Íslandsbanki gerir ráð fyrir því að greiða stjórnvaldssekt vegna brota á lögum og reglum í tengslum við framkvæmd á sölu á 22,5 prósent hlut íslenskra ríkisins í bankanum sem fór fram í mars í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka sem birtur var í dag.
Þar segir að þótt fjárhæð mögulegrar stjórnvaldssektar hafi ekki verið ákveðin hafi bankinn metið möguleg fjárhagsleg áhrif hennar og „fært skuldbindingu vegna málsins byggða á innra mati.“ Íslandsbanki greinir þó ekki frá fjárhæð skuldbindingarinnar og ekki er hægt að lesa hana út úr rekstrarreikningi bankans.
Í skýringu með ársreikningnum er fjallað um frummat fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) á ætluðum brotum Íslandsbanka í söluferlinu, en Heimildin greindi frá því fyrir tæpum tveimur vikum að rannsókn þess hafi fyrst og fremst snúið að þátttöku starfsmanna bankans og tengdra aðila í útboði á bréfum í Íslandsbanka. Íslandsbanki fékk frummatið afhent fyrir áramót og sendi frá sér tilkynningu 9. janúar þar sem fram kom að bankinn hefði óskað einhliða eftir viðræðum við eftirlitið um að ljúka málinu með sátt.
Í ársreikningnum segir að Stjórnendur bankans taka frummat fjármálaeftirlitsins alvarlega. „Bankinn hefur sett fram hluta skýringa sinna og sjónarmiða við frummati FME og mun ljúka því fyrir miðjan febrúar og væntir viðbragða FME í kjölfar þess. Bankinn hefur þegar gert breytingar á innri reglum og ferlum í kjölfar útboðsins og mun halda slíkri vinnu áfram eftir því sem tilefni gefst til.“
Fengu að sækja um flokkun sem fagfjárfestar í söluferlinu
Hluturinn í Íslandsbanka var seldur í mars í fyrra í lokuðu útboði sem einungis þeir sem skilgreindir eru sem fagfjárfestar máttu taka þátt. Alls fengu 207 aðilar að kaupa. Af þeim voru átta starfsmenn Íslandsbanka, sem var einn söluráðgjafa íslenska ríkisins við framkvæmd útboðsins, eða makar þeirra. Bankinn hélt því fram í fjölmiðlum í apríl í fyrra að allir starfsmennirnir væru skilgreindir sem fagfjárfestar, sem var forsenda fyrir því að fá að kaupa. Við rannsókn fjármálaeftirlitsins hefur komið fram að Íslandsbanki hafi sjálfur skilgreint að minnsta kosti hluta þessara starfsmanna sem fagfjárfesta. Hann hefur þó ekki viljað svara því hversu margir fjárfestar fengu flokkun sem fagfjárfestar á þeim klukkutímum sem söluferlið stóð yfir.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið, sem birt var í nóvember, kom fram að fjárfestar, sem höfðu ekki verið í viðskiptum við Íslandsbanka fram að söludeginum, hafi haft möguleika á að sækja um og eftir atvikum fá flokkun hjá honum sem hæfir fjárfestar meðan á sölunni stóð. Í skýrslunni segir: „Að auki var horft til fullyrðinga frá fjárfestunum sjálfum um að þeir teldust hæfir fjárfestar en bankinn þurfti að meta upplýsingar þess efnis sjálfstætt.“
Í skýrslunni segir enn fremur að Bankasýslan hafi metið það svo að regluverk fjármálamarkaðarins væri með þeim hætti að slíkar innri reglur umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila kæmu í veg fyrir hagsmunaárekstra í sölunni. „Ljóst er að innri reglur Íslandsbanka komu ekki í veg fyrir slíkt.“
Keyptu fyrir lágar upphæðir
Í frétt Heimildarinnar frá 27. janúar kom fram að sjaldgæft væri að fjármálaeftirlitið fari í eins stóra samtímarannsókn á máli sem tengist starfsemi banka. Fjölmargar ítarlegar rannsóknir á meintum fjármálaglæpum voru gerðar hér á landi eftir hrunið 2008 en þær snerust flestar um mál sem orðin voru nokkurra ára gömul. Rannsóknin á útboðinu í Íslandsbanka er því án hliðstæðu hér á landi á síðustu árum.
Miðað við það sem fyrir liggur að er undir í rannsókn fjármálaeftirlitsins þá er alls ekki ljóst að það hafi verið rétt mat hjá Íslandsbanka að skilgreina ætti alla þessa starfsmenn sem fagfjárfesta. Komið hefur fram að einstaka starfsmenn bankans hafi keypt hlutabréf í útboðinu fyrir tiltölulega lágar upphæðir, nokkrar milljónir króna. Það bendir til þess að Íslandsbanki og starfsmenn hans hafi gengið út frá því að listinn með kaupendum hlutabréfanna yrði ekki opinber, eins og síðar varð raunin. Komið hefur fram opinberlega að bankinn hafi vitað um þátttöku starfsmanna sinna í útboðinu þannig að hlutabréfakaupin áttu sér stað með vitund og vilja stjórnenda Íslandsbanka.
Hræðast opinberun
Í sömu umfjöllun kom fram að það er Íslandsbanki, ekki starfsmennirnir sem keyptu, sem Fjármálaeftirlitið rannsakaði, og er nú í viðræðum við um hversu háa sekt hann eigi að greiða vegna málsins. Ákvörðun um sektina, og eins hvernig greint verður frá rannsókninni opinberlega, er á hendi fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er það þó ekki möguleg fjársekt, eða upphæð hennar, sem Íslandsbanki hræðist mest í málinu heldur að fjármálaeftirlitið muni birta ítarlega skýrslu eða greinargerð með rannsóknarniðurstöðum sínum.
Í slíkri skýrslu yrði atburðarásin í málinu teiknuð upp frá A til Ö og sýnt fram á með hvaða hætti Íslandsbanki er talinn hafa brotið lög og reglur. Birting slíkra upplýsinga gæti haft í för með sér orðsporsáhættu fyrir bankann og ýtt undir enn gagnrýnni umræðu um ábyrgð hans og einstakra stjórnenda.
Vaxtatekjur jukust um 27 prósent
Rekstur Íslandsbanka gekk vel á síðasta ári og hagnaður hans var 24,5 milljarðar króna. Það er um 800 milljón króna meiri hagnaður en rekstur bankans skilaði ári áður. Arðsemi eiginfjár dróst hins vegar saman, úr 12,3 prósent árið 2021 í 11,8 prósent í fyrra.
Stærsta tekjulindin voru vaxtagjöld sem skiluðu 43,1 milljarði króna í kassann á árinu 2022 og hækkuðu um 26,7 prósent á árinu. Sú hækkun skýrist af hærra vaxtaumhverfi annars vegar og auknum inn- og útlánum hins vegar. Vaxtamunur Íslandsbanka hækkaði úr 2,4 prósent árið 2021 í 2,7 prósent í fyrra þegar allt árið er tekið með í reikninginn. Ef horft er einvörðungu á vaxtamun á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var hann 3,1 prósent.
Hreinar þóknanatekjur jukust líka, alls um 9,4 prósent milli ára, og voru 14,1 milljarðar króna á árinu 2022.
Stjórn Íslandsbanka mun leggja til að 12,3 milljarðar króna verði greiddir í arð til hluthafa vegna frammistöðu síðasta árs, eða um helmingur hagnaðar bankans á árinu 2022. Stærsti eigandi Íslandsbanka er íslenska ríkið með 42,5 prósent eignarhlut. Gert er ráð fyrir því í fjárlögum að sá hlutur verði seldur í ár en það verður þó ekki endanlega ákveðið fyrr en niðurstaða í rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á síðasta söluferli í bankanum liggur fyrir.
Nýverið var greint frá því að stjórn Kviku hefði óskað eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja viðræður um samruna bankanna tveggja. Stjórn Íslandsbanka samþykkti að hefja viðræður á fundi sínum í dag.
Báðir bankarnir eru skráðir á hlutabréfamarkað, en Íslandsbanki er miklu stærri en Kvika banki. Virði beggja hefur tekið stökk upp á við eftir að greint var frá beiðninni um samrunaviðræður.
Markaðsvirði Íslandsbanka er nú 257,2 milljarðar króna á meðan að markaðsvirði Kviku banka er um 99,2 milljarðar króna.
Athugasemdir (6)