Landsbankinn, sem er í eigu ríkissjóðs, hagnaðist um 17 milljarða króna á árinu 2022. Það er tólf milljörðum króna minna en bankinn hagnaðist um árið áður. Arðsemi eigin fjár bankans var 6,3 prósent í fyrra, sem er langt undir því tíu prósent markmiði sem Landsbankinn hefur sett sér. Það er mikill viðsnúningur á arðsemi milli ára, en bankinn náði að vera með 10,8 prósent arðsemi árið 2021.
Mikill samdráttur verður í arðgreiðslum til ríkissjóðs. Bankinn greiddi 20,5 milljarða króna í arð vegna rekstrarársins 2021 en nú er lagt til að aðalfundur samþykkti að greiða út 8,5 milljarða króna vegna síðasta rekstrarárs. Verði tillagan samþykkt munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013-2023 samtals nema 175,2 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi Landsbankans sem var birtur í dag.
Stærsta ástæðan fyrir samdrætti í hagnaði er einföld: gangvirði hlutabréfaeignar hans dróst verulega saman.
Landsbankinn á miklu meira af hlutabréfum en hinir tveir stóru bankarnir. Þau hlutabréf hækkuðu mikið í verði á árinu 2021, sem hafði jákvæð áhrif á uppgjör bankans. Í fyrra lækkuðu þau hins vegar umtalsvert, og það hafði verulega neikvæð áhrif. Nánar tiltekið nam tapið vegna þeirra um átta milljörðum króna á árinu 2022, en hagnaðurinn á árinum 2021 var um sex milljarðar króna.
Þar vegur þyngst lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest hf. sem nemur 10,5 milljörðum króna í fyrra. Landsbankinn á 14,1 prósent í Eyri Invest, sem er langstærsti eigandi Marel.
Markaðsvirði Marel lækkaði um 43,9 prósent á síðasta ári, úr 663,5 milljörðum króna í tæplega 367 milljarða króna.
Vaxtamunur 2,7 prósent
Grunnrekstur Landsbankans var hins vegar í miklum vexti á síðasta ári. Tekjumódel íslenskra banka byggir helst á tvenns konar tekjum: vaxtatekjum sem byggja á muninum á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni, og þóknanatekjum fyrir t.d. eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf.
Vaxtamunur var 2,7 prósent hjá Landsbankanum sem skilaði honum 46,5 milljörðum króna í hreinar vaxtatekjur. Það er 87 prósent af öllum rekstrartekjum hans. Um er að ræða mun hærri upphæð og bankinn hafði í vaxtatekjur á árunum 2020 og 2021, þegar þær voru 38 til 39 milljarðar króna. Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði, sem er að uppistöðu tilkomin vegna íbúðalána, var 40,1 prósent í lok síðasta árs. Hún jókst milli ára og hefur aldrei verið hærri. Alls jukust íbúðalán bankans um 59 milljarða króna á síðasta ári.
Töluverð aukning var líka í útlánum til fyrirtækja en jukust þau um 92,0 milljarða króna sem jafngildir um 10 prósent vexti þegar tekið hefur verið tillit til gengisáhrifa. Landsbankinn er umsvifamesti bankinn í útlánum til fyrirtækja með um 40 prósent hlutdeild í fyrirtækjalánum.
Í tilkynningu vegna uppgjörsins er sérstaklega tiltekið að bankinn hafi lánað mikið til byggingarverkefna á árinu þótt heildarútlán til greinarinnar hafi ekki hækkað að sama skapi þar sem sala eigna hefði gengið vel og uppgreiðslur því hraðar. „Okkur telst til að á síðasta ári höfum við fjármagnað um 4.300 íbúðir í 142 byggingarverkefnum. Við höfum stutt vel við íbúðauppbyggingu en undanfarið höfum við að jafnaði lánað um 36 milljarða króna til byggingarverkefna á hverju ári.“
Kostnaðarhlutfallið jókst
Landsbankinn bætti líka við sig í þjónustutekjum, en þær voru samtals 10,6 milljarðar króna í fyrra, rúmlega 1,1 milljarði króna meira en ári áður.
Kostnaðarhlutfall Landsbankans, sem mælir hvað kostnaður er stór hluti af tekjum, var 46,8 prósent í fyrra en hafði verið 43,2 prósent árið áður. Það hækkaði því umtalsvert. Einfaldasta leiðin til að ná kostnaðarhlutfalli niður er að fækka starfsfólki.
Eignir Landsbankans voru 1.787 milljarðar króna um síðustu áramót og efnahagsreikningurinn stækkaði um 3,3 prósent á árinu 2022. Eigið fé bankans var 279,1 milljarðar króna í lok síðasta árs og lækkaði um 3,5 milljarða króna milli ára. og eiginfjárhlutfallið 24,7 prósent.
Athugasemdir