Starfsmaður fjármálaráðuneytisins sem situr í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands sem pólitískt skipaður nefndarmaður hefur vikið sæti við meðferð nefndarinnar á Íslandsbankamálinu svokallaða. Þetta kemur fram í tölvupósti frá fjármálaráðuneytinu til Heimildarinnar.
Tölvupósturinn frá ráðuneytinu er viðbragð við umfjöllun blaðsins um átök um stjórnskipulag Seðlabanka Íslands sem nú eiga sér stað innan stjórnkerfisins og í stjórnmálum á Íslandi sem birt var fyrir helgi. Einn helsti ásteytingarsteinninn í þeirri umræðu er fjármálaeftirlitsnefndin og hvort seðlabankastjóri eigi að sitja í henni sem formaður og eins hvort halda eigi því fyrirkomulagi að skipa ytri nefndarmenn í hana.
Eina fastanefndin sem er pólitískt skipuð að meirihluta
Starfsmaðurinn heitir Guðrún Þorleifsdóttir og er skrifstofustjóri fjármálamarkaða í ráðuneytinu. Hún var skipuð í fjármálaeftirlitsnefnd af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra en ráðuneyti hans ber ábyrgð á hlutabréfum íslenska ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem og á sölumeðferð þeirra.
Sérstaða fjármálaeftirlitsefndar meðal hinna þriggja fastanefnda Seðlabanka Íslands er að fjármálaráðherra skipar meirihluti nefndarmanna.
Í tölvupóstinum frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að Guðrún hafi getað verið skipuð í fjármálaeftirlitsnefnd þar sem hún hafi ekki beina aðkomu að eignarhaldi og sölumeðferð hlutabréfa íslenska ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Enn fremur segir að talið hafi verið æskilegt að starfsmaður fjármálaráðuneytisins sæti í nefndinni. „Ráðuneytið vill af því tilefni árétta að við skipan í fjármálaeftirlitsnefnd er gætt að ákvæðum um að nefndarmenn megi ekki sinna störfum utan bankans sem geta verið til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Í ljósi þess að ráðherra er með lögum falin ábyrgð á málaflokknum sem hér um ræðir hefur verið talið æskilegt að starfsmaður ráðuneytisins sitji í nefndinni. Það er á þeim grundvelli sem Guðrún Þorleifsdóttir var skipuð, en hún hefur í starfi sínu ekki aðkomu að meðferð eignarhalds ríkisins á fjármálafyrirtækjum eða sölumeðferð fjármálafyrirtækja,“ segir fjármálaráðuneytið.
Nefndin metur Íslandsbankamálið án Guðrúnar
Fjármálaeftirlitsnefnd er æðsta stjórnvald fjármálaeftirlits á Íslandi. Nefndin hefur nú til meðferðar niðurstöðurnar úr rannsókn fjármálaeftilits Seðlabanka Íslands á Íslandsbanka vegna útboðs bankans á tæplega fjórðungs hlutar íslenska ríkisins í bankanum. Fjármálaeftirlitsnefnd mun líklega leggja sekt á Íslandsbanka vegna aðkomu hans að sölunni á hlutabréfum ríkisins í bankanum og eins ákveða hversu mikið verður greint frá málavöxtum rannsóknarinnar opinberlega. Bankinn hefur hingað til ekki viljað gefa upphæð sektarinnar upp. „Við höfum ekki gefið það upp. [...] Við erum bara ennþá að klára að afhenda gögn og bregðast við áliti eftirlitsins, koma að andmælum um alla þessa þætti,“ sagði Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, á fundi um ársuppgjör bankans með blaðamönnum á föstudaginn.
„Að hennar sögn mat hún aðstæður þannig að hæfi hennar yrði ekki hafið yfir vafa m.t.t. aðkomu ráðuneytisins að málinu, en málið hefði mikla sérstöðu.“
Það sem til rannsóknar er í Íslandsbankamálinu er meðal annars skilgreining bankans á fagfjárfestum í útboðinu á hlutabréfum ríkisins sem viðskipti starfsmanna hans sjálfs með bréfin, líkt og Heimildin greindi frá fyrir skömmu.
Samkvæmt tölvupósti fjármálaráðuneytisins þá hafa umræðurnar í fjármálaeftirlitsnefnd um Íslandsbankamálið hins vegar farið fram án þátttöku þessa starfsmanns ráðuneytisins. „Við þetta er að bæta að nefndarmenn meta hæfi sitt í hverju máli. Guðrún hefur upplýst ráðuneytið um að hún hafi ekki talið sig hæfa til að taka þátt í ákvörðunum í málum vegna sölumeðferðar á Íslandsbanka og því vikið sæti við meðferð nefndarinnar á málum tengdum sölumeðferðinni. Af því leiðir að hún hefur ekki getað haft áhrif á ákvarðanir nefndarinnar í þeim málum.“
Þegar ráðuneytið er spurt nánar að því hvað það er nákvæmlega sem gerir það að verkum að Guðrún telji sig vera vanhæfa í Íslandsbankamálinu segir í svari þess: „Að hennar sögn mat hún aðstæður þannig að hæfi hennar yrði ekki hafið yfir vafa m.t.t. aðkomu ráðuneytisins að málinu, en málið hefði mikla sérstöðu.“
Athugasemdir