Vilhjálmur Birgisson verkalýðsfrömuður á það nú sameiginlegt með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að hafa þráfaldlega reynt að hafa æruna af Stefáni Ólafssyni fyrrverandi prófessor við HÍ. Eini munurinn er sá að Hannes Hólmsteinn var í þeim tilraunum sínum kostaður af fjármálaráðuneytinu undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.
Hörundsærindi Vilhjálms gagnvart röksemdum Stefáns um kjarabaráttu Eflingarfólks eru ekki hér til umfjöllunar heldur tilraunir íslenska „Sjálfstæðisflokks“-auðræðisins í boði VG og Framsóknarflokks til þess að hafa verkfallsréttinn af venjulegu launafólki og draga úr úr því tennurnar.
Tómlætið gagnvart grundvallarretti
Bæði Ásmundur Stefánsson fyrrverandi forseti ASÍ og Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins hafa undirstrikað opinberlega að ríkissáttasemjari sé í fullum lagalegum rétti til þess að leggja fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og atvinnurekenda.
En deilan snýst ekki um heimildir ríkissáttasemjara heldur verkfallsréttinn sjálfan sem með lævíslegum hætti hefur verið skertur á Íslandi.
Verkfallsrétturinn á stoð í ákvæði stjórnarskrár um félagafrelsi, en aðallega þó í almennum lögum. Á bóluárunum kom upp hreyfing meðal kapitalista víða um lönd um að skerða verkfallsréttinn. Þeirri atlögu var að mestu hrundið en þó tókst á Íslandi, fyrir atbeina helmingaskiptastjórnar Davíð Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, að setja í lög kröfur um þátttöku í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu, sem gerðu það nánast ómögulegt að fella slíka tillögu. Ísland er bundið af alþjóðasamningum sem innihalda ekki slíka útþynningu á mannréttindum. Hér má nefna að samningurinn við Vilhjálm Birgisson (SGS), þar sem einungis 16% tóku þátt, hefði talist fallinn ef menn hefðu kallað hann miðlunartillögu.
Sáttasemjari er starfsmaður ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin ber ábyrgð á gjörðum hans. Miðlunartillaga hans miðlar engu, eins og lögin krefjast að hún geri. Efnislega er hún það sem Vilhjálmur og félagar hans kyngdu og vinnuveitendur hafa krafist frá upphafi. Lögin gera kröfu um að sáttasemjari sé hlutlaus, sem hann er ljóslega ekki. Þrátt fyrir þessa stöðu er greinilegt að elítan á Íslandi reiknar með að dómstólar makki rétt og láglaunafólkið verði barið niður.
Þeir sem ekki láta sannfærast við þennan lestur ættu að hafa eftirfarandi á bak við eyrað:
Ásmundur og Guðmundur fara rétt með að sáttasemjari hefur óumdeilda heimild til þess að leggja fram miðlunartillögu. Hins vegar segir í 27. gr. laga 80/1938 : „Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu“.
28. gr. laganna , sem fjallar um tvö eða fleiri félög í kjaradeilu, á vel við um Eflingu sem er samsafn margra stéttarfélaga. Þarna eru mun ítarlegri ákvæði um samráð svo sem í í e-lið greinarinnar :
„aðilum vinnudeilu ( skal hafa) gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu“.
Hér kemur skýrt fram að ætlast er til að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram innan verkalýðsfélagsins eins og eðlilegt má telja.
Snýst um verkfallsréttinn sjálfan
Kjarni deilu Eflingar og atvinnurekenda er sjálfur verkfallsrétturinn. Sáttasemjari og ríkisstjórn og jafnvel sumir fjölmiðlar reyna að koma í veg fyrir að Efling fái að nota þann rétt sem félagið á samkvæmt félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar til þess að framfylgja kaupkröfum sínum með verkfalli. Þessi heimild er lögfest í 14. grein laganna. Í 15. gr. (2. m.gr.) er heimild til þess að láta verkfall ná aðeins til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsemi á tilgreindum vinnustað.
Staða Eflingar í dómsmálum vegna deilunnar ætti að vera mjög góð. Ef íslenskir dómstólar fara út á þá braut að dæma verkfallsréttinn af fólki stendur eftir sú gamla spurning með hvaða hætti rikisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli að þvinga fólk til vinnu. Á að senda lögregluna á verkalýðinn? Rétt eins og Samherji sendi lögregluna á óþekka blaðamenn?
Kapítalistar fyrri ára höfðu ekki bolmagn til annars en að samþykkja verkfallsréttinn sem hefur lymskulega verið útþynntur á Íslandi. Einmitt með þeim hætti hefur auðræði Sjálfstæðisflokksins náð undirtökum á þjóðfélaginu með stuðningi VG og Framsóknarflokksins. En það vita menn eins og Vilhjálmur Birgisson ekki og sýnir þessu auðræði undirlægjuhátt og auðsveipni og leggur út smjörklípu með skömmum í garð Stefáns Ólafssonar sem rökstyður augljós og eðlileg baráttumál Eflingar.
Athugasemdir (4)