K&B ehf., félag sem er að mestu í eigu systkinanna Baldvins og Kötlu Þorsteinsbarna, hagnaðist um 49 milljónir evra, um 7,2 milljarða króna, á árinu 2021 miðað við árslokagengi evru á því ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var á heimasíðu Skattsins í gær, en ársreikningum á alla jafna að skila átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Nú eru liðnir rúmir 13 mánuðir frá því að reikningsárinu 2021 lauk.
Félagið hagnaðist um 20,8 milljónir evra, 3,2 milljarða króna á þávirði, árið 2020. K&B ehf. hefur því hagnast um 10,4 milljarða króna á fyrstu tveimur árunum eftir að félagið var stofnsett.
Félagið er stærsti einstaki eigandi Samherja hf., þess hluta Samherjasamstæðunnar sem heldur á starfsemi hennar á Íslandi og Færeyjum, með 43 prósent eignarhlut. Hluturinn í Samherja er eina eign félagsins og hagnaður félagsins hlutdeild í hagnaði útgerðarrisans. Baldvin á 49 prósent hlut í K&B ehf. en Katla systir hans 48,9 prósent. Faðir þeirra, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, á 2,1 prósent hlut.
Eignir K&B ehf. voru metnar á 304,4 milljónir evra, um 45 milljarða króna, í lok árs 2021. Á móti þeim eignum voru langtímaskuldir upp á alls 210,4 milljónir evra, 31 milljarð króna. Eigið fé félagsins var því um 14 milljarðar króna fyrir rúmu ári síðan.
Langtímaskuldin er við Eignarhaldsfélagið Stein, sem er í eigu foreldra Baldvins og Kötlu, Þorsteins Más og Helgu S. Guðmundsdóttur. Það félag var lengi stærsti eigandi Samherja hf. en hlutur foreldranna var færður til barnanna í maí 2020. Þegar leitað var svara um hvernig sú tilfærsla hafði átt sér stað fengust þau svör hjá Björgólfi Jóhannssyni, þá annars forstjóra Samherja, að annars vegar hefðu börnin fengið fyrirframgreiddan arf, og hins vegar væri um sölu milli félaga að ræða.
Samhliða sölunni veitti Eignarhaldsfélagið Steinn seljendalán fyrir öllum kaupunum. Samkvæmt ársreikningi á K&B ehf. að greiða 8,4 milljónir evra á ári af láninu á hverju ári, eða um 1,3 milljarða króna. Á árinu 2021 greiddi félagið hins vegar enga slíka greiðslu heldur einungis vaxtagjöld upp á um 200 milljónir króna.
„Við teljum að félagið sé vel komið í hans höndum og þeirra stjórnenda sem hafa starfað þar“
Tilfærsla milli kynslóða
Samherja var skipt upp í tvö fyrirtæki árið 2018. Eftir það var þorri innlendrar starfsemi Samherja og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf. Stærsta eign síðarnefnda félagsins var dótturfélagið Alda Seafood.
Saman áttu þessi tvö félög, Samherji hf. og Samherji Holding, eigið fé upp á um 160 milljarða króna í lok árs 2021. Þorsteinn Már er forstjóri bæði Samherja hf. og Samherja Holding.
Tilkynnt var um það um miðjan maí 2020 að stærstu eigendur Samherja hf. væru að færa stóran hluta af eignarhaldi á Samherja hf., sem heldur utan um innlendu starfsemina, til barna sinna. Þorsteinn og Helga færðu, líkt og áður sagði, sinn hlut til K&B ehf., í eigu barna þeirra.
Útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson færði sinn hlut til sinna barna og eftir það eiga Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín Kristjánsbörn, samanlagt um 41,5 prósent hlutafjár í Samherja, en ekkert þeirra meira en 8,5 prósent hlut hvert. Þar á eftir kemur félagið Bliki ehf. með 11,9 prósent hlut, sem er líka í eigu Samherjafjölskyldunnar.
Verðmætasta eign Samherja hf. eru aflaheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu.
Erlenda starfsemin seld til Baldvins
Í lok árs í fyrra greindi Morgunblaðið frá því að Baldvin hefði keypt Öldu Seafood af Samherja Holding. Í blaðinu var haft eftir Þorsteini Má að ástæðan fyrir sölunni væru kynslóðaskipti sem átt hefði sér stað innan Samherja, og að salan á Öldu væri eðlilegt framhald af því. „Við teljum að félagið sé vel komið í hans höndum og þeirra stjórnenda sem hafa starfað þar.“
Alda Seafood heldur utan um erlenda starfsemi Samherjasamstæðunnar, fyrirtæki á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða í Evrópu og Norður-Ameríku. Fjárfestingafélagið Sæból tilheyrir líka Öldu. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Auk þess á Sæból þrjú dótturfélög í Færeyjum, þar á meðal Spf Tindhólm.
Alda Seafood er því risastórt félag. Bókfært virði þess í lok árs 2021 var 361 milljón evrur, eða um 55,3 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Í frétt Morgunblaðsins var ekki greint frá því á hvaða verði Baldvin keypti Öldu Seafood né hvernig kaupin voru fjármögnuð.
Utan Öldu var stærsta eign Samherja Holding 32,79 prósent hlutur í Eimskip. Sá hlutur var færður í eignarhaldsfélagið Seley ehf. sem er í eigu sömu aðila og hafa átt Samherja Holding.
Með sölunni á Öldu var búið að koma sjávarútvegshluta Samherjasamstæðunnar að mestu til barna stofnenda fyrirtækisins. Og nær allar eignir Samherja Holding, félags sem er til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi vegna gruns um mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu, hafa verið færðar annað.
Athugasemdir (6)