„Eftir óslitinn áratug með Sjálfstæðisflokkinn við völd, og ríkisstjórn sem er búin að gefast upp á öllu, er löngu kominn tími á breytingar — eftir tíu löng ár í stjórnarandstöðu blasa hvarvetna við okkur verkefni sem kalla á klassískar lausnir jafnaðarfólks; sem kalla á okkur sósíaldemókrata til verka. Það er einfaldlega staðan. Og við tökum hana alvarlega.“
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi flokksins í morgun. Á sama fundi kynnti flokkurinn nýtt merki, Rauðu jafnaðarmannarósina og nýjan rauðan lit.
Þar sagði hún Samfylkinguna ætla að verða ráðandi afl í næstu ríkisstjórn. Það væri ekki vegna þess að flokkurinn sé í vinsældakeppni eða vegna þess að hann langi svo að sitja í ráðherrastólum. „Samfylkingin stefnir í stjórn og fyrir því er ein og aðeins ein ástæða: Verkefnin sem kalla. Því þau kalla á okkur. Og þau eru aldeilis ærin verkefnin sem blasa við í íslensku samfélagi. Svo fólk geti lifað sómasamlegu lífi af laununum sínum. Búið við öryggi á húsnæðismarkaði. Og sótt sér heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki þegar eitthvað kemur upp á. Þetta eru bara fáein dæmi.“
Kristrún eyddi fyrsta hluta ræðu sinnar meðal annars í að gagnrýna ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur harkalega og sagði að Samfylkingin ætlaði að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi eftir áratug hnignunar. „Eftir því sem þessi ríkisstjórn hangir lengur á stólunum — algjörlega verkstola — þá bætist við verkefnalistann. Við ætlum að koma skikki á stjórn efnahagsmála; vinna gegn verðbólgunni um leið og við verjum heimilisbókhaldið hjá fólki. Því staðreyndin er þessi: Ríkisstjórnin hefur misst alla stjórn.“
Forsætisráðherra sem fylgist bara með
Verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar bar líka á góma í ræðu Kristrúnar. Hún sagi hana fela í sér „að hver ráðherra sitji í sínu horni, með forsætisráðherra sem virðist bara fylgjast með á meðan fjármálaráðherra slær á puttana hjá öllum hinum.“ Stefnan virðist einungis vera sú að halda út. „Viðvera, þaulseta, markmiðin eru nú talin í árum setið ekki út frá þjónustu við almenning.“
Launafólk hafi ekki lengur trú á því að á Íslandi sé þjónandi forysta sem stýri þjóðarskútunni, skapi farveg samhjálpar og skilning á mikilvægi þess að kjarabætur séu sniðnar að þörfum fólksins í landinu gegnum velferðarkerfið. „Ríkisstjórnin sér ekki samhengi hlutanna, eða vill ekki sjá það. Þau tala eins og óbreyttir áhorfendur eða álitsgjafar þegar þau eru spurð hvað gera skuli — lýsa bara aðstæðum, láta eins og þau séu ekki lykilgerendur í samfélaginu — eins og þau hafi enga stjórn.“
Að mati Kristrúnar á sitjandi ríkisstjórn engin svör né stefnu, ráðherrar hennar bendi bara á aðra og taki enga ábyrgð sjálfir. „Það er bent á fólkið í landinu — sem verður víst bara að eyða minna — og bent á Seðlabankann, sem á víst einn að bera ábyrgð á verðbólgunni samkvæmt nýjustu kenningum forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Hver ber þá ábyrgð á stjórn efnahagsmála? Ber ríkisstjórnin enga ábyrgð? Bera ráðherrarnir enga ábyrgð? Þetta er algjör uppgjöf — þau láta eins og þau sé bara einhverjir áhorfendur í efnahagslífi þjóðarinnar. Sama ríkisstjórn og sömu ráðherrar og stærðu sig af því bara núna fyrir nokkrum mánuðum að nú væri hafið nýtt lágvaxtatímabil í íslenskri hagsögu. Og töluðu eins og þau ein væru fær um að tryggja efnahagslegan stöðugleika.“
Formaður Samfylkingarinnar, sem hefur nú mælst stærsti flokkur landsins í tveimur könnunum Gallup í röð og nýtur nú stuðnings 24 prósent aðspurðra, segir að flokkur hennar ætli þó ekki að skilgreina sig út frá þeirri ríkisstjórn sem hann ætli að leysa af hólmi. „Við munum ekki vera bara „ekki þau“ — það dugar ekki til — við skilgreinum okkur út frá þeirri framtíð sem við viljum skapa á Íslandi fyrir fólkið sem hér býr.“
Markmiðið sé að sækja ánægju- og vonarfylgi sem veiti Samfylkingunni svo umboð til breytinga. Í þeirri vegferð muni flokkurinn ekki elta skoðanakannanir né þá sem hafa hæst hverju sinni á samfélagsmiðlum. „Verkefnin eru miklu stærri en svo að við getum látið kippa okkur út af laginu vegna fréttahringsins hverju sinni — okkar athygli þarf að vera á langtímaverkefninu; stóru breiðu velferðarmálunum og skipulagningu efnahags- og atvinnumála. Við stjórnum ekki landinu með hneykslun, eða óánægju að leiðarljósi, það eru engar skyndilausnir og við þurfum að nota alla okkar athygli í að byggja upp trúverðugan málflutning með raunverulegum aðgerðum á bakvið.“
Þriggja manna hópar munu leiða mótun forgangsmála
Kristrún kynnti svo nýjar áherslur í málefnastarfi flokksins. Þær ferla í sér að því verður skipt upp í tvennt. „Annars vegar eru ákveðin forgangsmál, sem stjórn hefur valið og sem flokkurinn mun fara í af fullum þunga. Þar verðum öllum boðið að koma með og leggja sitt af mörkum en þriggja manna stýrihópur mun halda utan um og leiða vinnuna. Við tökum eitt forgangsmál í einu — yfir ákveðinn tíma — og útkoman á að vera verklýsing fyrir næstu ríkisstjórn; forgangsröðun og skýr pólitík; verkefnalisti frá fyrstu 100 dögunum og upp í fyrstu tvö kjörtímabil í ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar.“
Fyrsta forgangsmálið sem ráðist verður í eru heilbrigðismál og öldrunarþjónusta. Formaður í stýrihópnum um það er Anna Sigrún Baldursdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður velferðarráðherra og fyrrverandi aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri á Landspítala og er nú skrifstofustjóri og leiðtogi öldrunarmála hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Með henni í stýrihópnum verða þau Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og hjúkrunarfræðingur, og Sindri Kristjánsson frá Akureyri, sem hefur starfað sem sérfræðingur hjá Lyfjastofnun og í velferðarráðuneytinu.
Vinnu við heilbrigðis- og öldrunarmálin á að ljúka fyrir flokksstjórnarfund næsta haust og þá á að ráðast í næsta forgangsmál: Atvinnu og samgöngur. Frá vorinu 2024 verður ráðist í þriðja og síðasta forgangsmálið: Húsnæðis- og kjaramál — sem stefnt er á að taka fyrir fram að næsta landsfundi Samfylkingarinnar, sem verður haustið 2024.
Að óbreyttu verður svo kosið til þings árið 2025.
Athugasemdir (2)