Embætti héraðssaksóknara hefur fellt niður mál á hendur feðgunum á Blönduósi, sem haft hafa réttarstöðu grunaðra um að hafa orðið valdir að dauða Brynjars Þórs Guðmundssonar. Brynjar ruddist inn í hús á Blönduósi í ágúst síðastliðnum, skaut heimilisföðurinn Kára Kárason í magann og særði alvarlega, og skaut síðan eiginkonu Kára, Evu Hrund Pétursdóttur, í höfuðið og banaði henni.
Brynjar lést eftir átök við Hilmar Þór Kárason, son þeirra Kára og Evu Hrundar, og leiddi réttarkrufning í ljós að dánarorsök hans var köfnun vegna þrýstings á háls og brjóst. Fengu þeir feðgar báðir réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins.
„Það er okkar niðurstaða að þeir hafi þarna verið að afstýra yfirstandandi árás“
Mál á hendur feðgunum var hins vegar fellt niður í gær. Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari staðfestir þetta í samtali við Heimildina. „Já. Það var gert á grundvelli neyðarvarnar, það er okkar niðurstaða að þeir hafi þarna verið að afstýra yfirstandandi árás og ekki farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar. Þar af leiðandi er málið ekki talið líklegt til sakfellingar og því fellt niður.“
Málinu er því að öllum líkindum lokið í ljósi þess að Brynjar er látinn og engum sakborningi til að dreifa. Þó segir Kolbrún að eins og með aðrar ákvarðanir héraðssaksóknara sé mögulegt að þeir sem hlut eigi að máli geti kært niðurstöðuna til ríkissaksóknara. „Það verður bara að koma í ljós hvort um eitthvað slíkt verður að ræða eða ekki.“
Átök leiddu til dauða
Samkvæmt rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sem fór með málið, fór Brynjar inn um ólæstar dyr á húsi þeirra Kára og Evu á Blönduósi 21. ágúst síðastliðinn. Hafði hann meðferðis afsagaða haglabyssu. Mun hann síðan hafa farið út af heimilinu en Kári farið á eftir honum. Kom til orðaskipta þeirra á milli fyrir utan húsið sem endaði með því að Brynjar skaut Kára. Að því loknu fór hann aftur inn í húsið og banaði Evu Hrund.
Kári mun hafa elt Brynar inn í húsið og náð á honum tökum á meðan hann var að hlaða haglabyssuna. Mun Hilmar þá hafa komið föður sínum til aðstoðar. Hilmar mun hafa náð byssunni af Brynjari og síðan hafi komið til harkalegra átaka þeirra á milli sem enduðu með því að Brynjar lést.
Athugasemdir