Í Heimildinni er grein undir fréttir sem ber nafnið „Verið að blekkja fólk“ þar sem segir að verið sé að blekkja fólk með því að selja kolefnisjöfnun með skógrækt.
Ég má til með að svara þessu fyrir hönd Kolviðar því hér má spyrja hver sé að blekkja hvern?
Kolviður býður upp á kolefnisbindingu með skógrækt en ekki kolefnisjöfnun. Ef aðili hefur reiknað út eða látið reikna út losun sína og kaupir á móti henni sama magn kolefnisbindingar t.d. með skógrækt hefur hann sett af stað ferli til væntrar kolefnisjöfnunar þeirrar losunar.
Þau fyrirtæki sem við þekkjum til eru ekki að kaupa „vottorð til þess að menga meira“. Hér er annarlegur hugsunarháttur á ferð sem ætlar rekstraraðilum óábyrga stjórnun starfsemi sinnar.
Okkar reynsla er að fyrirtækin gera hvað þau geta til að draga úr losun en lausnirnar eru því miður ekki margar. Hér ætti frekar að benda almenningi á að draga úr neyslu eins og Umhverfisstofnun gerir svo ágætlega.
Kolviður upplýsir sína kaupendur um ferli kolefnisbindingar með skógrækt. Skógarplönturnar fara að binda kolefni fljótlega eftir að þær eru gróðursettar en það fer hægt af stað en binding í bol, greinum, rótum og sópi eykst síðan nokkuð hratt og nær hámarki í flestum tilvikum eftir 30-40 ár eftir tegundum nema birki sem þarf lengri tíma. Þegar hámarksbindingu á ári er náð dregur heldur úr bindingunni á ári hverju. Kolviður reiknar sér 50 ára vaxtatíma trjánna til bindingar en þau halda áfram að binda kolefni eftir það.
Í greininni segir að gróðursetning í dag sé ekki að skila bindingu fyrr en eftir 50-80 ár sem er rangt. Einnig að jarðvinnsla skapi losun næstu 10-20 árin sem er einnig alrangt og segir vísindaleg gögn, sem þó eru ekki nefnt hver séu, því til sanninda. Allt þetta á svo að auka losun sem verður að teljast mesta blekkingin. Hvaða binding er til sem skilar árangri í rauntíma? Það sem skiptir mestu er að minnka losun sem mest og binda sem mest.
Viðskiptavinir Kolviðar eru ekki að fara að selja þá bindingu sem þeir hafa keypt á móti núverandi losun og koma því ekki til mats á alþjóðlegum kolefnismörkuðum.
Við notum ekki heimatilbúna staðla, Kolviður vinnur sín verkefni samkvæmt alþjóðlegum staðli ISO 14064-2 : 2019 sem eru kröfur með leiðbeiningum á verkefnisstigi til mælingar, vöktunar og skýrslugjafar um minnkun losunar á gróðurhúsalofttegundum eða umbætur í úthreinsun þeirra.
Verkefni Kolviðar eru í úttekt af alþjóðlega vottunarfyrirtækinu Bureau Veritas UK Ltd.
Kolviður-sjóður er íslenskur óhagnaðardrifinn sjóður sem var stofnaður af Skógræktarfélagi Íslands og Landvernd og sem slíkur starfar hann undir eftirliti Ríkisendurskoðunar og ytri endurskoðenda.
Höfundur er stjórnarformaður Kolviðar.
Með öðru og ókurteisari orðalagi, var allt sem þar var að finna ýmist lygi, dylgjur eða ósannindi.