Enn á ný hefur umræðan um myglugróður og meðfylgjandi sjúkdóma hafist. Nú sem oft áður kallaði Ólafur Wallevik prófessor hjá Háskólanum í Reykjavík til málþings, þar var Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur var heiðraður og fleiri kunnáttumenn á þessu sviði mættu. Ríkharður hefur gegn um tíðina látið sig þetta byggingarvandamál miklu skipta og unnið að vörnum gegn því.
Steypan og vatnið
Ég skrifaði grein í Kjarnann 12. febrúar 2020 um mína sýn á málinu, sem ég nefndi: „Hvað veldur raka og myglu í íslenskum húsum“? Þar sem ég hafði starfað við framleiðslu sements og unnið ásamt Ríkharði o.fl. fyrir Steinsteypunefnd ( StN ) hjá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins ( RB ), þá skoðaði ég málið aðallega út frá steinsteypta útveggnum í byggingum. Í stuttu máli var niðurstaða mín, eftir að hafa skoðað rannsóknarskýrslur StN sú, að íslensk steypa í húsum með steypuskemmdir hefði hærra rakainnihald en æskilegt er, - sem leiddi til bæði frost- og alkalískemmda. Einnig taldi ég að raki á yfirborði útveggja innanhúss væri að megninu til ekki af völdum hitabreytinga og þéttingar, heldur eingöngu vegna leka ( þak, gluggar ), leka frá vatnslögnum eða ísogi vatns gegnum steypta vegginn af völdum hárpípuísogs ( kapilar- ísog ). Þessi skoðun var studd af meistaraverkefni tveggja íslenskra verkfræðinga við háskólann í Stokkhólmi árið 2018.
Til þess að komast hjá myglumyndun þarf aðeins að gera húsin lekalaus, þ.e. sjá um að enginn raki komist vegna regnveðurs inn í þau. Flest bendir til þess að húseigendur geri ekkert í þessu máli fyrr en myglumyndunin er hafin. Hér verður hins vegar að beita forvörn, koma í veg fyrir vatnslekann. Herða verður allt byggingaeftirlit, því hægt er að koma í veg fyrir að hús leki. Það verður aftur á móti ekki gert með því að hætta að stunda byggingarannsóknir og leggja viðkomandi stofnanir niður eins og skeð hefur með Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar eru stjórnmálamenn á villigötum. Byggingarannsóknir eru óvíða eins nauðsynlegar og á stað með slíku veðurfari og er á Íslandi. Gagnvart mygluvandamálinu mætti þá gjarnan nota sömu aðferð og þegar Steinsteypunefndin var stofnuð á sínum tíma og þá verður að tryggja að hönnuðir og byggingarverktakar eigi virka fulltrúa í þeirri nefnd.
Brotthvarf opinberra byggingarannsókna yfir til einkaaðila er varhugaverð þróun eins og Ríkharður talaði um á framangreindu málþingi. Það á líka sérstaklega við í svo litlu samfélagi og það íslenska er. Rannsóknir á byggingum í dag þarfnast mikils af tækjum og mannskap og eru kostnaðarsamar.
Tæknilegir innviðir
Fyrir 50 árum síðan voru stofnanir hins opinbera, sem sáu um innviði landsins og framkvæmdir á þeirra vegum stjórnað af tæknimenntuðum framkvæmdastjórum, sérstaklega verkfræðingum. Þeir báru gjarnan starfsheiti, sem endaði á stjóri t.d. vegamálastjóri, vita- og hafnamálastjóri o.s.frv. Í dag er lítil áhersla lögð á verk og tækniþekkingu í stjórnun tæknilegrar innviðauppbyggingar. Ríkharður minntist á þessa varhugaverðu þróun á málþinginu. Mér til ánægju, því að ég hafði lengi fylgst með henni og fannst hún sömuleiðis lítt heillavænleg.
Uppbygging á grunni þekkingar og reynslu
Er ég kom heim frá námi og hóf störf hjá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins ( RB ) var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, sem stofnunin heyrði undir, Steingrímur Hermannsson rafmagnsverkfræðingur og síðar ráðherra. Ráðuneytið sem RB heyrði undir var Iðnaðarráðuneytið. Ráðuneytisstjórinn þar var Árni Snævarr byggingarverkfræðingur. RB hóf störf árið 1965, framkvæmdastjórinn var Haraldur Ásgeirsson efnaverkfræðingur, sérfræðingur á sviði sementsframleiðslu. Auk hans voru þá þrír verkfræðingar allir með doktorsgráðu, einn jarðfræðingur og tveir aðstoðarmenn. Samskipti rannsóknastofnana á þessum árum við framkvæmdastofnanir hins opinbera einkenndust þá meira af tæknilausnum vandamála en fjárhagslegum- eða pólitískum- lausnum. Mitt fyrsta verkefni hjá RB var að bæta viðloðun vegaolíu við gerð olíumalar á vegi. Síðar kom í heimsókn á RB Vita-og hafnamálastjóri, Aðalsteinn Júlíusson byggingarverkfræðingur, Hann hafði áhyggjur af íslenska sementinu, vegna tæknilegra gæða þess. Nefndi hann þar helst lítinn brotstyrk en einnig hátt efnainnihald af alkalímálmum, sem gætu valdið svonefndum alkalískemmdum í steypu vatnamannvirkja svo sem hafnarmannvirkja. Nefndi hann þar fyrirhugaðar framkvæmdir hafnarmannvirkja í Þorlákshöfn. Einnig upplýsti hann um að íslenska sementinu hefði verið hafnað í Búrfellsvirkjun og væri þar notað innflutt lágalkalísement frá Danmörku.
Haraldur hafði nokkru fyrr hafið rannsóknir hjá Atvinnudeild Háskóla Íslands á possólaneiginleikum íslenskra gosefna en nýlegar rannsóknir í Bandaríkjunum höfðu sýnt möguleg varnaráhrif efna með þessa eiginleika á þróun alkalískemmda í steypu. Haraldur fól mér framhald þessara rannsókna, sem sýndu brátt að um 10% af fínmöluðu líparíti ( jarðefni með possólaneiginleika og hráefni við brennslu sementsgjalls hjá Sementsverksmiðju ríkisins ( SR ) í íslenska sementið gat minnkað alkalíþensluna í íslenskri steypu nóg, til þess, að ekki hlytust skemmdir af. Vopnaður þessum niðurstöðum fékk Haraldur því framgengt, að Iðnaðarráðherra skipaði Steinsteypunefnd árið1967. Hún var skipuð framámönnum í íslenskum byggingaiðnaði, þeim Haraldi Ásgeirssyni, Jóni Vestdal efnaverkfræðingi og framkvæmdastjóra SR, Aðalsteini Júlíussyni, Árna Snævarr, Sigurði Jóhannssyni byggingarverkfræðingi og Vegamálastjóra, Gústaf Pálssyni byggingarverkfræðingi og Borgarverkfræðingi og Grími Bjarnasyni formanni Meistarasambands byggingarmanna. Allir meðlimir nefndarinnar voru sem sagt verkfræðingar nema einn, Grímur Bjarnason. Þarna blasir starfsumhverfi okkar Ríkharðs við, er við störfuðu saman fyrir StN. Með stuðningi þeirra er stjórnuðu viðkomandi stofnunum fékkst nægilegt fjármagn til þess að leysa alkalíverkefnið á skömmum tíma.
Stjórnun
Árið 1972 hef ég svo störf hjá SR sem framkvæmdastjóri. Áður var Dr. Jón Vestdal þar framkvæmdastjóri. Á undan voru gengnar miklar deilur um stjórnun verksmiðjunnar, sem voru að miklu leyti pólitískar. Var þar um að ræða skattamál en einnig rætt um gæðavöntun sementsins, sérstaklega lágur brotstyrkur þess. Mitt hlutverk var aðallega að bæta gæði þess. Rannsóknir StN og RB og reynsla af steypu þessara ára hafa þó sýnt, að allt of mikið var gert úr þýðingu lágs þrýstiþols sementsins, eins og sjá má á mannvirkjum frá þessum tíma. Má þar t.d. nefna steypta kaflann, sem ennþá er við lýði á Vesturlandsvegi í Kollafirði og Esjumelum, sem ekki hefur þurft að endurnýja í 50 ár. Lausn á alkalívandanum leystist svo á tiltölulega skömmum tíma og gæði íslenska sementsins urðu ekki síðri en gerðist í nágrannalöndunum.
Þegar kom að gerð ráðningarsamnings í SR varð ég fyrst var við þá þróun, sem var að hefjast gagvart stöðu verkfræðinga í stjórnkerfinu og hér er fjallað um. Í lögum SR var tekið fram að framkvæmdastjóri skyldi hafa verkfræðimenntun. Þá kom upp krafa um að skipta framkvæmdastjórastarfi SR í tvennt, framkvæmdastjóra tæknisviðs og framkvæmdastjóra viðskiptasviðs. Þetta hafði þá verið gert Í Áburðarverksmiðju ríkisins, sem einnig var verksmiðja í eigu ríkisins með hliðstæðum lögum. Þetta mál var pólitískt en ég setti það ekki fyrir mig, mitt takmark með starfinu var að bæta gæði vörunnar. En sé litið til baka var þarna um 1970 komin tilhneiging í þessa átt. Þessi sviðsmynd af stjórnsýslunni 1970 sýnir glöggt hversu mikil þessi breyting hefur orðið á s.l. 50 árum.
En aftur til mygluvandans. Í grein minni í febrúar 2020 minntist ég á tillögu fulltrúa Sjálfstæðis- og Miðflokks í stjórn Reykjavíkur um að borgin léti fara fram rannsókn á mygluvandanum og kæmi með tillögur um lausn hans. Ég tók undir þessa tillögu, þó að ég teldi hugmyndir um orsakir vandans í henni væru óvissar að órannsökuðu máli. Ekki varð borgin við þessari tillögu, en viðkomandi ráðuneyti lagði í þess stað allar byggingarrannsóknir niður með lokun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Síðan hefur ekkert heyrst af þessum málum annað en reglulega heyrist um ný myglutilfelli. Eina raunhæfa lausnin hlýtur þó enn sem fyrr að vera endurreisn byggingarannsókna á Íslandi, þar sem þetta vandamál ásamt öðrum verði krufið til mergjar og leiðir fundnar, til þess að koma í veg fyrir sem flesta byggingargalla.
Höfundur er fyrrverandi tæknilegur framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins.
Athugasemdir (3)