Flóttafólk hefur búið samhliða fíklum á áfangaheimilinu Betra lífi í Vatnagörðum, sem stóð í ljósum logum í morgun. Íbúar áttu fótum fjör að launa og hafa fimm þeirra verið fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.
Arnar Hjálmtýsson rekur meðferðarheimilið Betra líf í Vatnagörðum. Hann sagðist vera önnum kafinn við að sinna skjólstæðingum sínum þegar Heimildin hafði samband við hann í morgun vegna brunans í húsinu. Slökkvilið hefur áður gert alvarlegar athugasemdir vegna eldvarna í fyrra húsnæði Betra lífs.
Þrjátíu flúðu brunann
Slökkviliðið var kallað út um klukkan tíu í morgun eftir að eldur kviknaði í einu herberginu. Alls voru um þrjátíu manns í húsinu þegar eldurinn kom upp, hluti af hópnum flóttafólk sem hafði fengið hýsingu á áfangaheimilinu vegna þess að önnur úrræði voru ekki í boði.
Á meðan slökkviliðið vann að því að slökkva eldinn stóðu íbúar áfangaheimilisins stóðu fyrir utan og horfðu á eigur sínar verða að engu. Í frétt RÚV sagði Jón Viggó Jónsson slökkviliðsstjóri að betur hefði farið en á horfðist. Reykkafarar hefðu farið inn í brennandi húsið og hjálpað fimm einstaklingum að komast þaðan út. Einhverjir þurftu aðhlynningu í sjúkrabílum og fimm voru fluttir á slysadeild með minniháttar meiðsli.
Flóttamenn búsettir með fíklum
Um er að ræða jaðarsettan hóp í íslensku samfélagi, í húsnæðinu leigja í flestum, ef ekki öllum, tilfellum einstaklingar með fjölþættan vanda, þá vímuefna- og geðrænan vanda auk húsnæðisleysis. Á þetta áfangaheimili, þar sem fíkniefnaneytendur neyta vímuefna um æð, hefur flóttamönnum síðan verið vísað af yfirvöldum.
„Þetta er ófremdarástand“
„Ég er að leigja virkum fíklum og umsækjendum um alþjóðlega vernd,“ staðfesti Arnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins Betra líf í Vatnagörðum, nú í lok janúar. Í umfjöllun Heimildarinnar kom í ljós að þá leigðu sex flóttamenn herbergi á áfangaheimilinu. Fyrir tveggja manna herbergi greiddu þeir 140 þúsund krónur hvor, samtals 280 þúsund krónur. „Þetta er ófremdarástand fyrir þennan hóp af fólki,“ sagði Arnar þá.
Áfangaheimilinu áður lýst sem dauðagildru
Fyrir tæpu ári síðan fjallaði Stundin, nú Heimildin, fyrst um áfangaheimilið Betra líf, sem hafði þá aðsetur í Kópavogi og stóð frammi fyrir lokun ef ekki yrðu gerðar úrbætur á brunavörnum. Slökkviliðið lýsti húsinu sem dauðagildru. Forstöðumaður áfangaheimilisins sagði ekki forsendur til að leggja í slíkan kostnað og sakaði yfirvöld um að reka heimilislaust fólk á götuna.
Athugasemdir