Hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman um mánaðamót hefur ekki verið jafn hátt í sjö ár samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup um fjárhag heimila og fátækt. 18 prósent ná ekki endum saman. Hlutfall þeirra sem ná að safna sparifé er 58 prósent og hefur ekki mælst lægra síðan fyrir sex árum.
Frá hruni hefur fjárhagur heimilanna vænkast jafnt og þétt og var bestur fyrir tveimur árum, þegar samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs voru í gildi. Þá náðu nærri sjö af hverjum tíu heimilum að safna sparifé en sex prósent söfnuðu skuldum eða notuðu sparifé til að ná endum saman.
Nú fjölgar þeim aftur sem ekki ná endum saman og er nú jafn hátt og það var árið 2016. Átta prósent heimila safna skuldum og 10 prósent nota sparifé til að ná endum saman. Ríflega 32 prósent svarenda segja einhvern í fjölskyldu sinni búa við fátækt, annað hvort í nánustu fjölskyldu eða nánir ættingjar.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/U6D3D2Xo5V_g_730x5000_LKRg757c.jpg)
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins safna síst skuldum og leggja mest fyrir. Tíu prósent þeirra sem kysu Sjálfstæðisflokksins ef kosið yrði til Alþingis í dag safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman en 67 prósent geta safnað sparifé.
Kjósendur Flokks fólksins safna mestum skuldum og ná að leggja minnst fyrir. 34 prósent þeirra sem kysu Flokk fólksins ef kosið yrði til Alþingis í dag safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman en 35 prósent geta safnað sparifé. Þar á eftir koma þau sem myndu kjósa Sósíalistaflokkinn. 32 prósent þeirra safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman en rúmur helmingur, 51 prósent, getur safnað sparifé.
Fólk undir þrítugu nær helst að safna sparifé en fólk á milli þrítugs og fimmtugs nær því síst. Þau sem búa í leiguhúsnæði eru talsvert líklegri til að safna skuldum en þau sem búa í eigin húsnæði eða í foreldrahúsum. Einhleypir á aldrinum 35-66 ára virðast helst safna skuldum. Á eftir þeim kemur yngra fjölskyldufólk, á aldrinum 18-45 ára. Barnlaus pör og einhleypt fólk á aldrinum 18-34 ára nær helst að safna sparifé.
Niðurstöður þjóðarpúlsins eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 26. janúar til 6. febrúar. Heildarúrtaksstærð var 1.697 og þátttökuhlutfall var 49,4 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Athugasemdir