Héraðssaksóknari telur ekki ráðlegt að hækka svokallaðan kynferðislegan lágmarksaldur, eða samræðisaldur, út 15 árum í 18 ár, líkt og þingmenn Pírata hafa lagt til með frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum.
Aldursmarkið var síðast hækkað árið 2007, út 14 árum í 15 og var þá meðal annars vísað til rannsókna sem lágu fyrir um viðhorf ungmenna sjálfra. „Í frumvarpinu nú er ekki vísað til neinna rannsókna hvað þetta varðar og svo stór breyting sem þessi þarf að eiga sér stað að undangenginni ítarlegri skoðun,“ segir í umsögn embættis héraðssaksóknara til allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarpið sem Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, undirritar.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/8urbw1gR7owt_500x3661_ZVVyvn88.jpg)
Frumvarpinu var dreift á Alþingi síðasta haust og hafa flutningsmenn þess meðal annars fært rök fyrir því að hækkun samræðisaldurs í 18 ár muni veita börnum aukna vernd í kynferðisbrotamálum.
Í umsögn héraðssaksóknara segir að ákveðins misskilnings gæti. Í frumvarpinu er lagt til að 200. og 201. grein almennra hegningarlaga verði felld brott og breyting gerð á 202. grein þar sem kynferðislegur lágmarksaldur verði hækkaður í 18 ár. Því sé ekki lengur þörf á ákvæðum 200 og 201.
Tvenns konar misskilningur
Misskilningurinn, að mati héraðssaksóknara, felst í því að bann við samræði, öðrum kynferðismökum eða kynferðislegri áreitni við barn eða annan ættingja (sifjaspell) er alveg óháð aldri barnsins eða ættingjans. „Er háttsemin því refsiverð þótt brotaþolinn sé eldri en 18 ára. Héraðssaksóknari getur því ekki tekið undir þessa breytingartillögu enda myndi hún rýra rétt brotaþola sifjaspella,“ segir í umsögn héraðssaksóknara.
Þá segir héraðssaksóknari einnig að misskilnings sé að gæta hvað varðar breytingar á 204. grein almennra hegningarlaga um brot framin í gáleysi. Í frumvarpinu er lagt til að greinin verði felld niður með þeim rökum að aðrar breytingar á lögunum feli í sér að ekki sé ástæða til þess að halda eftir ákvæði um gáleysi þar sem börn eigi ávallt að fá að njóta vafans.
„Fyrir gáleysisbrot er eingöngu hægt að refsa ef sérstök heimild er til þess í lögunum. Ákæruvaldið ber sönnunarbyrðina þegar kemur að því að sanna að gerandi hafi haft ásetning til brots og þarf í málum sem varða brot gegn börnum að sanna að viðkomandi hafi vitað að brotaþoli var undir aldri á verknaðarstundu. Sú sönnun er stundum torveld og þá er mjög mikilvægt að hafa gáleysisákvæði í lögunum að því er varðar aldurinn,“ segir í umsögn héraðssaksóknara.
Athugasemdir