Í skýrslu sem Alþjóðabankinn gaf út í síðasta mánuði kom fram að hagvöxtur á heimsvísu muni hægja verulega á sér á þessu ári. Raunar verði hann sá þriðji minnsti í næstum þrjá áratugi. Einu árin sem komi verr út séu 2009, í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar, og 2020, þegar kórónuveirufaraldurinn skall á heiminum í upphafi árs.
Þennan samdrátt má rekja til meira aðhalds í ríkisrekstri, hárrar verðbólgu, versnandi fjármögnunarskilyrða á heimsvísu og áframhaldandi truflunum á heimsbúskapinn vegna áhrifa af innrás Rússa í Úkraínu. Þá er varað við að frekari áföll á árinu 2023 geti ýkt samdráttinn enn frekar.
Í skýrslunni segir að lítil ríki séu sérstaklega viðkvæm fyrir slíkum áföllum vegna þess að þau treysta á utanríkisviðskipti og aðgengi að skaplega verðlagðri alþjóðlegri fjármögnun, hvíla á fáum efnahagslegum stoðum og með frekar einsleitt atvinnulíf, skuldir þeirra hafa verið að aukast og þau eru afar næm fyrir áhrifum af náttúruhamförum.
Eitt slíkt lítið land er Ísland.
Mörg hundruð milljarða króna halli
Íslenska ríkið hefur verið rekið í miklum halla á undanförnum árum. Alls var afkoma ríkissjóðs neikvæð um 274 milljarða króna á árunum 2020 og 2021, þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði með tilheyrandi áhrifum á efnahagskerfi landsins. Þegar frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram í nóvember í fyrra kom fram að það stefndi í að hallinn vegna ársins 2022 yrði 126 milljarðar króna. Í afgreiddu fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs kemur fram að hann sé 120 milljarðar króna á árinu 2023. Til viðbótar reikna fjárlög með því að hlutur íslenska ríkisins í Íslandsbanka verði seldur fyrir 76 milljarða króna í ár, sem er alls ekki fyrirliggjandi að gerist. Verði ekki af þeirri sölu þarf að fjármagna skuldbindingar upp á þá upphæð með nýrri lántöku.
Þessi mikli halli hefur eðlilega mikil og neikvæð áhrif á skuldastöðu íslenska ríkisins. Hluti af þeirri stöðu var mætt með því að taka 190 milljarða króna lán úr hinum umdeilda ÍL-sjóði á árunum 2020 og 2021, en fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með stjórn sjóðsins. Þau lán bera verðtryggða vexti sem bíta fast í hárri verðbólgu líkt og nú er, en verðbólga mælist 9,9 prósent um þessar mundir. Ríkissjóður þarf að byrja endurgreiðslu þeirra lána á árinu 2026. Þótt ÍL-sjóður sé með ríkisábyrgð, og ríkissjóður sé helsti skuldari hans, eru skuldir hans ekki taldar með þegar skuldahlutfall ríkissjóðs er reiknað út. Fyrir vikið lítur það betur út en ella.
Um 155 milljarða króna lánsþörf á árinu 2023
Í lok síðasta árs birti fjármála- og efnahagsráðuneytið stefnu í lánamálum og fjármögnun ríkissjóðs á árinu 2023. Þar kom fram að lánsþörf í ár er 155 milljarðar króna. Samkvæmt skuldareglu mega heildarskuldir ríkissjóðs, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, ekki fara yfir 30 prósent af vergri landsframleiðslu. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var sú skuldaregla, sem sett er fram í lögum um opinber fjármál, tekin úr sambandi og skuldir ríkissjóðs hafa verið yfir því marki síðan 2019. Þegar með eru taldar skuldir A-hluta sveitarfélaga þá eru skuldir hins opinbera á Íslandi yfir meðallagi í samanburði við önnur Evrópuríki.
Í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem kynnt var fyrir fjárlaganefnd snemma árs, kom fram að 16 ríki innan Evrópusambandsins væru með lægra skuldahlutfall en Ísland, en tíu með hærra.
Stærsta vandamálið sem ríkissjóður stendur frammi fyrir er þó ekki vaxandi skuldir, heldur stóraukinn vaxtakostnaður. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hefur hækkað hratt undanfarin tvö ár, sem hefur leitt af sér miklar hækkanir á vaxtagjöldum. Þannig er ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa nú rúmlega tvöfalt hærri en hún var lengst af árið 2020. Fyrir vikið er mun dýrara að taka lán.
Einungis Ítalía borgar hærri vaxtagjöld
Ofan á það er hlutur verðtryggðra lána að jafnaði 20 til 30 prósent af lánasafni ríkissjóðs. Í næstum tíu prósent verðbólgu stóreykst hlutur verðbóta. Fyrir vikið eru vaxtagjöld ríkissjóðs Íslands í erlendum samanburði verulega há. Í glæru sem birt var í áðurnefndri kynningu kom fram að í samanburði við Evrópusambandsríkin séu vaxtagjöld Íslands þau næsthæstu. Einungis Ítalía greiði hærri vaxtagjöld sem hlutfall af landsframleiðslu á ári. Ísland greiðir meira en Grikkland, sem er ekki þekkt fyrir góða stöðu þegar kemur að opinberum fjármálum. Vaxtabyrði Norðurlanda er til að mynda brot af því sem hún er á Íslandi.
Til að setja þessa þróun í samhengi þá má benda á að þegar fjáraukalög síðasta árs voru samþykkt lá fyrir að auka þurfti útgjöld ríkissjóðs vegna vaxtakostnaðar um 37 milljarða króna frá því sem áætlað hafði verið í fjárlögum sama árs. Heildartalan fór úr 51,7 í 88,7 milljarða króna.
Samkvæmt fjárlögum ársins 2023 eru vaxtagjöld ríkissjóðs áætluð 94,7 milljarðar króna í ár. Þau hækkuðu um 13,6 milljarða króna frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í september 2022 og þar til lokaafurðin var samþykkt í desember sama ár.
hvernig væri að við tækjum landhelgina aftur og skattleggjum þá ríku....er eðlilegt að fyrirtæki sem lifa á þjóðareign séu að borga sér milljarða í arð ....takið eftir ekki milljónir ... heldur MILLJARÐA... til skammar ... af hverju fórum við í þrjú þorskastríð... ?
Já af hverju ...?