Þegar tökuvélarnar beindust að Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, var eins og hann væri eitthvað skömmustulegur eða vandræðalegur þegar hann hallaði sér síðastliðinn mánudag að Svandísi Svavarsdóttur, Vinstri grænni, undir þrumuræðum um ofbeldi meirihlutans á Alþingi gegn heiðarlegu gagnsæi um meðferð almenningseigna.
Eins og hann vildi segja við hana: „Fyrirgefðu. Ég veit að ég er búinn að taka út alla pólitíska inneign Vinstri grænna hjá þjóðinni til að verja klíkuskapinn í kringum mig og flokkinn. En þið haldið þó ráðherrastólum.“
Það þarf svo sem engin geimvísindi til að álykta rétt um það, að mikið hefur gengið á áður en VG-liðarnir Svandís, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson greiddu atkvæði gegn sjálfsögðu og eðlilegu gagnsæi af hálfu kjörinna fulltrúa kjósenda á háæruverðugu Alþingi.
Þessi fjögur tóku þungann af hinum fjórum þingmönnum Vinstri grænna sem voru fjarverandi, Katrínu Jakobsdóttur, Bjarna Jónssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Jódísi Skúladóttur.
Hvenær í lýðveldissögunni hafa vinstrimenn gengið svo langt og Vinstri græn undir kerfisbundinni spillingu og kunningjaveldi Sjálfstæðisflokksins?
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi Morgunblaðsritstjóri og þjóðfélagsrýnir um áratugaskeið gaf íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi eftirtektarverða einkunn þegar hann kom fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis eftir bankahrunið 2008. Sjálfur var hann í lifanda lífi innvígður og innmúraður í Flokknum og áhrifavaldur þar:
„[É]g er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Geðþóttinn ræður, ekki prinsípin
Það voru engin prinsipp höfð að leiðarljósi á Alþingi síðastliðinn mánudag.
Notalegir ráðherrastólar hafa nú kostað íslensku þjóðina álitshnekki í Lindarhvolsmálinu. Við höfum þurft að búa við grautarleg og aðgerðarlaus stjórnmál í hálft annað kjörtímabil þar sem Vinstri græn veita þessari tegund stjórnmála fortíðarinnar brautargengi. Ég nenni ekki að tala um Framsóknarflokkinn í þessu sambandi því orðið „prinsíp“ og „Framsóknarflokkur“ eru eins og olía og vatn, blandast ekki.
Merkur franskur þjóðfélagsfræðingur, Maurice Duverger, gerði merka rannsókn á starfsemi stjórnmálaflokka um miðja síðustu öld og gaf niðurstöður sínar út á bók. Í formála segir hann meðal annars:
„Tilveran innan flokksins er vísvitandi sveipuð leynd. Það er ekki auðvelt að afla nákvæmra gagna um stjórnmálaflokka, ekki einu sinni um undirstöðuatriði. Þetta er líkt og að vera staddur í frumstæðri lögsögu þar sem launung ríkir um lög og helgisiði sem innvígðir halda kirfilega leyndum fyrir óviðkomandi. Aðeins gamalreyndir gæslumenn hafa nauðsynlega vitneskju um hvað er á seyði innan flokksins og um slóttugt leynimakk sem þar fer fram. Þessir menn hafa á hinn bóginn sjaldan til að bera þá fræðilegu hugsun sem gæti gert þeim kleift að halda nauðsynlegri hlutlægni. Og þeir eru ófáanlegir til þess að tala.“
Þetta kallast vel á við niðurstöðu Styrmis í Morgunblaðspistli eftir Bankahrunið – munum að hann var sjálfur innvígður og innmúraður í veldi Sjálfstæðisflokksins: „Við viljum ekki sem þjóð horfast í augu við okkur sjálf. Eða treystum við okkur ekki til þess? Við neitum að viðurkenna að návígið, ættartengslin, vináttan og kunningjatengslin eru grundvallarbrestir í samfélagsgerð okkar. Okkur tekst ekki að berja í þá bresti nema opna þjóðfélagið upp á gátt. Það er eina aðhaldið sem dugar, til þess að koma í veg fyrir að návígið leiði af sér nýtt hrun af einhverju tagi.“
Nú virðast fulltrúar Vinstri græn á þingi vera einkum uppteknir af því að fara í gagnstæða átt við þessa brýningu Styrmis heitins: Loka þjóðfélaginu, halda upplýsingum frá þingmönnum og almenningi sem á eignirnar sem vinir og klíkubræður Sjálfstæðisflokksins fá að véla um í skjóli þeirra.
Hvaða ferðalag er það?
Höfundur er fyrrverandi blaðamaður og stjórnarformaður Transparency International á Íslandi.
Athugasemdir (3)