyldur.
Sterkt velferðarsamfélag myndi grípa þessa hópa, til dæmis með burðugum millifærslukerfum og því að sjá þeim fyrir sómasamlegu leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ísland er því miður ekki lengur þannig samfélag. Hér hafa millifærslukerfi barna- og húsnæðisbóta verið kerfisbundið veikt árum saman til að auka svigrúm hins opinbera til að skila fjármunum í vasa þeirra betur settu og með því að leggja niður heilt félagslegt íbúðakerfi fyrir rúmum tveimur áratugum síðan.
Þess í stað eru sagðar fréttir af fjölskyldum sem þurfa að búa í hjólhýsum við tjaldstæði eða brunagildrum í iðnaðarhúsnæði þar sem 280 þúsund krónur eru greiddar fyrir stök herbergi. Ástand sem minnir á þær aðstæður sem fátækt fólk á fyrstu árum lýðveldisins var látið búa við. Til dæmis þær aðstæður sem Rósa Ólöf Ólafíudóttir greinir frá í Heimildinni í dag, þar sem yfirvöld létu fjölskyldu hennar hrekjast milli bragga og kaldra kofa, jaðarsetta og réttlitla. Af því að þau voru fátæk.
Í dag eru mæður ekki lengur sviptar börnum sínum vegna fátæktar, en börnin eru svipt öryggi, lífsgæðum og tækifærum.
Þau sem eru ekki með okkur í þessu
Ráðamenn og forsvarsmenn atvinnulífsins klifa mikið á því að allir þurfi að gera sitt til að vinna bug á verðbólgunni. Þau hafa sérstaklega beint sjónum sínum að þeim sem berjast fyrir bættum kjörum og húsnæðisúrbótum fyrir hinna verst settu. Sá hópur þurfi að sýna hófsemi í kröfum. Annars fari allt til fjandans. Það gerðu verkalýðsfélögin á almenna markaðnum.
Samkvæmt nýlegri samantekt BHM jókst samanlagður rekstrarhagnaður fyrirtækja á Íslandi um 60 prósent á árunum 2018 til 2022 á sama tíma og verðlag hækkaði um 20 prósent. Þar kom einnig fram að rekstrarhagnaður íslenskra fyrirtækja hafi verið sá mesti á öldinni á árunum 2021 og 2022.
Samhliða hafa fjármagnstekjur eigenda fyrirtækja hækkað gríðarlega. Árið 2021 nam hagnaður þeirra 244 fjölskyldna sem þénuðu mest í fjármagnstekjur 36 milljörðum króna. Hópurinn þénaði 4,2 prósent af öllum tekjum sem urðu til í landinu, en það hlutfall hefur ekki verið hærra síðan 2007.
BHM telur vísbendingar um að aukinn hagnaður sé að hluta til vegna þess að fyrirtækin,sem mörg hver starfa á fákeppnismörkuðum og eru varin frá erlendri samkeppni, hafi hækkað álagningu á verðbólgutímum. Þau eru þá ekki að leggjast á árarnar til að vinna bug á óværunni, heldur að nýta tækifærið til að græða meira.
Heimildin greindi nýverið frá einu slíku dæmi, ræstingafyrirtækinu Dögum, sem hækkaði launalið í þjónustusamningum sínum sem nam allri taxtahækkun í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins. Auk þess sendi fyrirtækið viðskiptavinum sínum bakreikninga fyrir afturvirkri hækkun launa starfsfólks. Um er að ræða fyrirtæki sem greiddi sér út yfir tvo milljarða króna í arð á síðastliðnum sjö árum. Stærstu eigendur þess eru Benedikt og Einar Sveinssynir, faðir og föðurbróðir Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra.
Þau sem hagnast á ástandinu
Á sama tíma erum við að sjá launaskrið í efstu lögum þess sem er í engum takti við íslenska samfélagsgerð.
Laun forstjóra skráðra félaga á Íslandi í fyrra voru að meðaltali næstum sjö milljónir króna á mánuði. Þau hækkuðu um rúmlega milljón króna á mánuði að meðaltali milli áranna 2021 og 2022, eða þrenn lágmarkslaun. Á tveimur árum hafa heildarlaun þeirra hækkað um 33 prósent.
Þar tíðkast nú að greiða út kaupauka, gullnar starfslokafallhlífar, kauprétti og sérgreiðslur upp á hundruð milljóna króna á ári fyrir að skipta um vinnu.
Þetta fær að gerast þrátt fyrir að lífeyrissjóðir, í eigu almennings, séu langstærstu eigendur skráðra fyrirtækja á Íslandi. Einn lífeyrissjóður, Gildi, hefur mótmælt þessari þróun, án árangurs. Aðrir standa hljóðir og spila með. Innan sjóðanna virðist vera meiri vilji til að tilheyra Borgartúninu en almúganum. Ákvarðanir eru teknar á forsendum fjármálaafla, ekki heildarhagsmuna sjóðsfélaga.
Sömu sögu er að segja af íslensku viðskiptapressunni. Hún talar aðallega við og fyrir efsta lagið í fjármálaheiminum. Merki þess mátti sjá í ViðskiptaMogganum á miðvikudag þar sem skrifað var að íslensk fyrirtæki væru „að mörgu leyti eftirbátar erlendra félaga hvað starfskjarastefnu varðar. Í heimi, þar sem ríkir aukin samkeppni um fólk og hæfileika, sé þannig lítil ástæða fyrir íslensk fyrirtæki að gera verr við sína stjórnendur þegar þeir hafa menntun og hæfileika til að starfa annars staðar.“
Það eru ekki margir aðrir sem sjá ímyndaða röð fyrir utan Kauphöllina af erlendum stórfyrirtækjum sem keppast við að ráða launasvelta íslenska forstjóra með reynslu af því að selja matvöru, flutninga, eldsneyti, fjarskipti og tryggingar á fákeppnismarkaði. Með reynslu af því að færa til peninga annarra gegn svívirðilegri þóknun eða leigja út fasteignir. Hugvitsfyrirtækin á íslenska markaðnum eru enda teljandi á fingrum annarrar handar.
Þau sem eru að smjatta á köku
Sitjandi ríkisstjórn hefur kappkostað við að reyna að sannfæra fólk um að aðstæður hérlendis séu eftir sem áður frábærar. Hvatt almenning til að sjá veisluna. Hér drjúpi smjör af hverju strái þrátt fyrir að allt ofangreint blasi við öllum með augu og eyru. Fyrir vikið sé engin þörf á stórtækum aðgerðum vegna þess ástands sem er uppi. Ráðamenn landsins eru gjörsamlega týndir í aftengingu sinni við lífsbaráttu venjulegs fólks. Smjattandi á köku með Borgartúninu.
Ríkisstjórnin hefur valið að auka ekki álögur á breiðu bökin, til dæmis með því að hækka bankaskatt, leggja á hvalrekaskatt, stórhækka veiðigjöld eða láta fjármagnseigendur borga útsvar. Hún hefur ekki brugðist við aðstæðum með því að draga úr tollum og gjöldum á innflutta matvöru. Þess í stað hefur hún hækkað gjöld á venjulegt fólk, stóraukið opinber útgjöld og skilað fjárlögum sem gera ráð fyrir 120 milljarða króna halla í ár, sem eykur á verðbólguvandann. Til að breiða yfir eigin vangetu skiptast ráðherrarnir á að gefa út villandi yfirlýsingar á opinberum upplýsingasíðum.
Almenningur er hins vegar farinn að sjá ríkisstjórnina fyrir það sem hún er: sundurleitan hóp fólks sem getur ekki komið sér saman um annað en að sitja að völdum, eyða peningum, verja kerfi sem gagnast hinum best stæðu, veikja velferðarkerfin og útdeila gæðum til valinna hópa.
Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur enda aldrei mælst minni en nú og flokkur forsætisráðherrans er pikkfastur könnun eftir könnun í minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni mælst með. Vinstri græn standa raunverulega frammi fyrir þeirri hættu að þurrkast út af þingi.
Stjórnmálamenn sem eru uppiskroppa með hugmyndir um hvernig eigi að bregðast við þegar vá stafar að samfélaginu sem ræður þá til verka eiga ekkert erindi. Ekki frekar en þeir sem hafa enga sérstaka framtíðarsýn og eru aðallega í pólitík til að finna til sín. Þegar ráðandi öfl eru blanda af þessu báðu er erindið ekkert. Núverandi ríkisstjórn er þannig. Hún neitar að hlusta á fólkið sem hún á að vera að vinna fyrir.
En nú er fólkið að tala við hana. Það er að senda skýr skilaboð um hvað það þurfi. Geti ríkisstjórnin ekki brugðist við, hratt og með afgerandi hætti, þá á hún að fara.
Athugasemdir (11)