Hræðsla er ein þessara sterku tilfinninga sem við höfum öll fundið fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni. Sum okkar berjast við lofthræðslu, önnur óttast köngulær, flughræðsla hrjáir sumt fólk og annaðfólksfælni, margir eru haldnir ótta við sýkingar og svo mætti sennilega endalaust telja.
Langvarandi uggur, hræðsla, ótti, ógn og skelfing geta verið heilsuspillandi. Niðurstöður rannsókna leiða í ljós aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum meðal þeirra sem löngum stundum lifa við hræðslu af einhverju tagi. Ónæmiskerfinu getur líka verið hætta búin, sem þá leiðir af sér margskonar sjúkdóma og kvilla auk skemmda á anda fólks og líkama.
Flest reynum við af bestu getu að forðast hættulegar aðstæður eða þá að við vinnum bug á því sem vekur okkur ótta. Hræðsla er samt fullkomlega eðlileg, líffræðileg viðbrögð við einhverju sértæku áreiti í umhverfi okkar.
Hún kallar fram það sem kallað er „ótta- eða árásarviðbrögð“ en þá streyma hormón fram sem gera líkamann reiðubúinn að bregðast við ógninni. Samkvæmt orðanna hljóðan verða viðbrögðin annað hvort atlaga að því sem skelfir eða hraður flótti.
Vald óttans
Það skelfir mig að ótti er, og hefur um aldir alda, verið notaður sem verkfæri til að stjórna samfélagi manna. Þar má nefna að valdhafar beita þeirri aðferð að deila og drottna, og nota þannig þetta stjórntæki, sem er innbyggt í manninn, til að vekja upp andúð og hatur gagnvart þeim sem eru af öðru þjóðerni, litarhætti eða hafa aðra kynhneigð og trú, svo dæmi séu tekin.
Þeim sem ráða finnst aðferðin sú harla gagnleg til þess að etja fólki til ofsókna gegn þeim sem þykja á einhvern hátt framandi, öðruvísi og passa ekki í mótið. Trúarbrögð eru oft og tíðum notuð til að viðhalda ótta þeirra trúuðu og hinna sem þykjast ekki trúa.
Þar beita menn fyrir sig hinum skelfilega Guði sem tekur upp á því að drekkja öllu – nema þeim örfáu sem honum þóknast – í syndaflóði. Heilu borgirnar eru lagðar í eyði með einni handarhreyfingu þess sama Guðs, sem á það til að breyta fólki í saltstólpa þyki honum þurfa.
Breyti þeir trúuðu ekki rétt er ekkert sem bíður þeirra þegar dauðinn kveður dyra annað en útskúfun í eilífum logum helvítis og svo framvegis. Þessu var, og er haldið að fólki, fólki sem leitar að æðra máttarvaldi og lifir í þeirri veiku von að þegar þetta líf endar þá taki annað og betra við.
Auðvitað kom krókur á móti bragði hjá snjöllum sölumönnum Páfagarðs sem seldu hinum efnuðu aflátsbréf á miðöldum, sem með páfans blessun, gaf handhöfum þeirra frítt spil og örugga dvöl í himnaríki eftir dauðann.
Hver er ógnin?
Alþekkt er að stríðsrekstur verður mun auðveldari sé ógnin skýr og öllum skiljanleg. Þá er mjög auðsóttur eftirleikurinn, að fá hermenn til að fórna lífinu fyrir móðurjörðina og málstaðinn. Ekki þykir valdhöfum verra ef trúarleiðtogar taka þátt í öllu saman og sannfæra fólkið um að auðvitað sé lífið blómum skrýtt eftir dauðann. Enginn spáir í áhrif ævilangrar streitu af þess völdum.
Hér er óhætt að nefna að ýmsir trúarhópar hafa verið og eru enn duglegir við að nota meinta, yfirvofandi hættu sem stjórntæki. Trúarleiðtogum tekst að sannfæra fylgjendur sína um að augljóst sé að hverjir sem ekki trúa á sömu gildi séu villuráfandi, stórhættulegir, og oft réttdræpir sauðir. Kaþólska kirkjan er þekkt fyrir þetta eins og ofstopafullir múslímar, gyðingar og fleiri trúarhópar.
Þegar Indland fékk sjálfstæði frá Bretum 1947 urðu miklar róstur í landinu og hindúar réðust gegn múslímum sem aftur snerust gegn hindúum og allt þetta leiddi af sér blóðbað þar sem hundruð þúsunda týndu lífinu.
Það sér svo sem ekki fyrir endann á þessari blóðugu sögu en niðurstaðan varð sú að Indland var stofnað og Pakistan varð til. Eftir mikil vígaferli varð Bangladess til árið 1972 en það hafði áður verið hluti af Pakistan. Þar í landi er íslam ríkistrú líkt og í Pakistan.
Hatur er til margra hluta nytsamlegt
Stjórnarstefna Þjóðernisjafnaðarmannaflokksins, sem náði völdum í Þýskalandi 1933, byggði að talsverðu leyti á andúð og hatri. Hatri sem keyrt var áfram með því að innprenta almenningi ótta í garð þeirra hópa sem flokkurinn staðhæfði að ógnaði sínum gildum.
Þarna má nefna gyðinga sem Þriðja ríkið drap unnvörpum og skipulega í helförinni. Gasklefi eða aðrar aftökuaðferðir biðu samkynhneigðra, fólks sem var hreyfihamlað, glímdi við andleg veikindi eða var með Downs heilkenni.
Auðvitað var hatur, ótti, ógn og skelfing notað til að keyra vígvél ríkisins áfram. Innprentuð andúð í garð kommúnista auðveldaði nasistastjórninni að ráðast inn í Sovétríkin. Það var gert þrátt fyrir gagnkvæman griðasamning leiðtoga ríkjanna tveggja.
Stjórnvöld kyntu undir beyginn um að þær þjóðir sem byggðu nágrannaríki Þýskalands gætu unnið uppbyggingu alheimsnasismans skaða. Það gerði nasistastjórninni kleift að fara í stríð sem hafði áhrif á öll þau sem lifðu á plánetunni jörð á árunum 1939 til 1945, og í langan tíma þar á eftir.
Þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk var ógnin við nasismann úr sögunni að sinni en áfram var heimsbyggðinni haldið í greipum óttans. Enn og aftur var veröldinni skipt í tvær andstæðar fylkingar þegar kalt stríð stórveldanna skall á, örskömmu eftir stríðslok.
Það er auðvitað nokkur einföldun en svona heilt yfir voru fylkingarnar tvær. Sovétríkin höfðu sína fylgjendur og Bandaríki Norður-Ameríku sína. Stríðsrekstur hélt áfram, milli ríkja og innan – og heilsuspillandi óttinn við ragnarök nagaði almenning um heimsbyggð alla.
Kjarnavopn voru komin til sögunnar og ógnin sem af þeim stafaði, og stafar enn, hélt almenningi svo sannarlega í heljargreipum óttans, áratugum saman. Hræðileg stríð voru háð og þótt Bandaríkin og Sovétríkin berðust ekki beinlínis innbyrðis, studdu þau og hvöttu önnur ríki til blóðugra dáða á vígvöllum víða um heim.
Breytingaskeið
Tíminn leið, velmegun vesturlanda jókst sífellt og á seinni hluta sjöunda áratugar 20. aldar tók ungt fólk til sinna ráða og mótmælti styrjöldum, þeim samskiptavenjum sem viðgengist höfðu manna og ríkja í millum, og tók sér það bessaleyfi að lifa lífinu á eigin forsendum. Heilbrigði og hollusta var eitt af leiðarstefjunum, þótt sumir fengju sér eitt og annað sem síðan hefur sannast að er minna gott fyrir mann.
Þótt hugmyndafræði og lífsstíll hippakynslóðarinnar hafi ekki alveg gengið upp hafði hún mikil áhrif og hefur í raun enn. Enn tifaði tíminn áfram og þegar leið á 8. áratuginn þótti enn einu sinni aldeilis komið að því að breyta öllu ærlega.
Kennisetningar hagfræðinganna Miltons Friedman, Friedrichs A. Hayek, Georges J. Stieglers, og annarra helstu hugmyndafræðinga Mont Pèlerin samtakanna urðu hin nýju trúarrit þeirra sem aðhylltust svokallað frjálst hagkerfi. Meðal annars var boðað að ríkið skyldi selja allan rekstur frá sér.
Hinn frjálsi markaður varð lausnin á öllum vanda hins frjálsa heims. Hipp, hipp, húrra! Hver og einn átti að græða, og græða mikið, svo við gætum öll lifað hamingjusöm inn í eilífðina. En það er eins með frjálshyggjuna og önnur kerfi þau eru ekki gallalaus. Það eru nokkrir stórir augljósir hnökrar á þessu kerfi líkt og öðrum.
Viðamesti agnúinn er hugsanlega sá að hagvöxtur er ekki eilífur á plánetu sem hefur takmarkaðar auðlindir. Þannig er því farið hér á jörðu og því á gamla orðtækið „eyðist það sem af er tekið“ vel við.
Sá böggull fylgdi meðal annars skammrifi frjálshyggjunnar að ótæpilegur auður safnaðist á fárra hendur. Það græddu nefnilega ekki allir og margt fólk sá hið ljúfa auðmannalíf í hyllingum og puðaði sér nánast til óbóta án þess að auðgast nokkuð að ráði. Þá blasir við önnur staðreynd, sú að kerfi frjálshyggjunnar hefur litla sem enga miskunn fyrir þeim sem af einhverjum ástæðum geta ekki hjálpað sér sjálfir.
Það er ekki heilsunni hollt að búa við heilbrigðiskerfi sem sinnir aðeins þeim sem eiga peninga eða hafa efni á tryggingum. Ekki nægir til bjargráða að bjóða upp á súpu sem er skellt í skál í kjöllurum kirkna og leyfa svo þeim ógæfusömu að ráfa um strætin og leita næturstaðar undir brúm eða í strætisvagnaskýlum þegar ekkert annað býðst.
En ógnin var klár og óttinn virkjaður enn einu sinni. Yrði leið frjálshyggjunnar ekki farin steyptist þjóðfélagið í hið ógnvænlega mót alræðiskommúnismans. Slíkt fyrirkomulag væri auðvitað líkast helvíti á jörð. Ekkert var spáð í hvort slík innræting yrði til að skaða heilsu almennings.
Nú er svo komið að þjóðfélag okkar hefur gengið í gegnum hreinsunareld ofurfrjálshyggjunnar og öll látum við smala okkur í átt að draumaríki Friedmans og félaga. Auðvitað blasa margar ógnir við á leiðinni, flestar efnislegar þótt við séum allflest þéttvafin í einhverskonar tilvistarkreppu líka.
Nýjar og gamlar ógnir
Undanfarið hafa borist fréttir af loftbelgjum sem svifu inn í bandaríska og kanadíska lofthelgi án skýringar og voru skotnir niður. Öðrum óþekktum flygildum hefur einnig verið grandað í lofthelgi yfir Norður-Ameríku.
Þar á bæ voru hvorki stjórnmálamenn né hershöfðingjar alveg vissir hvað þarna gæti verið á ferð. Helst hefur sjónum verið beint að erkióvininum Kína en einn hershöfðingjanna kvaðst þó aðspurður ekki útiloka heimsóknir ferðalanga utan úr óravíddum geimsins. Það var snarlega borið til baka en skothríð telst þó varla fallegar móttökur fyrir tilvonandi gesti.
Loftsteinar, vígahnettir utan úr geimnum hafa einnig verið í fréttum. Annar þeirra tveggja sem vakið hafa mesta athygli var býsna nálægt jörðinni þegar hann þaut framhjá. Nokkrum dögum seinna varð vart við annan loftstein sem brann upp í andrúmsloftinu yfir Ermarsundi án þess að skaði hlytist af. En svona atburðir vekja örugglega ótta hjá mörgum.
Ógnir og ótti sem þeim fylgja eru hentugt og öflugt stjórntæki, sérstaklega ef hægt er að stilla upp andstæðum, stríðandi fylkingum. Fer ekki allt til andskotans ef verkföll verða til þess að stöðva þetta eða stöðva hitt? Hrynur samfélagið?
Ótti okkar er margvíslegur, mismunandi og mismikill. Flest það sem að framan er nefnt getur talist birtingarmynd einhvers konar sameiginlegrar hræðslu, jafnvel að skipulögðu undirlagi stjórnvalda á hverjum stað eða tíma.
Nýleg könnun leiðir í ljós að um tíu eða tólf prósent Íslendinga telja ógn stafa af múslímum. Annar hópur telur sér ógnað af tilvist trans fólks, tví- og samkynhneigðra en nokkuð hefur borið að sú óvild hafi verið sýnd með illri, og jafnvel banvænni, hegðun á almannafæri.
Er framtíðin að fara í fúlan pytt?
Römbum við á barmi heimsstyrjaldar? Já, Pútín er auðvitað djöfullinn sjálfur sem er studdur af málaliðum Wagner hópsins. Hann sendi jú hersveitir sínar inn í alsaklausa Úkraínu að því er virðist. Þarna er einstaklega gott dæmi um það sem heitir upp á ensku „proxy war“.
Það er að segja Úkraínumenn eru studdir af NATO og Bretar, Þjóðverjar auk tuga annarra ríkja sýna stuðning sinn í verki og senda þeim hergögn og vistir. Bandaríkjamenn gera það líka. Þeir virðast jafnvel hafa gengið lengra og eru grunaðir um að hafa tekið að sér að sprengja hina svokölluðu Kherson Nordstream leiðslu sem flutti eldsneyti frá Rússlandi.
Enn berjast Úkraínumenn einir við innrásarher Rússa. Hermenn annarra ríkja koma þar hvergi nærri, þótt nokkrir einstaklingar hafi gerst málaliðar í Úkraínuher á eigin forsendum.
Óðaverðbólga, efnahagsfár tengt eftirstöðvum kórónuveirufaraldursins og stríðið í Úkraínu hefur áhrif á verðlag um allan heim. Því fylgir ótti um að efnahag fjölskyldna sé stefnt í voða, sem getur haft alvarleg áhrif á heilsu fólks og aukið álag á bágstödd heilbrigðiskerfi.
Eldsneytisverð er í hæstu hæðum og almenn óáran er sögð ríkja í viðskiptalífinu en samt gefa stórfyrirtæki og bankar út afkomutölur sem sýna mikinn gróða. Eldsneytisrisinn Shell hefur ekki grætt jafn mikið um 115 ára skeið og hann gerði árið 2022.
Þetta hlýtur að teljast harla undarlegt í ljósi þess að fyrirtæki eins og Shell fengu mörg hver stuðning frá hinu opinbera, það er að segja skattgreiðendum, meðan á farsóttinni stóð. Flest okkar voru tilbúin að skilja og sætta okkur við að olíuverð þyrfti að hækka vegna stríðsins í Úkraínu en þetta dæmi og önnur eins sýna að ekki þurfti svosem að hækka eldsneytisverð eftir allt saman.
Alveg má til sanns vegar færa að óttablandinn hljómur ríkir í umræðunni allt umhverfis okkur. Það er í sjálfu sér engin nýlunda í huga manns sem lifði seinni ár kalda stríðsins þrungin þeim ógnum sem þá áttu að steðja að okkur.
Sami tónninn er kominn í umfjöllun um þær hættur sem að heiminum steðja vegna loftslagsvárinnar. Fluttur er mikill hræðsluáróður en aðgerðir virðast óskaplega takmarkaðar. Þegar reyna á að bregðast við verður uppi fótur og fit og þrýstihópar sem telja sig hafa hagsmuna að gæta reyna að koma í veg fyrir aðgerðir.
Af hverju? Jú vegna þess að þeim þykja hagsmunir sínir fyrir borð bornir. Ekki má heldur gleyma að hatrammar deilur ríkja milli þeirra sem telja tímann til viðbragða við það að renna út og hinna sem telja loftslagsvána hreinan áróður.
Fjölmiðlar, samfélagsmiðlar og hver annar vettvangur sem finnst til skoðanaskipta logar í illdeilum og hnútuköstum. Það á í raun við um nánast allt sem fólk getur verið ósammála um, hvort heldur er stríðsátök, loftslagsvá, Júróvisjón eða mannréttindi.
Þar er ekki talað saman um leiðir til lausna á hverjum þeim vanda sem við blasir, heldur líkjast samskiptin öskurkeppni þar sem flestum finnst þeir að lokum hafa sigrað á kostnað annars. Slík aðferð er samt einfaldlega ekki góð fyrir heilsu okkar sem einstaklinga eða mannkynsins alls. Við töpum oftast nær öll, því að sjaldan liggur fyrir nokkur niðurstaða til framþróunar, úrlausnar eða hagsbóta fyrir heildina.
Athugasemdir