Ímyndum okkur að við séum stödd á Íslandi árið 1938. Eitt stærsta kosningamálið í sveitastjórnarkosningunum snýst um hvort innleiða skuli hitaveitu fyrir íbúa landsins.
Ekki eru öll sannfærð um ágæti þessarar hugmyndar. Sumum finnst þetta of dýrt. Sum telja að þetta sé ógerlegt, sem er svosem ekki fráleit skoðun. Íslendingar bjuggu ekki yfir allri þeirri þekkingu og verkviti sem þurfti til áður en hafist var handa, en við lærðum jafnóðum. Öðrum finnst þetta hreinlega óþarfi. Af hverju að ráðast í gríðarlegar innviðafjárfestingar og breytingar þegar núverandi fyrirkomulag gengur bara ágætlega?
Spólum svo fram til dagsins í dag. Efasemdaraddirnar hafa þagnað og það er öllum ljóst að hitaveitan er ein besta ákvörðun sem Íslendingar hafa tekið.
En af hverju er ég að minnast á hitaveituna? Jú, því þessi 85 ára gömlu rök minna mig á þau sem notuð eru í dag gegn loftslagsaðgerðum, gegn þeirri umbreytingu sem við sem alþjóðasamfélag þurfum að ráðast í til að tryggja farsæla framtíð. Í því samhengi á ég ekki einungis við orkuskiptin, heldur enn fremur þær kerfislægu breytingar sem þurfa ná til allra kima samfélagsins og hagkerfisins.
Ef við horfum ekki til baka eigum við það til að gleyma að okkar stærstu afrek, bæði sem þjóð og sem heimsbyggð, mættu mótlæti sem virtist nær óyfirstíganlegt á einhverjum tímapunkti. Jafnvel þær ákvarðanir sem okkur virðast augljósar í dag.
En grundvallarmunurinn á loftslagsbreytingum og öðrum áskorunum sem mannkyn hefur staðið frammi fyrir, er sá að við horfum fram á vandamál sem við höfum gríðarmikla vísindalega þekkingu á: orsökum þess, helstu afleiðingum og hvernig þarf að bregðast við. Það er hvorki óvissa um hvað þarf að gera né skortur á lausnum. Það eina sem vantar er pólitískur vilji, eða öllu heldur pólitískt hugrekki.
En stjórnmálin mótast auðvitað af almenningi og þetta ákall um hugrekki á því ekki síst við um okkur öll. En það þarf líka meira til, það þarf hugarfarsbreytingu.
Við þurfum að nálgast loftslagsvandann með hugarfari sem viðurkennir hversu brýnt ástandið er, hversu mikla getu við höfum til breytinga, og allan þann ávinning sem af því hlýst.
Við þurfum bara aðeins að endurstilla þankaganginn:
Líður þér eins og öll von sé úti?
Fremsta loftslagsvísindafólk heims er ekki á sama máli. Það er enn hægt að takmarka hnattræna hlýnun við eina og hálfa gráðu en það krefst kerfislægrar umbreytingar og glugginn til breytinga lokast hratt.
En segjum sem svo að okkur mistakist að ná okkar metnaðarfyllsta markmiði og að við förum yfir einnar og hálfrar gráðu mörkin, þá er samt engin ástæða til að gefast upp. Hvert gráðubrot af hlýnun sem okkur tekst að koma í veg fyrir skiptir máli. Sérstaklega fyrir þau samfélög sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu vegna loftslagsbreytinga og þau viðkvæmu vistkerfi sem sem við reiðum okkur á.
Og hvers vegna að hætta að berjast núna þegar við sjáum svona mörg jákvæð teikn á lofti? Fjárfestingar í endurnýjanlegri orku hafa náð nýjum hæðum og kostnaðurinn hefur kolfallið. Sem dæmi hefur verð á vindorku á landi og sólarorku lækkað um ca 70 og 90% síðan 2010 á alþjóðavísu. Alþjóðaorkumálastofnunin spáir svo að endurnýjanlegir orkugjafar muni hafa stærstu hlutdeild allra orkugjafa árið 2025.
Líður þér eins og þitt framlag sé of lítið í stóra samhenginu?
Það er eðlilegt að líða eins og ekkert sé að gerast eða að hlutirnir gerist allt of hægt en höfum í huga að breytingar eru ekki alltaf línulegar. Þegar vendipunktum er náð getur jafnvel hið minnsta inngrip haft mikil áhrif. Það er meira að segja búið að greina svokallaða „ofur-vendipunkta“ fyrir losunarfrekustu geira hagkerfisins, en þegar þeim verður náð munum við sjá jákvæð margfeldisáhrif á skala sem okkur órar eflaust ekki fyrir í dag.
Þú gætir verið hluti af umbreytingu aldarinnar án þess að gera þér grein fyrir því.
Þitt framlag og allra annarra sem eru að vinna að vandanum munu á endanum færa okkur frá línulegum breytingum yfir í þann veldisvöxt sem við þurfum.
Finnst þér loftslagsaðgerðir of kostnaðarsamar?
Því er nefnilega þveröfugt farið. Samkvæmt Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) munu þær aðgerðir sem þarf til að takmarka hnattræna hlýnun við 2 gráður einungis draga lítið úr hagvexti. En þar með er ekki öll sagan sögð. Með því að taka einnig með í reikninginn þann fjölþætta ávinning sem hlýst af loftslagsaðgerðum verður útkoman efnahagslegur ávinningur og betri lífsgæði. Við vitum einnig að kostnaður við aðgerðir mun einungis hækka eftir því sem við bíðum lengur með framkvæmd þeirra. Dýrasta aðgerðin er því aðgerðaleysi!
Finnst þér loftslagsaðgerðir hljóma of róttækar?
Þau rök að verið sé að biðja um of mikið, of snemma, halda hreinlega ekki vatni lengur. Mér verður oft hugsað til samlíkingar sem Andri Snær setti fram í samhengi við þau straumhvörf sem áttu sér stað við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Í mörg ár var okkur sagt að ekki væri hægt að ráðast í stórtækar breytingar sem snertu hvern kima mannlegs lífs, það væri ómögulegt að stöðva maskínuna og hefta markaðinn, handbremsan væri ekki til. En í baráttunni við veiruna sáum við allt í einu hvernig tekið var í handbremsuna, og það af fullum krafti. Við horfðum upp á fordæmalausar breytingar á samfélagi okkar, hagkerfi, fjármagnsflæði og alþjóðlegri samvinnu - allt til að vernda okkur gegn sameiginlegri ógn.
Og nú stöndum við frammi fyrir enn stærri ógn. Breytingar á slíkum skala, þó þær verði annars eðlis, eru því ekki einungis sanngjörn heldur raunhæf krafa.
Valið er okkar
Við erum stödd á Íslandi árið 1938 og ekki eru öll sannfærð um ágæti hitaveitunnar.
Okkar stærstu sigrar gerðust ekki af sjálfu sér. Þeir byrjuðu sem hugmyndir og urðu einungis að veruleika vegna staðfestu og seiglu fólks sem þorði að ímynda sér betri framtíð og gerði allt sem í sínu valdi stóð til að hún yrði að veruleika.
Við sem mannkyn stöndum á krossgötum og valið er milli tveggja andstæðra framtíða, einnar sem við óttumst og annarrar sem við getum orðið stolt af og látið okkur hlakka til.
Valið er augljóst, en við þurfum að velja.
Framtíðin er í okkar höndum.
Höfundur er forseti Ungra umhverfissinna og umhverfis- og auðlindafræðingur.
Athugasemdir