Samkvæmt Stúdentaráði Háskóla Íslands vantar skólann milljarð sem hann hyggst meðal annars sækja í vasa nemenda sinna með því að hækka skrásetningargjöld í 95 þúsund krónur. Á síðasta ári var niðurskurður til Háskóla Íslands samþykktur í fjárlögum. Stúdentaráð gagnrýnir háskólayfirvöld með herferðinni „Stúdentar gjalda misbresti stjórnvalda“.
Grunnnámslán stúdenta er rúmar 106 þúsund krónur á mánuði. Nemandi á grunnnámslánum fengi því rúmlega eina milljón króna til að framfleyta sér í níu mánuði. Fyrir nemenda sem býr á stúdentagörðum er mánaðarlegur kostnaður við leigu á einstaklingsíbúð yfir 100 þúsund krónur.
Í samtali við Heimildina segir forseti Stúdentaráðs, Rebekka Karlsdóttir, að niðurskurðurinn og hækkun skrásetningagjalda haldist augljóslega í hendur.
Ekki hlutverk stúdenta að fjármagna opinbera menntun
„Við erum búin að setja spurningarmerki við lögmæti gjaldsins. Við drögum í efa að gjaldið standist lög um opinbera háskóla. Það sé í rauninni verið að rukka stúdenta mun meira en lög leyfa og svo á að fara að hækka þau gjöld enn frekar þegar það liggur vafi á hvort að þau standist lög,“ segir Rebekka.
Jón Ingvi Ingimundarson, þriðja árs nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir mögulega hækkun vera kjaftshögg. „Nemendur eru búnir að öskra sig hása að benda á hvað er að en það heyrist ekki múkk. Það sýnir hvar áherslur flokkana liggja og það er ekki hjá nemendum.“ Hann segir hagsmuni nemenda vera hagsmuni þjóðar.
Jón Ingvi segir sig og aðra nemendur í háskólanum þakka guði fyrir að vera að útskrifast nú í vor. Aðspurður hvort staða stúdenta hafi áhrif á hvort Jón Ingvi geti hugsað sér að fara í framhaldsnám segir hann svo vera.
Er ekki eðlilegt að skrásetningargjald hækki?
Heimildin fjallaði nýverið um gagnrýni af hálfu deildarforseta Hugvísindasviðs í garð Samstarfssjóðs Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í þeirri umfjöllun lýsti rektor Háskóla Íslands einnig yfir áhyggjum af fjármálaáætlun skólans fyrir árið 2024.
Stúdentaráð telur forsendur þess að hækka eigi skráningargjaldið ekki fullnægjandi. Á vefsíðu Stúdentaráðs segir:
„Það er eðlilegt að gjöld taki mið af verðlagsbreytingum milli ára, en lykilatriðið er að hluti skrásetningargjaldsins á að dekka kostnað sem er alls ótengdur eiginlegri skrásetningu stúdenta. Stúdentaráð telur því ekki halda vatni að rökstyðja hækkun gjaldsins nú með vísitöluhækkunum á núverandi kostnaðarliðum, þar sem vafi leikur á um hvort þeir standist lög.“
„Þetta snýst líka um aðgengi að námi almennt. Við höfum verið að benda á að gjaldið er margfallt hærra en á Norðurlöndunum nú þegar,“ segir Rebekka. Í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar er markmið um að fjármagna háskóla eins og þekkist á Norðurlöndum.
Stúdentaráð stefnir á afhendingu ítarlegrar samantektar um kröfur sínar og málflutning til ráðherra í vikulok. Rebekka telur hækkun skrásetningargjaldsins vera örvæntingafulla tilraun hjá háskólanum til að reyna að stoppa í gatið sem við blasir. „Það þarf að ráðast á rót vandans í stað þess að kafa dýpra í vasa stúdenta.“
Athugasemdir