Fyrir 69 árum fæddist ég inn í þetta jarðlíf á heimili móðurforeldra minna, þegar sólin var í merki vatnsbera og mána í merki vogar, en í Kína var þá ári vatnasnáksins að ljúka. Eins og til að staðfesta það var ég með vatnasnák okkar mömmu, naflastrenginn, þétt vafinn um háls og andlit og er enn með bláleitt merki hans á nefinu. Ljósmóður og lækni tókst þó að losa um hengingarólina og blása í mig líf, sem hefur enst í öll þessi ár.
Þótt vatnið sé í stjörnunum mínum, og snákurinn elski að kafa á dýptina, þá er vatnsberinn loftmerki og ég fór snemma á flug í draumi og vöku, með tveimur jafnsterkum vængjum en gjörólíkum.
Mamma, Kristjana, var komin af fátæku verkafólki en pabbi, Bjarni, af vel stæðri borgarafjölskyldu. Mamma hafði ellefu ára gömul misst tvær systur og tvo bræður úr berklum og tvo aðra bræður úr öðrum sjúkdómum sem á þeim tíma tóku sinn toll. Eftir voru mamma, sem var yngst, og Guðríður, sem sigraði berklana, og þær gáfu foreldrum sínum hvor sitt barnabarnið, stúlku og dreng. Systurnar sem létust tíu árum áður en ég fæddist hétu Valgerður og Hjördís og ég erfði nöfnin þeirra.
Pabbi átti tvær systur og fjóra bræður og þau voru öll lifandi og frísk þegar ég var að alast upp, sum bara nokkrum árum eldri en ég. Þar lék allt í lyndi og á sumrin vorum við stórfjölskyldan, föðursystkini mín, vinir, makar og barnabörn afa og ömmu meira og minna í paradísinni okkar, Sellandi í Fnjóskadal, þar sem frelsið, tengslin við náttúruna, tré og dýr, sögur og ævintýri voru allsráðandi. Og þess sælureitar nýt ég enn. Þvílík gæfa!
Í fjölskyldu pabba fékk ég auk þess innsýn í stóra heiminn, listirnar og söguna, las Sígildar sögur og þykkar bækur um framandi þjóðir, trúarbrögð og menningu, himingeiminn og heimspeki. Í fjölskyldu mömmu, í fangi ömmu Elínar, heyrði ég sögur um lífið og dauðann, sorgir og gleði, álfa og engla, Jesúm og Maríu og lærði bænir og ljóð sem voru besta svefnmeðalið ef eitthvað bjátaði á. Ég lærði líka að hlusta eftir draumunum, sem æ síðan eru mínir bestu leiðbeinendur. Í báðum þessum „húsum“ lærði ég um ást og virðingu milli kvenna og karla og var sjálf umvafin skilyrðislausri ást og umhyggju. Þar voru sterkar, tilfinningaríkar, drífandi og ákveðnar konur með hugsjónir og brostnar vonir, og ljúfir, hugmyndaríkir, dugmiklir og skemmtilegir hjartans menn, sem héldu erfiðu tilfinningum sínum í böndum.
Þetta var mögnuð blanda, tveir sterkir en gjörólíkir vængir til að svífa á inn í fullorðinsheiminn. Þegar sá heimur mætti mér áttaði ég mig í fyrsta sinn á því að ég væri fædd inn í feðraveldi. Veldi karla, þar sem konur máttu sín lítils. En með þessa vængi og fiman snákinn fannst mér að allir vegir væru mér færir og byrjaði fljótt að reyna að brjóta múra og ögra þeim viðmiðum sem mættu mér í námi, í starfi og í einkalífinu. Mig langaði að verða leikkona, fornleifafræðingur og sálfræðingur, ég flaug um heiminn og prófaði eitt og annað, en lauk að lokum félagsráðgjöf í Noregi og flaug svo heim.
Þegar Satúrnus hafði farið einn hring um sólu frá fæðingu minni, í kringum 28 ára aldurinn, ákvað ég að leggja af stað í hetjuferð, þótt það væri að miklu leyti ómeðvitað. Ég fór í kvennaframboð og var lýst sem „voldugustu konu Akureyrar fyrr og síðar“ af karlkyns bæjarfulltrúa og þessi yfirlýsing hans rataði í blöðin. Það varði þó ekki lengi, því stuttu síðar var ég samtímis að njóta mestu sælu og bjó við mesta ótta lífs míns fyrr og síðar. Ég eignaðist dóttur mína, Sunnu, tæpu ári eftir að ég tók við embætti forseta bæjarstjórnar, og hún var án efa dýrmætasta gjöfin sem lífið gat fært mér. En barnsfaðir minn var brotinn maður, sonur kúgandi feðraveldisins, og brást við vanmætti sínum og ótta með ofbeldi gagnvart konu og börnum. Hann var skapandi, hugsandi og elskaði mig og börnin sín og við hann, en óttinn hans var ástinni yfirsterkari. Ofbeldið náði næstum að klippa af mér vængina, eins og gert var við Dísu ljósálf, en ekki alveg. Vængbrotin flögraði ég á brott með dóttur mína undir öðrum vængnum, eftir tveggja ára sambúð. Með ómetanlegri hjálp góðra vina og fjölskyldu náðu sárin að gróa og ég náði fluginu á ný. Barnið undir vængnum gaf mér svo síðar aðra ómetanlega gjöf í dóttursyni mínum, Úlfi Bjarna, sem er að taka skrefin í átt að fullorðinsárum og er sami skemmtilegi og skapandi hjartans maður og langafi hans og nafni. Að fá að njóta þess að vera móðir og amma þessa fólks eru mestu gjafir lífsins ... og lærdómar.
En fleiri lærdóma er ég þakklát fyrir því ég hef svo sannarlega fengið að nota vængina mína og kafa í hyldjúpt vatnið. Upplifa sorgir og gleði, ástir og átök, uppgjöf og upprisu, hring eftir hring. Með sálusystur minni, Karólínu, óf ég Lífsvefinn út frá eigin lífsins lærdómum, námskeið fyrir konur með laskaða vængi, sem þurfa á því að halda að finna hetjuna hið innra og ytra í heimi feðraveldisins. Og eftir að hún dró sig í hlé og kvaddi svo þetta jarðlíf, hef ég haldið áfram að vefa nýja vefi um drauma, hetjuferðir og helg hjónabönd, með kærum systrum í skapandi tengslum. Ég hef fundið rótfestu í stórbrotinni sögu kvenna, allt aftur til fornsteinaldar. Ég hef fundið minn lífstilgang og leið, sem er ekki hefðbundin, en gefur mér tækifæri og rými til að nýta vængina, vatnið og ræturnar, vera þannig í jafnvægi og vonandi skapa rými, jarðveg og farveg fyrir aðrar leitandi konur og karla til að finna sína rótfestu, ná sundtökunum og styrkja og heila sína vængi.
Ég reyni hvern dag að glæða vonina um að við getum átt okkur framtíð í menningu sem ber virðingu fyrir öllu lífi, fyrir Móður náttúru.
Menningu sem byggir á virðingu fyrir eiginleikum allra kynja; fyrir ljósi og myrkri og öllum blæbrigðunum þar á milli; því lága og djúpa jafnt sem háa og víða; öllum lífsvefnum. Og ég vinn áfram að því að heila öll þau rof og losa um þær flækjur sem eru forritaðar í mig af þúsunda ára kúgandi feðraveldi og taka þau skref sem mér er unnt í því að breyta í samræmi við þennan lífstilgang. Og svo kemur nýr hringur með nýjum lærdómum.
Athugasemdir (3)