Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, sendi bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í síðustu viku og óskaði eftir því að hún lýsi afstöðu sinni til þess hvort ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um að heimila lögreglunni að bera rafbyssur hafi falið í sér „mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingu“. Hann vill einnig fá að vita hvort að ákvörðunin hafi að öðru leyti verið þannig vaxin að berea hafi átt málið upp á ríkisstjórnarfundi áður en reglunum var veitt gildi eða þeim hrint í framkvæmd.
Í ljósi þess að í starfsreglum ríkisstjórnarinnar er ekki að finna nánari afmörkun á því hvaða málefni teljist mikilvæg stjórnarmálefni þá fer umboðsmaður fram á að forsætisráðherra veiti honum upplýsingar um verklag sem kunni að vera tíðkað af henni í því skyni að tryggja að mál sem falli undir starfsreglurnar séu borin upp á ríkisstjórnarfundum.
Í bréfinu, sem má lesa hér, er farið fram á að svar berist eigi síðar en 3. mars, eða fyrir lok næstu viku.
Fékk símtal sama dag og hann gaf reglurnar út
Umboðsmaður Alþingis hafði áður óskað eftir upplýsingum og skýringum frá Jóni Gunnarssyni um hvernig staðið hafi verið að ákvörðun hans um að heimila lögreglunni að bera og nota rafbyssur, en hana kynnti Jón í aðsendri grein í Morgunblaðinu undir lok síðasta árs , nánar tiltekið 30. desember, samhliða því að hann undirritaði reglugerðarbreytingu þess efnis.
Í svari Jóns til umboðsmanns kom fram að honum hafi verið kunnugt um þá ósk forsætisráðherra að hinar endurskoðuðu reglur yrðu kynntar í ríkisstjórn og að sú afstaða hafi verið gerð honum kunn að morgni 30. desember í símtali, sama dag og hann gaf reglurnar út og sendi til birtingar í Stjórnartíðindum. Jón taldi ákvörðun sína um að heimila lögreglu almennt að bera og nota rafbyssur ekki teljast „mikilvægt stjórnarefni“ og því hefði hann ekki þurft að kynna málið sérstaklega fyrir ríkisstjórn.
Svandís lét bóka að hún væri andsnúin ákvörðun Jóns
Heimildin greindi frá því í gær að Katrín hafi fyrst lesið um ákvörðun Jóns í áðurnefndri grein sem hann birti í Morgunblaðinu á næstsíðasta degi ársins 2022. Málið var svo tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi tveimur vikum síðar, 13. janúar. Jón var fjarverandi á fundinum og það kom í hlut Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að leggja fram fram og kynna minnisblað um málið fyrir hans hönd.
Í frétt Heimildarinnar, sem byggði á svari forsætisráðherra við fyrirspurn Halldórs Auðar Svanssonar varaþingmanns Pírata, kom fram að í umræðum um málið á ríkisstjórnarfundi hafi Katrín gert athugasemd við að málið hefði ekki verið kynnt í ríkisstjórn áður en dómsmálaráðherra skrifaði undir reglugerð um málið og kynnti ákvörðun sína í framangreindri blaðagrein. „Þá kom fram skýr afstaða forsætisráðherra um að boðaðar breytingar kölluðu á frekari kynningu á málinu.“
Á umræddum fundi ríkisstjórnar óskaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra eftir því að bókað yrði í fundargerð ríkisstjórnar að hún væri andsnúin ákvörðun Jóns og gerði athugasemd við það hvernig málið hafði verið unnið, þar með talið að það hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn áður en það var kynnt opinberlega.
Jóns að meta hvort breytingarnar væru „mikilvægt stjórnarmálefni“
Í gildandi reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá árinu 1999 er að finna heimild ríkislögreglustjóra til að heimila lögreglu notkun rafmagnsvopna. Katrín telur að breytingar dómsmálaráðherra fela á í sér að heimila lögreglu notkun rafbyssa sem almennu valdbeitingartæki við störf sín. „Að mati forsætisráðherra felur það í sér áherslubreytingu á þeirri framkvæmd sem fylgt hefur verið samkvæmt framangreindum reglum. Af þeim sökum óskaði forsætisráðherra sérstaklega eftir því að dómsmálaráðherra gerði grein fyrir málinu í ríkisstjórn en hann hafði þá þegar tekið ákvörðun um að gera breytingarnar.“
Forsætisráðherra svaraði því hins vegar til að það væri Jóns Gunnarssonar að meta hvort breytingarnar teljist til mikilvægra stjórnarmálefna í skilningi stjórnarskrárinnar, og feli þar af leiðandi í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar.
Umboðsmaður Alþingis vill hins vegar vita hvert hennar mat á því álitaefni sé.
Athugasemdir