Lestur prentútgáfu Fréttablaðsins hrundi í janúarmánuði, í kjölfar þess að sú ákvörðun var tekin að hætta að dreifa blaðinu í hús á höfuðborgarsvæðinu og gera það í staðinn aðgengilegt á fjölförnum stöðum á borð við matvöruverslanir, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar.
Þetta má lesa úr nýbirtum tölum Gallup um lestur prentmiðla í janúarmánuði, en Fréttablaðið, sem var lesið af 28,2 prósentum landsmanna í desembe, var lesið af 15,7 prósentum landsmanna í janúarmánuði samkvæmt nýjustu mælingum.
Ef einungis er horft til höfuðborgarsvæðisins rúmlega helmingaðist lestur Fréttablaðsins í janúarmánuði og fór úr 34,6 prósenta meðallestri niður í 17,2 prósenta meðallestur á hvert tölublað.
Ef horft er til aldurshópsins 18-49 ára á landinu öllu fór lestur blaðsins úr 17,4 prósentum niður í 8,1 prósent á milli mánaða og ef horft er til þessa aldurshóps á höfuðborgarsvæðinu fór lestur blaðsins úr 23,4 prósentum niður í 9,1 prósent.
Mogginn meira lesinn í öllum hópum
Þetta hrun í lestri Fréttablaðsins þýðir að blaðið getur í fyrsta sinn í langan tíma ekki státað sig af því að vera mest lesna dagblað landsins. Morgunblaðið er með meiri meðallestur á tölublað í öllum hópum sem Gallup tekur til skoðunar í lestrarmælingum sínum.
Þegar horft er yfir landið allt og alla aldurshópa er meðallestur Morgunblaðsins 18,9 prósent, á höfuðborgarsvæðinu 19,9 prósent, en þegar horft er til aldurshópsins 18-49 ára er meðallesturinn 8,8 prósent á landinu öllu og 9,8 prósent í þeim aldurshópi á höfuðborgarsvæðinu.
Forstjórinn sagðist ekki búast við neinum breytingum á lestri
Í frétt sem birtist í Fréttablaðinu í upphafi ársins var tilkynnt um breytta dreifingu og þar var þess sérstaklega getið að ekki væri búist við því að lestur blaðsins kæmi til með að dragast saman.
„Þetta er einstök staða á heimsvísu,“ sagði Jón Þórisson forstjóri Torgs um 28 prósenta lestur blaðsins á landsvísu og 35 prósenta lestur blaðsins á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt könnunum Gallup.
„Lesturinn hefur vaxið undanfarna mánuði í kjölfar þess að við hófum að dreifa blaðinu á fjölförnum stöðum. Það er engin ástæða til að ætla annað en lesturinn gæti orðið að minnsta kosti sambærilegur eftir þessa breytingu. Þessi breytta dreifing tryggir snertiflöt við yfir 85 prósent landsmanna,“ var haft eftir Jóni í blaðinu.
Gallup mælir einnig meðallestur Viðskiptablaðsins, sem kemur út vikulega til áskrifanda, en lestur blaðsins mældist 5 prósent á landsvísu og 5,8 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrirtækið mælir einnig lestur prentmiðla sem koma sjaldnar út og mældist lestur prentútgáfu Heimildarinnar, sem kemur út á tveggja vikna fresti, 8,5 prósent á landinu öllu og 9,9 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki liggja fyrir lestrartölur fyrir Bændablaðið í janúar, en lestur blaðsins, sem kemur út hálfsmánaðarlega, mældist 26 prósent á landinu öllu í desember og 19,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Í Prentmiðlakönnun Gallup er lestur dagblaða mældur með samfelldum hætti allt árið, en um 30 svörum er safnað á hverjum degi sem þýðir að svörin eru um 2.500 talsins á hverjum ársfjórðungi. Í úrtakinu eru Íslendingar á aldrinum 12-80 ára af landinu öllu.
Athugasemdir